Greinasafn fyrir merki: Frelsi

FJÖLBREYTNI OG FRELSI

Frjáls þjóð á að reiða sig á marga kosti, til að geta valið, hafnað og orðið hún sjálf. Frjáls þjóð þarf að rækta með sér biðlund og hún þarf að geta geymt ósnerta fjársjóði til framtíðar. Frelsi þrífst aftur á móti illa á stað þar sem einlyndi ríkir, fáræði eða einn tónn. Frelsið er sinfónían og þjóðin hljómsveitin.
Margbreytileiki, fjölhæfni, fjölmenning,  fjölhyggja, fjölbreytni og marglyndi er auðlind mannlífsins. Fjölhæf lífvera leitar margra kosta í umhverfi sínu og er líkleg til að verða farsæl.  Jafnvel þótt henni bjóðist (glópa)gull fyrir land sitt og náttúruauðlindir velur hún fremur bundið valfrelsi á eigin forsendum en ánauð í boði annarra.
Jörðin, náttúran, umhverfið, landið, hvert svæði sem valið er til búsetu hefur oftast upp á marga kosti að bjóða, farsælast er að nýta þá með virðingu að leiðarljósi. Ef svæðið er lagt undir einn kost með víðtækri umbreytingu verða heimamenn of háðir og næsta kynslóð hefur ekki val eða tækifæri til að breyta á annan hátt en sú fyrri. Valfrelsið tapast.
Frelsi er grunngildi sem allir þrá. Of fáir búa við það og þeir sem njóta þess virðast ekki kunna að meta það til fulls og selja það frá sér. Sá sem glatar frelsinu af eigin mætti gerir það oftast með glýju í augum og gylliboð í eyrum um eitthvað annað og betra. Hann sér ekki lengur eigin auðlegð og tækifæri fyrir markaðssettum glansmyndum annarra.
Allir boða frelsi, jafnt stríðsherrar sem friðarsinnar, en eitt er víst að einhæfni, einlyndi, einn vegur, einn kostur og einn risi merkir ekki frelsi fyrir hinn almenna borgara heldur aðeins fyrir þá sem stjórna risanum. Iðulega þarf því að spyrja: frelsi – handa hverjum?
Fjölbreytni, marglyndi, fjölhyggja og fjölhæfni eru aftur á móti farvegir frelsis, þau skapa frjóan jarðveg og menningu á árbakkanum.
NÝ OG BETRI VERÖLD
Manneskjan er frjáls vera á jörðinni. Hún er ekki undirokuð af annarri lífveru líkt og húsdýr. Hún er háð aðstæðum hverju sinni en hefur tilhneigingu til að skapa sér veröld þar sem óvissuþættir er útilokaðir. En það er aldrei hyggilegt fyrir mannfélag að verða of háð einum kosti – geti það komist hjá því.
Frelsið er ekki kapphlaup um verðmæti. Sá sem hleypur með aðeins eitt í huga kemst ef til vill fyrstur í mark, en það er ekki heillavænlegt lífsmarkmið að sigra aðra í samkeppni – jafnvel þótt slíkt sé fullyrt án afláts.
Borgarar í hægfara samfélagi óttast ekki að allt hverfi eða tapist á einu augabragði – því biðlundin er sterkari en eirðarleysið. Borgarar í hraðasamfélaginu kvíða því á hinn bóginn daglega að tímaglasið tæmist og fórna því endrum og eins öllu fyrir ekkert.
Endalok frjálsrar þjóðar eru falin í freistingunni til að selja sig öðrum.
Frelsi og fjölbreytni fylgjast að. Þjóð sem vill rækta og efla frelsið skapar fjölbreytt atvinnulíf og frjóan jarðveg sem hún plægir sjálf í sátt við umhverfið. Hún nemur öll hljóðin í náttúrunni og heyrir ekki aðeins einn tón heldur heila sinfóníu.

Gunnar Hersveinn/ www.lifsgildin.is

Deila

Frelsi og ábyrgðarkennd

Ábyrgðarkenndin dofnar í samfélagi þeirra sem trúa að allt bjargist þótt þeir standi sig ekki. Sá sem verður of góðu vanur verður firringunni að bráð. Ábyrgð og frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.
Ábyrgð er framandi hugtak fyrir þá sem ofmeta eigið frelsi. Ofsafengið frelsi, skefjalaust frelsi, takmarkalaust frelsi, „ég vil fá að gera það sem ég vil, enginn hefur rétt til að hindra áform mín,“ segir hinn ábyrgðarlausi.
Frelsi og afstæðishyggja eru ekki gott par. Verðleikar annarra þurrkast út, einnig greinarmunurinn á réttu og röngu, góðu og vondu og náttúru og borg.
Afstæðishyggja er að sumu leyti afstöðuleysi. Manneskja getur verið umburðalynd, hún getur verið víðsýn en það vegur ekki þungt nema hún taki sér einnig stöðu með lífinu. Afstöðuleysið er firring, skortur á mannúð.
Heiðarleg manneskja lýsir því ekki yfir að allt afstætt, því það er samhljómur milli hugsjóna og athafna í lífi hennar. Hún vill opið og gagnsætt samfélag. Afstæðishyggjumaður vill ekki ramma sem þvingar, aðeins frelsi án marka. Frelsi án afleiðinga fyrir hann sjálfan. Það er afstaðan – þegar allt kemur til alls.
Frelsi til og frá, frelsi fram og aftur blindgötuna … en frelsi án kærleika er einskis virði, frelsi án ábyrgðar en innantómt og hættulegt. Frelsi í huga hins skammsýna er ekki vænlegt. Og ekki heldur nauðsynlega í huga hins framsýna.
Frelsið er foss, frelsið er jökulá en þegar það flæðir yfir bakka sína eyðileggur það umhverfið sitt.
Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu.
Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.
Lífið í landinu er boðhlaup og hver kynslóð heldur á keflinu hverju sinni, tók við því og réttir það fram til næstu kynslóðar. Ábyrgðin felst í því að bregðast ekki. Sá sem hleypur og hugsar „Þetta reddast“, skortir næmni fyrir samhengi hlutanna.
Skammsýn þjóð trúir að allt muni reddast. Hún er ístöðulaus og fljótfær. Hinn skammsýni er snöggur að samþykkja og framkvæma – en hann verður oft skák og mát.
Ábyrgð og frelsi þarfnast víðsýni og tíma. Víðsýnt viðhorf hægir á tímanum, ellefta stundin rennur ekki upp og kapphlaupið við tímann rennur sitt skeið. Betri tími gefst til að ala upp börn, kanna kringumstæður, meta gögn, meiri tími til að íhuga fortíðina og nútíðina, hyggja að náttúruauðlindum, næstu kynslóðum, hlýnun jarðar af mannavöldum og hvað skapi hamingju og hvað ekki.
Ef ábyrgð og frelsi tengjast nánum böndum skapast rúm fyrir yfirvegun, stöðugleika og víðskyggni.
Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is