Greinasafn fyrir merki: ást

Þrífst ástin á einmanakennd?

Morgunblaðið/menning: Rætt verður um ástina í Heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudagskvöldið 15. febrúar kl. 20. Gunnar Hersveinn mun stýra umræðum sem gestir taka virkan þátt í, um eðli ástarinnar og kraftana sem eru þar að verki.
Er ást losti, vinátta eða kærleikur? Er ástin háð tíma, stétt og viðhorfi eða er hún alltaf og alls staðar eins? Er viðhorf Íslendinga til ástarinnar sprottið úr norrænum sögum eða er það ef til vill sprottið úr forngrískri heimspeki og ástarbókmenntum miðalda? Þetta eru sumar spurninganna sem ber á góma í Heimspekikaffi undir stjórn Gunnars Hersveins, sem haldið verður í Gerðubergi miðvikudaginn 15. febrúar, klukkan 20.00. Gestur kvöldsins verður Aðalheiður Guðmundsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Aðalheiður hefur fjallað um ástina í bókmenntum fyrri alda og er meðal annars höfundur bókar um norrænu arfsöguna Úlfhams sögu.»Við byrjum hjá Grikkjum til forna og ræðum meðal annars hugmynd um ástina út frá kenningu Aristófanesar, um að maðurinn og konan hafi upphaflega verið ein vera sem guðirnir skiptu í tvennt,« segir heimspekingurinn Gunnar Hersveinn. Í þeirri táknsögu um ástina segir hann helmingana síðan leita hvor annars. »Að sumu leyti er ástin þá söknuður og þrífst á einmanakennd og löngun til að finna hinn helminginn,« bætir hann við.»Til umhugsunar verður lögð fram tilgáta þar sem ástinni er skipt í þrennt og reynt að raða hlutunum upp á ýmsan hátt. Það eru hinn erótíski þáttur, þáttur vináttunnar og hinn andlegi þáttur.«Aðalheiður segir frá riti Rómverjans Óvíðs sem skrifaði rit sitt Ars amatoria (Listin að elska), hún hefur einnig skoðað ástina í riddarasögum og hvernig kenningar um hana hafi borist fyrst til Íslands, meðal annars í riti eftir Óvíd, því elsta sem til er um þetta efni.»Við Aðalheiður munum ekki bara tala, heldur er þetta umræðuvettvangur og gestirnir taka við,« segir Gunnar um Heimspekikaffið. »Við hvert borð verða ákveðnar spurningar um ástina ræddar og tjá hóparnir sig um þær.«
efi@mbl.is Morgunblaðið 14.02.12
Deila