Greinasafn fyrir merki: Forseti Íslands

Þanki um forsetakosningar IV

Eineygt feðraveldið eys um þessar mundir karllægu trausti yfir Ólaf Ragnar. Hann er sagður föðurlegur forseti með botnlausa reynslu og visku.

Feðraveldið breiðir um leið út lúmskum efasemdum um Þóru. Hún er sögð ung og reynslulaus stelpa með barn á brjósti. Það hefur greinilega ekki gildi að vera móðurleg, kvenleg eða að vera kona. Kona táknar ekki heldur reynslu eða visku í táknfræði feðraveldisins, ekki skipulag heldur óreiðu …

Hitt kynið ógnar eineygða risanum enda knýr það á um jöfnuð, samráð, jafnrétti,  mannréttindi og margbreytilega veröld sem horft er á með báðum augum.

Of margir höfðu fyrir of stuttu síðan of mikla trú á þrítugum körlum í útrásinni og of margir treystu þeim fyrir sparifé sínu og þjóðareignum. Þó voru þeir aðeins gráðugir ungkarlar sem framkvæmdu áður en þeir hugsuðu. En hlutu lof og fyrirgreiðslu forseta og forsætisráðherra Íslands og þökk fyrir agaleysi, dirfsku og óútreiknanlega hegðun sem fékk skrautyrðið víkingur hengt á einkennisjakkann.

En tæplega fertug kona? Er hægt að treysta henni? Er hún aðeins ung reynslulaus móðir? Trúum ekki áróðri og álitsgjöfum feðraveldisins.Hrökkvum upp úr höfganum, dröslumst út úr dáleiðslunni, skríðum burt undan sefjunaræðunni. Tökum hina margræðu áhættu og breytum til eftir 16. ára valdatíð karlsins.

Föllum ekki enn á ný í gryfur feðraveldisins því það sjálft er logandi hrætt við breytingar, nýjar ímyndir, hlutverk – og mest við konur sem falla ekki inn í sérhannað valdakerfið. Það er kaþólskara en páfinn. Það dregur nú fram öll sín rök og fínustu ráðgjafa til að hjálpa ÓRG og beinir spjótum sínum gegn Þóru.

Efumst, horfum, hlustum og gerum tilraun til að sjá í gegnum gerningarþokuna og heyra annað er hrópað er á torgum.

Gleðilega þjóðhátíð.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Deila

Þankar um forsetakosningar III

Varúð!
Sókrates lýsti sagnarandanum í mannshjartanu á einfaldan hátt: Röddin í brjóstinu varar einungis við en hvetur aldrei til dáða. Hún þekkir mörkin.
Frelsið þarfnast rýmis og einstaklingurinn þarf að sprikla og reka sig á. Sagnarandinn truflar ekki frelsið en það er hollt að hlusta þegar innri viðvörunarljós kveikna, þegar orðin nei og ekki berast um æðarnar.
Oft vitum við ekki alveg hvað við viljum en við vitum oft alveg hvað við viljum ekki. Ef við stefnum út fyrir hið heillavænlega, þá skynja vonandi flestallir innri rödd sem varar við: ekki fara þangað!
Ýmsar kenningar eru til um hvaðan þessi mörk eru og hvers eðlis sagnarandinn er, en hann snýst alltaf um það sem markar greinarmun á milli þess sem er rétt og rangt.
Allir eru sammála um að byggja upp nýtt og betra Ísland. Við gerum okkur þó óljósa grein fyrir því hvernig samfélag jöfnuðar og réttlætis verður til.
Við trúum vonandi að samfélagið verði sanngjarnt fyrir börnin sem vaxa nú úr grasi. Enginn vill tefja fyrir því en við þurfum væntanlega að breyta hugsun, hegðun, og vali í stað þess að kjósa það sama aftur og aftur.
MÖRG ANDLIT ÍSLANDS
Ísland hefur mörg andlit. Andlitin mótast eftir vali okkar og hegðun. Stóriðja gæti orðið áberandi hrukka, frelsi í fjalladal gæti mást út, sóðaskapur birst í fílapenslum, gestrisni í augum eða níska. Náttúran, tungan, þjóðin … hvernig mótast andlitið?
Forseti Íslands er þýðingarmikið andlit. Sitjandi forseti er andlit gamla tíðarandans sem getur ekki staðið upp og yfirgefið sviðið. Eigum við rétta honum hjálparhönd?
Hvað er heillavænlegast fyrir land og þjóð næstu árin? Vandasamt er að segja nákvæmlega til um það en þó má greina viðvörunarmerkin: Blindhæð! Torleiði! Brött brekka! Ósléttur vegur! Grjóthrun! Sviptivindur! Sleipur vegur! Steinkast!
Við stöndum nú frammi fyrir vali sem hefur áhrif á stöðu tíðarandans og viðhorf gagnvart framtíðinni. Það er til val um aðra leið, val um annan forseta. Hvað veljum við?
Sagnarandinn lætur á sér kræla, hann varar aðeins við, segir til um hvað skapi sundrung í stað sameiningar.  Hlustum á innri rödd. Gefum okkur tíma til að hlusta, þessi rödd er ekki hávær og krefst ekki athygli, hún hvíslar, hún bannar ekki heldur tekur upp viðvörunarmerkið sem hver og einn þarf að lesa á.
Varúð!

Þankar um forsetakosningar II

Hann vildi vera vinur þeirra. Hann greiddi götu þeirra með meðmælabréfum sem leiðtogar landa um víða veröld lásu. Hann kallaði þá vini sína, sagði þá skemmtilega og afburðasnjalla og að hyggilegt væri að treysta þeim til að gæta þjóðargersema og fjöreggja. Hann veitti þeim orður og bauð þeim oft heim til sín ásamt tignum erlendum gestum. Hann skrifaði upp á vottorð um heiðarleika þeirra. Hann vildi njóta virðingar þeirra, vera einn af þeim.
Hann virtist sáttur við að örfáir (viðskipta)vinir hans eignuðust allt, ekki bara hér á landi heldur helst sem mest í öðrum löndum. Hann heillaðist af íburði og einkaþotum vina sinna. Hann hvatti, hann trúði og efaðist ekki. Hann sagði þá dyggðumprýdda víkinga.
Hann sá ekki vel, heyrði heldur illa, skildi fremur treglega og nam því ekki staðar fyrr en við hengiflugið og fylgdist með vinum sínum falla. Líf þeirra var ekki aðeins blekking heldur hjúpað spillingu. Hann sá það ekki.
Hann náði taki á bjargbrúninni, lyfti sér upp og tók að leita að þjóðinni sem hann hafið yfirgefið sjálfur. Nú var hún það eina sem gat bjargað honum. Hann lagðist við fótskör hennar og tók að sleikja hana upp:
Hann talar og talar, bendir í allar áttir. Þetta var ekki honum að kenna. Vinir hans brugðust traustinu. Hann biðst jafnvel afsökunar (ef hann gerði eitthvað rangt) þótt hann iðrist kannski ekki. Segir með sannfæringarmætti hvað sé þjóðinni fyrir bestu og að hann geti sett saman lista í tíu liðum um leiðina til sigurs. Segist vera nauðsynlegur, það megi alls ekki vísa honum á dyr.
Hann er undraverður kappi. Hann vill vera vinur okkar. Hver stenst honum snúning?
Tenglar:

Þankar um forsetakosningar I

Mér leiðist forsetaframbjóðandi sem sífellt hugsar: hvernig get ég hitt í mark? Hvernig get ég unnið kosningarnar? Hvaða trix ætti ég að nota í dag? Hvernig get ég skotið á aðra? Hvernig get ég látið alla tala um mig? Hvernig get ég náð athygli alla daga? Hvernig get ég komist í fréttir? Hvernig get ég látið fólk gleyma því sem ég sagði í gær?
Mér leiðist forsetaframbjóðandi sem kannast ekki við sjálfan sig, sem er ekki það sem hann var og var ekki það sem hann er og verður ekki annað en það sem hentar hverju sinni og er ekki einu sinni það sem hann er eða virðist vera.
Forsetinn sem ef til vill fellur af stóli í sumar fékk þessi eftirmæli í rannsóknarskýrslunni: Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli… Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja. (Rannsóknarskýrsla Alþingis: 8. bindi, s. 178). Tekið skal fram að forsetinn kannast ekki við þessa lýsingu og hafnar þeim alfarið.
Mér leiðist forsetaframbjóðandi sem hefur níu líf, sem sífellt rís upp úr öskustónni og finnst það flott og tekst með lipurtungu sinni að sannfæra fólk aftur og aftur um það hann sé málið, hann sé nýr og endurnýjaður. Mér finnst það ekki aðdáunarvert.
Mér líkar á hinn bóginn forsetaframbjóðandi sem er ekki með eigin markaðsetningu á heilanum heldur kemur til dyranna eins og hann eða hún er klædd. Íslendingar segjast meta heiðarleika mest allra dyggða en eiga þó í erfiðleikum með að bera kennsl á hann. Það ætti að vera augljóst hver stendur í dyrunum í nýju fötum keisarans, samt fær sá frambjóðandi mest fylgi í skoðanakönnunum (ÓRG 56%, 1. júní).
Mér líkar forsetaframbjóðandi sem treystir á hugsjónir sínar og fylgir innri rödd en ekki markaðssetningunni. Mér líkar forsetaframbjóðandi sem hugsar ekki áður en setningarnar eru sagðar: hvernig kemur þetta út? Heldur mælir sannfæringu sína sem endist örugglega út daginn.
Meira síðar.
Gunnar Hersveinn lifsgildin.is