Greinasafn fyrir merki: Fjölmiðlar

Ábyrgð annarra en kennara

Efla þarf kennslu í gagnrýnni hugsun, siðfræði og kynjafræði  – en það dugar skammt ef enginn tekur ábyrgð nema kennarar og foreldrar. Bankahrun og Alþingi samþykkir í kjölfarið kennslu í heimspeki. Hrun öfgakarlmennsku og við viljum kenna kynjafræði í skólum. Einn kennari getur ekki bjargað heiminum.

Áhrifaríkir hópar innan viðskiptalífs, fjölmiðla og stjórnmála gera oftast ekki ráð fyrir því að þurfa að svara fyrir ákvarðanir sínar. Þeir styðja ekki það sem fram fer í skólastofunni og þegar eitthvað hrynur bregðast þeir við með réttlætingum og gagnárásum – eða með því að segja að efla þurfi kennslu í gagnrýnni hugsun.

Samábyrgð liggur hjá fjölmiðlum. Ritstjóri sem velur ævinlega karla til að gegna yfirmannastörfum og felur konum önnur viðfangsefni en körlum hefur óbein áhrif á jafnréttisbaráttuna í landinu. Fjölmiðlar sem segja aðeins hálfa söguna eru hættulegir lýðræðinu. Fjölmiðlar sem hampa heimskunni vegna vinsælda eru hættulegir. Þetta er ekki léttvægt, allt hefur þetta áhrif. Það er sama hversu oft og lengi kennari fræðir ungmennin, það er oftast fyrir bí, ef fjölmiðlar og fyrirmyndir hrópa eitthvað annað.

Fjölmiðlar eru meðal áhrifaþátta á heimilum og skólum, en stundum heyrist fjölmiðlamaður þó segja þegar hann er spurður um ábyrgð sína: „Ég segi einungis frá því sem gerist“ og „Ég læt fólk fá það sem það vill.“ Líkt og hann sé auðmjúkur þjónn sem semur efni eftir vilja annarra. Hann talar ef til vill aðeins við þá sem valda flytja áróður, valda usla og hneykslun og býst svo við að ábyrgðin liggi öll og alltaf hjá móttakandanum.

Þegar eitthvað hrynur er iðulega knúið á skólastofnanir um að kenna meira um sammannleg gildi. Í skólum á að efla siðferðiskennd og samskiptahæfni og örva samfélagsvitund eða mennta vitræna þegna sem hafa hæfileika til að setja sig í spor annarra og finna til með öðrum. Ætlast er til að í skólum læri börn að taka þátt í umræðum um fordóma, erfiðleika í samskiptum, einelti, samskipti kynjanna, fjölmenningu, siðferðileg álitamál og um lýðræði, svo brot sé nefnt. En spyrja má: hvar er ytri stuðningurinn við það starf að kenna um manngildi?

Það er ekki nóg að búa til námskeið í grunnskóla eða framhaldsskóla, við þurfum einnig að standa með efninu og kennaranum, fylgja því eftir og gera kröfur til annarra, til viðskiptalífs, fjölmiðla og stjórnmálamanna. Hættum að leyfa fólki að firra sig sjálft ábyrgð.

Algengasta klisjan er að fjölmiðlar endurspegli samfélagið en í henni felst afsökun eða réttlæting til að taka ekki ábyrgð. Betra er að segja að fjölmiðlar taki þátt í mótun samfélagsins, mótun skoðana og hegðunar. Fjölmiðill tekur einfaldlega undir fjandsamleg viðhorf til kynjanna með því að velja blaðamenna eða þáttastjórnendur sem hvetja til ofbeldis og kúgun kvenna. Hann getur ekki firrt sig ábyrgð, þvert á móti verður hann samábyrgur. Hversu oft þarf að minna á þetta?

Hvernig getur einn kennari bjargað málunum ef markaðurinn, fjölmiðlar, viðskiptalíf og stofnanir vinna ekki með honum? Hvar er þá stuðningurinn? Hverjir aðrir en kennarar ætla að styðja foreldra til að ala upp sterka þegna í lýðræðisþjóðfélagi? Við skulum ekki telja okkur trú um að öllu séu bjargað með því að kenna heimspeki og kynjafræði í skólum. Það er nauðsynlegur grunnþáttur – en aðrir eiga að taka ábyrgð líka. Gerum þá kröfu!

Fjölmiðlar ættu með öðrum orðum að taka meiri þátt í því að fjalla um sammannleg gildi og hafa þau sem mælikvarða á ákvarðanir um efnisval. Fjölmiðill sem kýs að taka ábyrgð, reynir að forðast að falla í gryfjur hættulegra fordóma um til dæmis kynin og trúarbrögð. Hann lætur ekki mata sig á því sem aðrir vilja selja og byggist á kúgun annarra. Fjölmiðill má ekki selja notendur sína með von um vinsældir þeirra og hann ræður ekki fólk til starfa sem haldið er mannfyrirlitningu eða er sama um allt og alla. Er það ekki augljóst?

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Deila