Greinasafn fyrir merki: friðarmenning

Námskeið: Hugskot, skamm-, fram- og víðsýni

Namskeið

Hugskot, skamm-, fram- og víðsýni. Námskeið sem hentar bæði í kennslu og daglega lífinu.

Viltu bæta samfélagið? Viltu vera kraftmikill borgari sem stendur vörð um gæðin og hefur færni og leikni til að greina ímyndir, fordóma og misrétti? Þá er þetta námskeið fyrir þig.: Efni bókarinnar Hugskotskamm-, fram- og víðsýni eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur er ofarlega á baugi um þessar mundir enda beint gegn rugli og skekkjum í samfélaginu. Þá hefur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari látið að sér kveða á þessum vettvangi. Þau þrjú sjá um kennsluna á námskeiðinu.

Nú er kallað eftir kraftmiklum borgurum sem hafa hugrekki til að láta að sér kveða í samfélaginu. Til þess þarf að efla gagnrýna hugsun og hvers konar færni til að greina og meta áreiti og áróður í samfélaginu. Á námskeiðinu er m.a. greint frá samhenginu á milli flokkana, staðalímynda og fordóma. Þá er fjallað um jafnréttismál, friðarmenningu, borgaravitund og visku. Fjölmörg nýleg dæmi verða nefnd til sögunnar og rými gefið fyrir umræðu.

Tímariti um uppeldi og menntun (2.tbl -2016) er dómur um bókina Hugskot: „Markmið bókarinnar er að efla gagnrýna hugsun, og það er grundvöllur þess að fólk vakni til vitundar, skilji umhverfi sitt og bregðist við því á ígrundaðan, upplýstan hátt … frábær lesning fyrir alla sem starfa með börnum og ungmennum. “ Sjá dóm:  Hugskot -besta bókin: https://ojs.hi.is/tuuom/article/view/2440/1323.  Námskeiðið er fyrir alla sem vilja skapa betra samfélag.

Tími: Þriðjudaginn 15. ágúst, kl. 9-12. Staður: Borgarholtsskóli
Umsjón/leiðbeinendur: Gunnar Hersveinn heimspekingur og rithöfundur, Friðbjörg Ingimarsdóttir MA i mennta- og menningarstjórnun og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari í Borgarholtsskóla.

Verð: 7.500 kr. og hægt er að fá námskeiðsgjald endurgreitt frá stéttarfélögum.

Skráning í tölvupósti á netfangið hannabjorg@bhs.is sími 861 7404.

Þau sem skrá sig á námskeiðið fá bókina á tilboðsverði hjá IÐNÚ.

Tengill á viðburð

hugskot9

Deila

Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni

GHFI23

Ný bók eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur um öfluga borgararvitund er komin út.

Bókin Hugskot er handbók fyrir alla sem vilja taka þátt í baráttunni fyrir betra samfélagi. Umfjöllunarefninu er best lýst með hugtakinu gagnrýninn borgari sem felst í því að kunna skil á mannréttindum, vera læs á samtímann og þora að mótmæla.

Markmiðið er að efla kunnáttu og færni lesenda í að skyggnast inn í eigið hugskot, beita gagnrýnni hugsun ásamt því að greina ímyndir, fordóma, texta og skilaboð í samfélaginu.

hugskot9

Höfundar Hugskots hafa áralanga reynslu af starfi sem tengist efni bókarinnar, meðal annars sem kennarar og ráðgjafar. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra er með MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun og er sjálfstætt starfandi fræðikona í ReykjavíkurAkademíunni. Gunnar Hersveinn rithöfundur er menntaður í heimspeki og blaðamennsku og höfundur nokkurra bóka, þar á meðal metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu.

Hugskot er bók um gagnrýna hugsun, flokkanir, staðalímyndir, fordóma, jafnrétti, friðarmenningu og borgaravitund gefin út af IÐNÚ. Teikningar: Sirrý Margrét Lárusdóttir. Umbrot og hönnun: Bjarki Pétursson.

Tenglar

Facebooksíða

Iðnú – kaupa bók

Gagnrýnir borgarar mótmæla

AÐ MÓTMÆLA KÚGUN AF KRAFTI

um_gildin_frelsi

Þær sem mótmæltu hrelliklámi og hvers konar kúgun kvenna á óvæntan og hugvekjandi hátt 26. mars 2015 unnu lofsvert afrek sem krafðist hugrekkis.

Látum engan telja okkur trú um að við eigum ekki að búa við sömu mannréttindi og aðrir eða séum eitthvað minna virði eða meira en aðrir. Greinarmunur, aðgreining og aðskilnaður er ávallt byggður á fordómum, valdabaráttu og hroka. Við erum án vafa öll gerð úr sama efni.

Látum aldrei freistast til að trúa að einhver tiltekinn hópur hafi rétt til að deila og drottna í nafni einhvers málstaðar. Ekki í nafni guða, ekki í nafni stjórnmálahreyfinga, ekki í nafni lýðræðis, ekki í nafni yfirborðs-jafnaðar sem hægt er að veifa og dreifa.

Mismunun er af mannavöldum getur verið söguleg eða félagsleg – en hún er aldrei réttlát. Hún getur jafnvel verið skiljanleg við einkennilegar aðstæður – en engu að síður ber að hafna henni.

Heillavænlegast er að vera gagnrýninn og hugrakkur borgari sem líður ekki  kúgun og ofbeldi. Bann við mismunun í samfélagi felst í því að allir hafi sama rétt og tækifæri á öllum sviðum. Enginn sé útilokaður eða lægra settur vegna, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar eða lífsskoðunar. Heldur standi allir jafnvígir því mismunun er ávísun á miskunnarleysi.

Ótal spurningar eru að baki, efi og jafnvel þjáning en það er til grunnur sem hægt er að byggja á og er heillavænlegri en stefnur og straumar í stjórnmálum og trúmálum. Það eru mannréttindin. „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum,“ segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem ekki var skráð fyrr en eftir síðari heimstyrjöldina eða 1948.

Versti óvinur mannréttinda er óttinn, óttinn við vald kúgarans eða jafnvel vald skriffinnskunnar. Annar illvígur óvinur er skeytingarleysið, að vera sama, að finna ekki til með öðrum, að rækta ekki með sér samkennd og/eða sætta sig við óréttlæti.

Virk andmæli eru dyggð sem beinist gegn kúgun, yfirgangi, ofbeldi, einræði, blekkingu og misnotkun valds, og einnig sinnuleysi og slæmum venjum. Þær manneskjur sem standa vörð um mannréttindi eiga lof skilið, þau sem berjast fyrir jafnrétti, réttlæti og jöfnuði eru ævinlega hugrökk því þau láta óttann ekki buga sig.

Þær sem andmæltu hrelliklámi og kúgun kvenna á óvæntan og hugvekjandi hátt 26. mars 2015 unnu lofsvert afrek sem krafðist hugrekkis. Þær tóku áhættu, þær fundu óttann en stigu þrátt fyrir það fram og mótmæltu af krafti.

MÓTMÆLI SEM DYGGÐ

Mótmæli geta sprottið upp vegna réttlátrar reiði en líkt og aðrar dyggðir þarf að æfa þau. Tökum því undir með Stéphane Hassel (1917- 2013) sem var í frönsku andspyrnuhreyfingunni, tók þátt í því að skrifa Mannréttindayfirlýsingu SÞ og skrifaði hina merku bók, Mótmælið öll! þar segir „Finnið ykkar eigin ástæðu til að mótmæla, leggist á sveif með þessum mikla straumi mannkynssögunnar.“  Hver persóna þarf að móta hugsjón sína um betri heim án kúgunar, skeytingarleysis og ofbeldis og andmæla því sem stendur í vegi fyrir réttlæti. Allir þurfa að gera eitthvað.

Friðsöm mótmæli eru ekki aðeins byggð á réttlátri reiði heldur fylgja þeim kraftur og gleði ef þau áorka einhverju. Þau hefjast í huganum þegar við rekum okkur á, þau geta birst sem gagnrýnin hugsun, grein í blaði eða ber brjóst þar sem nekt er talin ósæmileg. Slík mótmæli felast í því að benda á það sem miður fer. Friðsamleg mótmæli fela stundum í sér brot á einstaka reglum, hefðum og siðum en þau geta verið meira en tímabær og skiljanleg.

Konur efndu til friðsamlegra og óvæntra mótmæla gegn hrelliklámi og tókst að ná athyglinni, umræðunni, valda ærlegum usla í samfélaginu og þeim tókst að afhjúpa marga í kringum sig.

Gunnar Hersveinn rithöfundur www.lifsgildin.is

 Tengill

Mótmælið öll!

 

 

 

 

HARÐÚÐ Á TÍMUM MANNÚÐAR

12_vef_feb_heimspeki_visitHvers vegna gera samfélög mannréttinda og mannúðar loftárásir? Er það vegna vantrúar á þá mannúð sem þau boða? Er það vegna þess að harðúð virkar strax, einn, tveir og þrír og sprengjan springur? Allir dauðir.

Harðúð virkar vissulega umsvifalaust, hún er löðrungur, ofbeldi, miskunnarleysi. Hún er refsing, þjáning og dauði. Hún fælir og kemur stundum í veg fyrir ódæði en ofast er hún skammtímalausn. Hún elur á hatri, óbeit og grimmd. Hún fitar púkann á fjósbitanum sem nefndur er í þekktri þjóðsögu. Hann fitnar og fitnar og svo springur hann framan í þann sem fæðir hann. Veikleiki harðlyndis stígur fram og fellir harðstjórann á eigin bragði.

Mannúð er af öðrum meiði. Hún er sett í öndvegi en gallinn er að of fáir hafa hugrekki til að treysta á hana og verk hennar, jafnvel þótt allt mæli með henni. Mannúð er tímarek og hún krefst þolinmæði og hugrekkis. Hún þarfnast íhugunar um hvað beri að gera, hvernig og á hvaða forsendum. Hún er sáttaleið og púkinn á fjósbitanum grennist og lyppast niður.

Mannúð er mildi og mildin lætur ekki mikið yfir sér og stefnir á líf en ekki dauða, vöxt en ekki visnun. Fári klappa fyrir afrekum mildinnar því þau eru langtímaafrek. Ef hún fær viðurkenningu er það eftir áratuga starf.

Hver er hún þessi mildi? Í stað loftárása býður hún upp á félagslega aðstoð, í stað útilokunar býður hún upp á samkomulag, í stað fyrirlitningar býður hún virðingu, í stað reiði býður hún sátt, í stað grimmdar býður hún uppbyggingu, í stað dauða veitir hún tækifæri til mannsæmandi lífs. Hún drepur ekki úr launsátri eða lofti eins og heigull heldur gengur í eigin nafni andspænis fátækt, misrétti, vansæmd og aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi – og hlúir að veikustu þáttum samfélagsins til að efla þá.

Mildi vísar á blíðu og miskunnsemi, gjafmildi og jafnvel örlæti.

Mildin hefur mátt þola háð og spott í árþúsundir jafnvel þótt harka sé frumstætt fyrsta viðbragð, en mildin er siðfáguð. Hún er falin fegurð sem opinberast ekki fyrr en eftir á. Hún snýst um að leggja eitthvað á sig til að sættast, um að ganga annan veg en hefðin kveður á um. Mildin er langtímalausn.

Aðferð mildinnar kemur í veg fyrir að mótspyrnumaðurinn þurfi að fórna öllu. Hann getur snúið aftur án vansæmdar og hefndarhugar. Mildin segir við hann: „Ég er reiðubúin að tapa einhverju til að forða því að þú tapir öllu“. Mildin er andstæð kúgun sem er skuggi hörkunnar. Særið engan er friðarregla  mildarinnar, ræktið lífið og verið gæði með hughreysti.

Mildin sjálf og mjúklyndið er hvorki háð réttlæti eða frelsi, hún er aðeins aðferð til að takast á við hlutina, hennar aðferð er þó réttlát og opnar fyrir frelsi. Seinvirk aðferð mildinnar knýr fólk til sátta á veginum en harðneskjan krefst skyndilausnar sem í raun er aðeins vopnahlé. Harkan þrífst á fjarlægð og fordómum. Mildin á nærveru og samlíðun.

Hvers vegna gera samfélög sem kenna sig við mannréttindi og mannúð loftárásir þar sem óbreyttir borgarar farast, karlar, konur og börn, jafnvel stórfjölskyldur. Hvers vegna er innrásin í Írak 2003 ekki víti til varnaðar? Hvers vegna feta Vesturlönd aftur og aftur í fótspor hugleysis?

Þetta er vonandi verðugar spurningar. Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um styrkleika mjúklyndis og veikleika harðlyndis á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 15. október og Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, talar um birtingarmyndir ófriðar fyrir konur og börn í Afganistan en hún er nýkomin heim eftir hálfs árs vinnu í Afganistan á vegum friðargæslunnar sem kynjasérfræðingur hjá NATO.

Inga Dóra hefur margt að segja en hún var jafnréttissérfræðingur í höfuðstöðvum Alþjóðaliðsins í Afganistan í sex mánuði á þessu ári á vegum Friðargæslu Íslands. Staða kvenna í Afganistan er einna verst í heiminum þrátt fyrir að lífsgæði þeirra hafi aukist undanfarin 10 ár. Staða kvenna á Íslandi er aftur á móti best samkvæmt sömu könnnunum World Economic Forum.

Íslendingar hljóta því að hafa eitthvað að gefa öðrum þjóðum. Jafnrétti er falleg gjöf til annarra.

Það var ekki fyrr en árið 2009 sem lög gegn kynbundnu ofbeldi gerðu það refsivert í Afganistan að selja/gefa konur og stúlkur sem sáttargjöf í deilum, kveikja í eða brenna með sýru, nauðga eða gifta barnungar stúlkur.

Hvernig væri að hafna harðúð endanlega og treysta á afrek mannúðar?

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 15. október 2014

 

 

Ísland – Palestína – Hvað getum við gert?

peace

Ísland á ekki landher, flugher eða sjóher, engin hervopn, engar herdeildir, enga hershöfðingja, engan stríðsmálaráðherra, engar hervarnir, ekkert af neinu tagi sem getur flokkast undir stríðsrekstur. Ísland gæti þar af leiðandi ekki gert neins konar innrás, hvorki sótt né varið sig. Sama má segja um Palestínu.

Ef stríðsleiðtogar annars lands myndu beita ógnarherstyrk sínum til að skelfa, hræða og myrða Íslendinga, rústa híbýlum þeirra, skólum, sjúkrahúsum og hverju öðru sem stríðsrekstur getur þurrkað út, myndum við sennilega óska þess að einhver rétti hjálparhönd og reyndi að skilja stöðu okkar. Ef Ísland væri undir járnhæl stríðsherra sem margir óttuðust, myndum við eflaust óska þess að einhverjir hefðu hugrekki til að vera vinir okkar.

Þjóðarleiðtogar myndu ef til vill þegja og helstu fjölmiðlar láta sér nægja að lýsa annarri hliðinni og stilla málinu upp sem átökum milli tveggja jafnvígra aðila, með og á móti, sigur og ósigur.

Allir ættu þó að vita að stríðsaðferðin sem leiðtogar Ísraelsríkis beita gagnvart Palestínumönnum gerir aðeins illt verra. Þeir vita það sjálfir, því ef það væri áhugi á nágrannakærleik og friðsemd þá yrði allt annarri aðferð beitt í samskiptunum. Sú aðferð er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

 ÁTAKAMENNING – FRIÐARMENNING

Friðaraðferðin er jafngömul og jafnkunn og aðferð átakanna en hún er hljóðlát og þarfnast alúðar og tíma. Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún er ekki flugskeyti. Hún bindur ekki, skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það á ekki að gera. Hún setur aðeins eitt bann.

Hún er friðurinn, heimsfriðurinn í hjartanu. Hún er silfurreglan: Ekki óska neinum þess sem vekur þér andstyggð. Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

Ekki gera öðrum það sem þú sjálf/ur forðast.

Eflaust má finna undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarna og gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – en reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlæti er aldrei samferða ofbeldi, kúgun og manndrápi.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Hann skýtur ekki fyrst og býður svo í friðarviðræður.

Friður er lærdómsferli með jöfnuð að leiðarljósi. Hann kemur böndum á agaleysi og eyðir tortryggni sem lengir bilið á milli manna og þjóða. Hvar sem ójöfnuður fær að vaxa brýst fyrr eða síðar út styrjöld. Friðarmenning er aftur á móti ljósið út úr óreiðu heimskunnar.

Öll viðleitni sem snýst um friðarmenningu hefur jöfnuð að mælikvarða: að stytta bil á milli manna, hópa og þjóða í öllum málaflokkum og draga úr stéttaskiptingu. Það er sterk fylgni milli réttlætis og jafnaðar. Árás á Gaza núna breikkar bilið, skilur fólk að og skapar yfirstétt og undirskipun, ríkidæmi og fátækt og hvaðeina annað sem reisir múra á milli manna og þjóða.

Allir ættu því að gera sér ljósa grein fyrir að friðarreglan er ekki iðkuð um þessar mundir á þessu tiltekna svæði og það bitnar á borgurum. Hvað getum við gert? Jafnvel þótt við séum smá og virðumst marklaus, þá munum við aldrei hætta að mótmæla heimskunni og grimmdinni.

Fylgjumst með, knýjum á, mótmælum, það skiptir máli, jafnvel afstaða, viðbrögð og rödd okkar skiptir máli. Efumst ekki, við erum öll jöfn gagnvart mannréttindum hvar sem við búum, hvort sem það er í Gaza, Manhattan eða í Breiðholtinu.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

 

 

EKKI GLATT Í DÖPRUM HJÖRTUM

barnOrkan brennur upp í taumlausri löngun til að vera fremst þjóða. Enginn vill rifja upp mislukkaðar tilraunir til að þjóna þessari þrá, aðeins er horft fram á veginn í leit að nýjum tækifærum til að öðlast virðingu fyrir að vera best í heimi.

Aðeins ef metnaðurinn stæði til þess að vera þjóð meðal þjóða, stolt þjóð sem tekur þátt í því með öðrum að bæta lífskjör annarra jarðarbúa. Þessi metnaður væri nóg fyrir vestræna velmegunarþjóð í gjöfulu landi.

Ísland hafði sett sér metnaðarfulla áætlun um að komast yfir 0,3% til þróunarsamvinnu en viðmiðunarlöndin Danmörk, Svíðþjóð og Noregur veita yfir 0,7% af þjóðarframleiðslu til þessa málaflokks.

Nú berast þær fréttir að Ísland stefni fremur undir 0,2% en í þá átt sem önnur Norðurlönd ganga. Það er sorglegt, það er ekki vilji þjóðarinnar. Ákvörðun um niðurskurð í þróunarsamvinnu vinnur gegn þrá þjóðarinnar um virðingu.

Þjóð sem verður fremst þjóða í skjótfengnum gróða öðlast ekki virðingu, þjóð sem gortar af snilld sinni og þráir aðdáun valdaþjóðanna, verður annað hvort aðhlátursefni eða vekur öfund, ótta og óvild.

Til er lögmál sem ætti að höfða til stjórnmálafólks. Það hljómar svona: „Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin, 2010).

Mælikvarðar í vestrænni siðfræði, kennisetningar í trúarbrögðum, fjölmargar niðurstöður skáldsagna og hug- og félagsvísindarannsókna vitna um að meiri líkur eru á gæfu þeirra sem gefa en þeirra sem taka.

Þetta er lögmál í mannheimum sem á ekki aðeins við um einstaklinga heldur einnig þjóðir. Allir alast upp við þessa vitneskju og flestir heyra nefnt að allra best sé að gefa/hjálpa öðrum án þess að búast við endurgjöf – en trúir því einhver?

Það er ekki góð jólagjöf að draga úr þróunarsamvinnu í stað þess að efla hana. Í dag er ekki glatt í döprum hjörtum.

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Við getum breytt lífi annarra

Þróunarsamvinnustofnun

 

 

Ábyrgð fjölmiðla á stríði og friði

Val norsku Nóbelsnefndarinnar á framúrskarandi friðarsinnum varpar skýru ljósi á fréttamat íslenskra fjölmiðla. Verðlaunahafnir og afrekskonurnar Karman, Gbowee og Sirleaf voru nánast ónefndar í helstu fjölmiðlum landsins á sama tíma og klikkaðir karlar eru iðulega fyrsta frétt svo mánuðum skiptir.

I. FRIÐUR OG FJÖLMIÐLAR
Um leið og við fögnum friðarverðlaunahöfum árið 2011 er nauðsynlegt að gera þá smásmugulegu athugasemd: að Tawakkul Karman, Leymah Gbowee og Ellen-Johnson-Sirleaf hafa á þessu ári varla verið nefndar oftar en einu sinni á nafn í „helstu“ fjölmiðlum Íslendinga.

Fylgst er, aftur á móti, með klikkuðum einræðisherrum af sjúklegum áhuga. Eltingarleikur við áttræðan karl í Lýbíu er fyrsta frétt svo mánuðum skiptir. Karlinn er búinn að vera í sviðsljósi fjölmiðla í áratugi. Hann er hættulegur glæpamaður og baðar sig í kastljósi fjölmiðla og var ef til vill öðrum einræðisherrum fyrirmynd?

Tawakkul Karman sem nefnd hefur verið móðir byltingarinnar í Jemen komst næstum aldrei í gegnum glerþak íslenskra fjölmiðla. Ekki fyrr en hún fékk friðarverðlaun Nóbels. Ef til vill verður hún aldrei nefnd aftur, því viðleitni hennar fellur víst utan fréttviðmiða á Íslandi. Við munum hins vegar fá framhaldsfréttir af einræðisherra sem til dæmis fer í lest frá Norður-Kóreu til Japans án þess að segja neitt.

„Við náum ekki markmiðum um lýðræði og varanlegan frið í heiminum, njóti konur ekki sams konar réttinda og tækifæra og karlar til að hafa áhrif á þjóðfélagsþróun á öllum stigum,“ tilkynnti norska Nóbelsnefndin. Í Jemen eru konur lítt  sýnilegar né oft  hlustað á rödd þeirra og af þeirri hefð draga íslenskir fjölmiðlar dám. Afrek og hugrekki Karman er þó þúsund sinnum merkilegra en tilraunir hugleysingja til að vekja á sér athygli með ofbeldi.

Eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast er áhugasvið karllægra fréttastjóra. Einsýnt fréttamat þeirra snýst um stríð, stjórnmál, glæpi, viðskipti, valdabaráttu, gjaldþrot, hryðjuverk, réttarkerfi, stórslys, samgöngur, orkumál, eignarrétt, skattkerfi, ársreikninga, persónulega harmleiki og náttúruhamfarir … en Tawakkul Karman sem beitir gandhiískum aðferðum til að bylta samfélaginu er hvergi nefnd á nafn jafnvel þótt hún sé um það bil að breyta samfélagi sínu varanlega.

Ég hef fulla trú á að breytt fréttamat sé liður í því að breyta heiminum til betri vegar. Áhuginn á stríði, hamförum og dauða hvetur hins vegar aðgerðarsinna til að grípa til vopna til að ná athygli heimsbyggðarinnar. Norska Nóbelsnefndin hefur nú sett ný viðmið fyrir fjölmiðla. Hæglát friðaraðferð á að vera fréttnæmari en enn ein sprengja heimskunnar!

Nóbelsverðlaunahafarnir að þessu sinni eru allar þekktar af því að beita öðrum aðferðum en hin karllæga valdahefð mælir með. Tvær þeirra í Líberíu: Ellen Johnson Sirleaf sem er fyrsta afríska konan sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum og Leymah Gbowee sem hefur skipulagt hreyfingu kvenna, þvert á uppruna þeirra og  trúarbrögð.

Tawakkul Karman fékk verðlaunin fyrir forystu sína í baráttu fyrir réttindum kvenna, lýðræði og friði í Jemen, bæði fyrir og eftir „Norður-Afríska vorið“ segir Nóbelsnefndin og að friðarverðlaunin eigi að verða til þess að leggja lóð á vogarskálar baráttunnar gegn kúgun kvenna, sem enn sé við lýði í mörgum löndum, og til að sýna getu og möguleika kvenna í baráttu fyrir lýðræði og friði. Karman býr í landi þar sem einræðisherra hefur ríkt í 33 ár.

Ég tel að friðarverðlaun Nóbels að þessu sinni ættu að vera íslenskum fjölmiðlum hvatning til að endurmeta fréttamat og -viðmið. Fjölmiðlar eru ekki eyland heldur samábyrgir. Innan þeirra er vald, þar er menning og þar eru úrelt viðmið sem þarf að endurskoða. Eða hvers vegna ættu ungir fréttakonur á Íslandi að lúta viðmiðum sem sett voru af hræddum körlum í kalda stríðinu? Viðmið sem hleypa friðarsinnum eins og Tawakkul Karman ekki að, viðmið sem halda henni úti og utandyra, eru fúin, fúl og fölsk.

II. FRIÐARMENNING KVENNA
Skrifaðar hafa verið lærðar greinar, rannsóknir gerðar, skólar verið starfræktir og aðferðir þróaðar til að skapa friðarmenningu – en þrátt fyrir það er athygli fjölmiðla enn bundin við heimskuna og það sem virkaði fljótlega eftir síðari heimsstyrjöld. Hlustum á aðrar raddir.

Ellen-Johnson-Sirleaf hefur tekið þátt í að safna vitnisburðum af átakasvæðum. Ég skrifaði um það í bókinni Gæfuspor – gildin í lífinu (JPV.2005) og er ástæða til að rifja það upp, þökk sé norsku Nóbelsnefndinni. Neðangreind viðleitni ætti að vera daglega í fréttum ein svo er ekki:

[…] Í skýrslunni er ekki aðeins sagt frá stríðshrjáðum konum – heldur einnig konum sem sjaldnast er getið: Þeim sem vinna að friði og ættu að hafa völd til jafns við karla til að endurreisa samfélög. Körlum farnast ekki nógu vel við að byggja einir upp samfélögin.  Konur vilja taka áhættuna og fara óhefðbundnar leiðir til uppbyggingar – ekki með ofríki og ofstæki – heldur miskunnsemi. Þær vilja vinna gegn fátækt, misrétti og ofbeldi.

[…] Ráð þeirra [Rehn og Sirleaf] er að brjóta konum leið að upplýsingum, stefnumótun og ákvörðunum, ekki síst þar sem stríð eða friður kemur við sögu … Allir þurfa að taka þátt í friðarferlinu, fjölskyldan, samfélagið og stjórnvöld, en ekki aðeins utanaðkomandi karlar sem semja um vopnahlé.

[…] Heimildir sýna að flestar konur … vilja mennta heimamenn og skapa þeim tækifæri til að hjálpa landsmönnum til að sigrast á fátækt, misrétti og ofbeldi.“

III. FRÉTTAMAT
Hvað segja synir Gaddafis í dag? Svarið er hvarvetna. Hvað segir Karman í dag? Svarið þyrfti að vera hvarvetna. Áhrif fjölmiðla eru mikil og ábyrgðin í samræmi við það. Kynslóðir sem alast upp við alvarlega áhersluskekkjur, eins og hér hefur verið lýst, geta að mínu mati skaðast. Nóbelsnefndin á lof skilið fyrir góða ábendingu sem læra má af!

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Friðarmenning í Noregi

Viðbrögð Norðmanna gegn hryðjuverkunum í Ósló og fjöldamorðunum í Útey eru lofsverð, því þjóðin heitir sér því að leggja áherslu á kærleika og meira lýðræði. Það er ríkur þáttur í þeirri friðarmenningu sem Norðmenn hafa boðað.

Hugtakið friður er viðamikið og felur í sér tilfinningar og dyggðir. Friður er mennska sem borgarar eiga að rækta með sér. Friðarmenning er ekki vopnahlé eða skyndiákvörðun heldur margskonar starfsemi sem lýtur að sama markmiði: að rækta líf, særa engan og virða aðra.

Viðbrögð Norðmanna við ódæðisverkum á heimavelli skapa einhug og vekja þeim löngun til að efla kærleikann. Þau ætla að nota þjáninguna, ekki til að hefna sín, heldur til að vinna bug á uppsprettu og afleiðingum haturs og heimsku. Það er aðdáunarvert.

Friður er meginregla en ekki draumur, hann er veruleiki sem er forsenda betra lífs á jörðinni. Líkt og hægt er að ala upp hermenn og þjálfa þá til hernaðar er unnt að leggja stund á frið með uppeldi og þjálfun og kenna hann í skólum. Það er friðarmenning.

Menntuð stjórnvöld skapa aðstæður til að gera út um deilur og áföll á friðsamlegan hátt í stað þess að velja fjölfarna leið óttans. Verkefnið er að setja sig í spor annarra og markmiðið að skapa samkennd milli ólíkra einstaklinga. Það skapar frið og öryggi íbúa.

Norðmenn senda nú þau skilaboð til heimsins að svarið við illvirkjum sé meira lýðræði, gagnsæi og mannúð, svarið við hatri sé kærleikur. Ótta og illsku er vísað á bug. Þetta er sjaldséð, lofsvert og í anda ungmennanna í Útey sem börðust fyrir friði, jafnrétti og opnu samfélagi fyrir alla.

Það er sama úr hvaða ranni ódæðismenn eða hópar spretta, það er sama hvaða nöfnum þeir eru nefndir, það er sama hvort illvirki er kennt við hægri eða vinstri, austur eða vestur, það eru viðbrögðin sem skipta máli. Friðarmenning brýtur vítahring haturs.

Gunnar Hersveinn / lifsgildin.is