Greinasafn fyrir merki: friður

HARÐÚÐ Á TÍMUM MANNÚÐAR

12_vef_feb_heimspeki_visitHvers vegna gera samfélög mannréttinda og mannúðar loftárásir? Er það vegna vantrúar á þá mannúð sem þau boða? Er það vegna þess að harðúð virkar strax, einn, tveir og þrír og sprengjan springur? Allir dauðir.

Harðúð virkar vissulega umsvifalaust, hún er löðrungur, ofbeldi, miskunnarleysi. Hún er refsing, þjáning og dauði. Hún fælir og kemur stundum í veg fyrir ódæði en ofast er hún skammtímalausn. Hún elur á hatri, óbeit og grimmd. Hún fitar púkann á fjósbitanum sem nefndur er í þekktri þjóðsögu. Hann fitnar og fitnar og svo springur hann framan í þann sem fæðir hann. Veikleiki harðlyndis stígur fram og fellir harðstjórann á eigin bragði.

Mannúð er af öðrum meiði. Hún er sett í öndvegi en gallinn er að of fáir hafa hugrekki til að treysta á hana og verk hennar, jafnvel þótt allt mæli með henni. Mannúð er tímarek og hún krefst þolinmæði og hugrekkis. Hún þarfnast íhugunar um hvað beri að gera, hvernig og á hvaða forsendum. Hún er sáttaleið og púkinn á fjósbitanum grennist og lyppast niður.

Mannúð er mildi og mildin lætur ekki mikið yfir sér og stefnir á líf en ekki dauða, vöxt en ekki visnun. Fári klappa fyrir afrekum mildinnar því þau eru langtímaafrek. Ef hún fær viðurkenningu er það eftir áratuga starf.

Hver er hún þessi mildi? Í stað loftárása býður hún upp á félagslega aðstoð, í stað útilokunar býður hún upp á samkomulag, í stað fyrirlitningar býður hún virðingu, í stað reiði býður hún sátt, í stað grimmdar býður hún uppbyggingu, í stað dauða veitir hún tækifæri til mannsæmandi lífs. Hún drepur ekki úr launsátri eða lofti eins og heigull heldur gengur í eigin nafni andspænis fátækt, misrétti, vansæmd og aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi – og hlúir að veikustu þáttum samfélagsins til að efla þá.

Mildi vísar á blíðu og miskunnsemi, gjafmildi og jafnvel örlæti.

Mildin hefur mátt þola háð og spott í árþúsundir jafnvel þótt harka sé frumstætt fyrsta viðbragð, en mildin er siðfáguð. Hún er falin fegurð sem opinberast ekki fyrr en eftir á. Hún snýst um að leggja eitthvað á sig til að sættast, um að ganga annan veg en hefðin kveður á um. Mildin er langtímalausn.

Aðferð mildinnar kemur í veg fyrir að mótspyrnumaðurinn þurfi að fórna öllu. Hann getur snúið aftur án vansæmdar og hefndarhugar. Mildin segir við hann: „Ég er reiðubúin að tapa einhverju til að forða því að þú tapir öllu“. Mildin er andstæð kúgun sem er skuggi hörkunnar. Særið engan er friðarregla  mildarinnar, ræktið lífið og verið gæði með hughreysti.

Mildin sjálf og mjúklyndið er hvorki háð réttlæti eða frelsi, hún er aðeins aðferð til að takast á við hlutina, hennar aðferð er þó réttlát og opnar fyrir frelsi. Seinvirk aðferð mildinnar knýr fólk til sátta á veginum en harðneskjan krefst skyndilausnar sem í raun er aðeins vopnahlé. Harkan þrífst á fjarlægð og fordómum. Mildin á nærveru og samlíðun.

Hvers vegna gera samfélög sem kenna sig við mannréttindi og mannúð loftárásir þar sem óbreyttir borgarar farast, karlar, konur og börn, jafnvel stórfjölskyldur. Hvers vegna er innrásin í Írak 2003 ekki víti til varnaðar? Hvers vegna feta Vesturlönd aftur og aftur í fótspor hugleysis?

Þetta er vonandi verðugar spurningar. Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um styrkleika mjúklyndis og veikleika harðlyndis á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 15. október og Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, talar um birtingarmyndir ófriðar fyrir konur og börn í Afganistan en hún er nýkomin heim eftir hálfs árs vinnu í Afganistan á vegum friðargæslunnar sem kynjasérfræðingur hjá NATO.

Inga Dóra hefur margt að segja en hún var jafnréttissérfræðingur í höfuðstöðvum Alþjóðaliðsins í Afganistan í sex mánuði á þessu ári á vegum Friðargæslu Íslands. Staða kvenna í Afganistan er einna verst í heiminum þrátt fyrir að lífsgæði þeirra hafi aukist undanfarin 10 ár. Staða kvenna á Íslandi er aftur á móti best samkvæmt sömu könnnunum World Economic Forum.

Íslendingar hljóta því að hafa eitthvað að gefa öðrum þjóðum. Jafnrétti er falleg gjöf til annarra.

Það var ekki fyrr en árið 2009 sem lög gegn kynbundnu ofbeldi gerðu það refsivert í Afganistan að selja/gefa konur og stúlkur sem sáttargjöf í deilum, kveikja í eða brenna með sýru, nauðga eða gifta barnungar stúlkur.

Hvernig væri að hafna harðúð endanlega og treysta á afrek mannúðar?

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 15. október 2014

 

 

Deila

Ísland – Palestína – Hvað getum við gert?

peace

Ísland á ekki landher, flugher eða sjóher, engin hervopn, engar herdeildir, enga hershöfðingja, engan stríðsmálaráðherra, engar hervarnir, ekkert af neinu tagi sem getur flokkast undir stríðsrekstur. Ísland gæti þar af leiðandi ekki gert neins konar innrás, hvorki sótt né varið sig. Sama má segja um Palestínu.

Ef stríðsleiðtogar annars lands myndu beita ógnarherstyrk sínum til að skelfa, hræða og myrða Íslendinga, rústa híbýlum þeirra, skólum, sjúkrahúsum og hverju öðru sem stríðsrekstur getur þurrkað út, myndum við sennilega óska þess að einhver rétti hjálparhönd og reyndi að skilja stöðu okkar. Ef Ísland væri undir járnhæl stríðsherra sem margir óttuðust, myndum við eflaust óska þess að einhverjir hefðu hugrekki til að vera vinir okkar.

Þjóðarleiðtogar myndu ef til vill þegja og helstu fjölmiðlar láta sér nægja að lýsa annarri hliðinni og stilla málinu upp sem átökum milli tveggja jafnvígra aðila, með og á móti, sigur og ósigur.

Allir ættu þó að vita að stríðsaðferðin sem leiðtogar Ísraelsríkis beita gagnvart Palestínumönnum gerir aðeins illt verra. Þeir vita það sjálfir, því ef það væri áhugi á nágrannakærleik og friðsemd þá yrði allt annarri aðferð beitt í samskiptunum. Sú aðferð er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

 ÁTAKAMENNING – FRIÐARMENNING

Friðaraðferðin er jafngömul og jafnkunn og aðferð átakanna en hún er hljóðlát og þarfnast alúðar og tíma. Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún er ekki flugskeyti. Hún bindur ekki, skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það á ekki að gera. Hún setur aðeins eitt bann.

Hún er friðurinn, heimsfriðurinn í hjartanu. Hún er silfurreglan: Ekki óska neinum þess sem vekur þér andstyggð. Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

Ekki gera öðrum það sem þú sjálf/ur forðast.

Eflaust má finna undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarna og gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – en reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlæti er aldrei samferða ofbeldi, kúgun og manndrápi.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Hann skýtur ekki fyrst og býður svo í friðarviðræður.

Friður er lærdómsferli með jöfnuð að leiðarljósi. Hann kemur böndum á agaleysi og eyðir tortryggni sem lengir bilið á milli manna og þjóða. Hvar sem ójöfnuður fær að vaxa brýst fyrr eða síðar út styrjöld. Friðarmenning er aftur á móti ljósið út úr óreiðu heimskunnar.

Öll viðleitni sem snýst um friðarmenningu hefur jöfnuð að mælikvarða: að stytta bil á milli manna, hópa og þjóða í öllum málaflokkum og draga úr stéttaskiptingu. Það er sterk fylgni milli réttlætis og jafnaðar. Árás á Gaza núna breikkar bilið, skilur fólk að og skapar yfirstétt og undirskipun, ríkidæmi og fátækt og hvaðeina annað sem reisir múra á milli manna og þjóða.

Allir ættu því að gera sér ljósa grein fyrir að friðarreglan er ekki iðkuð um þessar mundir á þessu tiltekna svæði og það bitnar á borgurum. Hvað getum við gert? Jafnvel þótt við séum smá og virðumst marklaus, þá munum við aldrei hætta að mótmæla heimskunni og grimmdinni.

Fylgjumst með, knýjum á, mótmælum, það skiptir máli, jafnvel afstaða, viðbrögð og rödd okkar skiptir máli. Efumst ekki, við erum öll jöfn gagnvart mannréttindum hvar sem við búum, hvort sem það er í Gaza, Manhattan eða í Breiðholtinu.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

 

 

Friðarfréttaritari sendir skeyti

Stríð er ekki íþrótt. Fréttum af stríði svipar þó ógnvænlega mikið til íþróttafrétta. Barist er um sigurinn til síðasta blóðdropa, andstæðingar verða til, rétt- og rangstaða og það erum „við“ og það eru „hinir“, sigur eða tap.

Stríðsfréttaritarinn lýsir af vettvangi og hefur tamið sér ákveðna aðferð við frásögnina. Hann segir hvort við eða hinir séum í sókn eða vörn, hvaða vopnum sé beitt og hversu margir hafi fallið. Hann getur talið sér trú um að hann beri enga ábyrgð og er jafnvel gerður að hetju.

Aðferð stríðsfréttaritarans er sögð hlutlæg, áreiðanleg og byggð á staðreyndum. Gallinn er aðeins sá að þessar svokölluðu staðreyndir falla að svarthvítri heimsmynd um baráttu góðra og illra afla. Hér eru engar staðreyndir á ferð heldur úrelt viðmið til að mæla árangur og segja sögur.

Það er engan veginn áhugavert að fylgjast með stríðsfréttum, jafnvel þótt stöðunni sé lýst daglega og oft beint í fjölmiðlum. Upplýsingarnar berast iðulega beint úr herbúðum valdsins en sjaldnast frá óbreyttum borgurum sem líða kvalirnar. Engu skiptir þótt við glápum linnulaust á SKY NEWS.

Aðeins á síðustu árum hefur borgunum tekist að rugla stríðsfréttirnar með því að semja eigin fréttir á samfélagsmiðlunum. Þar opinberast annar veruleiki, aðrar þrár og langanir til að slíta af sér bönd kúgunar og ofstækis. Enginn vill nýjan einræðisherra, aðeins öryggi án ógnarstjórnar.

Stríðsfréttaritarinn kannar aftur stöðuna í stríðinu. Tölur eru vinsælar í stríði eins og í íþróttum: Hversu margar sprengjur sprungu? Hversu öflugar? Hve margir féllu? Skoðum fyrirsagnir á mbl.is 7. og 8. ágúst: „Sjö féllu í átökum í Írak í dag“, „Einn aðal-mafíósinn skotinn til bana“, Sprengdu rútu í Kabúl“, „Minna mannfall í Afganistan“, „Átta úr sömu fjölskyldu drepnir“, „Fimmtán drepnir í kirkju“.

Þetta eru ekki fréttir af staðreyndum. Þær eru ekki greinandi og ekki skiljanlegar á neinn hátt. Stríðsfréttir snúast um núning, um gap, um hvað ber á milli, um tækni, um magn, stærð og ógn. Ekki um margbreytileika, réttlæti, félagslega stöðu eða líf barna.

Sprengjurnar féllu í Hiroshima og Nagasagi í ágúst 1945. Við vitum hvað og hvernig þær voru, hvar þær féllu, hvenær og jafnvel hvers vegna,  hve margir féllu og við minnumst þeirra árlega. En það er ekki nóg, við þurfum að líða með borgarbúum.

Aldrei aftur Hiroshima og Nagasagi! Það er enginn sigurvegari, það eru engar hreinar línur, enginn leikur, engin staða, stærðin skiptir engu máli, það er enginn æðri öðrum, góður eða vondur. Heldur aðeins sundraðar fjölskyldur, dauði borgara, myrkvuð framtíð, þjáning kynslóða, heimska valdhafa, aðeins við öll ein og engar stríðandi fylkingar annarra – en okkar eigin.

Við borgarar þessa heims, föllum aldrei aftur í gryfjur stríðsherranna! Lærum að afhjúpa lygarnar! Stríð er ekki íþrótt!

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Hugsaðu þér hvergi nein grið

Að hugsa sér veröld án kúgara – það er ekki vandasamt ef ég vil. Að hugsa sér veröld án heimsveldis, sem drottnar yfir öðrum þjóðum – það er auðvelt ef ég vil. Ég get einnig gert mér líf án frelsis í hugarlund og ímyndað mér veröld án virðingar.

Veröldin sem verður – veltur á afstöðu okkar, mótspyrnu og hugsjónum.

Ég kann ekki við heimsveldi, ekki við neina þá hvöt sem felur í sér yfirráð, ekki nú, fyrr eða síðar. Hvorki heimsyfirráð Bandaríkjanna eða Kína. Mér líkar mun betur að hugsa aðeins jörð og himin og að allir lifðu og hrærðust án kúgunar annarra.

Ég kann við ekki vald sem dregur landamæri með ofbeldi og reisir múra, vald sem óttast hið frjálsa orð, vald sem berst gegn visku, vald sem læsir inn og úti, vald sem (d)eyðir.

Ég kann ekki við heimsveldi sem höndlar með manneskjur líkt og söluvöru og húsdýr. Mér líkar ekki við heimsveldi sem stingur Dr. Liu Xiaobo, baráttumanni fyrir mannréttindum og nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum, í áratugalangt fangelsi og konu hans, ljóðskáldinu og listmálaranum Liu Xia, í stofufangelsi, heimsveldi sem kveður listamenn eins og Ai Weiwei niður með ofbeldi. Heimsveldi sem óttast tjáningarfrelsi borgarana er augljóslega reist til að kúga. Engin leið er að bera virðingu fyrir því.

Ég kann ekki við heimsveldi né nokkurt yfirvald sem læðist í tölvubréf óbreyttra borgara til að refsa þeim, lokar netaðgangi að frjálsum fjölmiðlum og lýgur upp á aðra. Mér líkar ekki heimsveldi sem hneppir borgarana í varðhald án dóms og laga, pyntar þá og myrðir.

Ég myndi aldrei binda trúss mitt við heimsveldi sem traðkar á réttindum heimamanna. Ég myndi ekki heiðra mann sem væri vís til að læsa mig inni aðeins ef hann gæti. Það væri líkt og óttaslegin þjónkun við einræðisherra. Ég kann illa við heimsveldi sem neitar þjóð um frelsi og handsamar vopnlausa munka og nunnur fyrir að vera á öndverðri skoðun. Mér líkar ekki við heimsveldi sem virðir ekki lífsskoðun og trú annarra. Eða heimsveldi sem ekur á skriðdrekum yfir námsmenn sem krefjast lýðræðis og tjáningarfrelsis.

Ég á ekkert saman að sælda með þeim sem virðir ekki mannréttindi, ég myndi ekki gera viðskiptasamning við þá með von um betri hegðun síðar meir. Ég trúi ekki að verk kúgara geti breyst í góðverk. Eða hvað er fengið með því að fórna hugsjónum sínum fyrir viðskipti?

Orð mín eru engir órar eða bjartsýni, þau eru svartsýni og raunsæi. Þeir sem á hinn bóginn telja sig hólpna í samningum sínum við kúgara eru fullir óra og óboðlegri bjartsýni. Ég vil fremur hugsa mér heiminn halda grið og frið og öll gæði heims og jarðar deilast jafnt.

Ég kann ekki við heimsveldi sem gæti jafnvel orðið hrætt við orð mín. Hugsaðu þér það!

Gættu að því að ráðamenn Kína eru hræddir við Liu Xiaobo, Liu Xia og Ai Weiwei! Þau búa yfir ríkri sköpunargáfu og sterkri þörf fyrir að gera heiminn að griðarstað. Þau hugsa sér hvergi ranglátt spil. *

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

*Stíllinn er sóttur í Imagine eftir Lennon í þýðingu Þórarins Eldjárns Að hugsa sér.

Konur, stríð, friður og fjölmiðlar

ÁRAMÓT/ Hópar kvenna um víða veröld standa upp úr árið 2011. Þær þustu út á torgin og yfirgáfu þau ekki fyrr en einræðisherrarnir féllu. Svo verður vonandi einnig árið 2012. En munu íslenskir fjölmiðlar fylgjast betur með þeim en árið 2011?
Þessar konur bundu ekki vonir sínar við einstaka karla, einræðisherra sem veita risafyrirtækjum og stórveldum aðgang að auðlindum þjóðarinnar í skiptum fyrir vopn, fé og völd. Þær bundu ekki vonir sínar eða trúss við þá sem svífast einskis og halda borgurum sínum í heljargreipum óttans. Þær leituðu ekki til þeirra sem selja ólögleg vopn. Þær klæddust ekki herklæðum heldur hvítum bolum, þær vissu að ekkert myndi breytast nema þær myndu sjálfar knýja á um það.
Sá sem er háður vopnaframleiðendum getur ekki skapað frið. Slíkur friður er ekki friður heldur vopnahlé. Friður merkir jöfnuð og réttlæti. Það ríkir ekki friður þar sem kúgun á sér stað. Friður er menning beggja kynja og samkomulag um að virða margbreytileika. Þessar konur og þeir karlar sem fylgdu þeim völdu friðsamleg mótmæli í stað ofbeldis. Þær þoldu ekki meira blóð og dauða og beittu annarri aðferð.
Aldrei aftur þessa einræðisherra, nöfn þeirra má þurrka út og afmá þarf þá persónudýrkun sem þeir óskuðu eftir, það vald og stolna ríkidæmi sem þeir sköpuðu. Það skiptir ekki máli hvar eða hver, aðferðin er röng og veldur þjáningu, hvort sem það er í Sýrlandi, Ísrael, Egyptalandi, Líbýu, Líberíu, Túnis, Norður-Kóreu, Súdan, Kína, Ítalíu eða Rússlandi eða Íslandi.
ARABÍSKA VORIÐ
Árið 2011 sköpuð konur arabíska vorið. Nöfn einræðisherranna og nöfn sona þeirra glumdu í hverjum fréttatíma en nöfn byltingarkvenna heyrðumst ekki fyrr en þær tóku við Friðarverðlaunum Nóbels. Lærum nöfn þeirra sem stóðu í stórræðum. Ef nöfnin birtast ekki í íslenskum fjölmiðlum, leitum þá annað: Tawakkul Kamran, Leymah Gbowee, Asmaa Mahfouz, Fatima Ahmed, Ellen Johnson Sirleaf. Og tökum eftir nöfnum þeirra sem munu berjast friðsamlega árið 2012.
Styðjum og bindum vonir við konur í Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og Evrópu og í löndum eins og Afganistan, Írak, Íran, Súdan, Guatemala, Rússlandi, Ítalíu og hvarvetna þar sem þær stíga fram af hugrekki fram andspænis byssuhlaupum. Bindum vonir við vorið, sumarið og lífið. Látum ekki blekkjast af enn einni sýndarráðstefnu valdakarla um frið í heiminum.
Það skiptir máli að hafna strax hrynjandi heimsmynd sem býður upp á einræðisherra af ýmsum toga og kúgun. Aðferðir þeirra hafa áhrif á líf og kjör hvarvetna í heiminum, einnig áhrif á okkur, því tilvera þeirra viðheldur valdaójafnvægi og vopnaframleiðslu í heiminum og skapar tækifæri til að kúga borgara um víða veröld í verksmiðjum og með óheyrilegri þrælkun.
KVIKMYNDIR/FJÖLMIÐLAR
Þetta eru ekki draumórar. Í kvikmyndinni Pray the Devil Back to Hell (2008) segir Leymah Gbowee söguna af því hvernig hópur kvenna kom sturluðum einræðisherra frá í Líberíu og hvernig þær gerðu konu að forseta landsins í staðinn – án ofbeldis.  Hann yfirgaf landið án þess að þær hlypu af einu skoti. Það er afrek, það er frétt. Hann lyppaðist niður gagnvart samtakamætti þeirra og sannfæringu þar sem þær hikuðu ekki í hvítu bolunum sínum.
Hægt er að sjá fleiri heimildamyndir um friðarbaráttu kvenna og læra aðferðina (þáttaröðin Women, War & Peace). Hin karllæga aðferð um ógnarvopn og ofbeldi getur ekki og gat aldrei bjargað heiminum. Kynnum okkur frekar friðaraðferðir kvenna á árinu 2012 og föllum ekki enn eina ferðina í skotgrafir heimskunnar.
Vonandi verða gagngóðar fréttir í íslenskum fjölmiðlum af þessari baráttu sem nú stendur yfir um víða veröld. Fréttafókusinn fylgir af venju byssunum, sprengjunum og einræðisherrunum vegna þess að þar er ofbeldi og dauði. En árið 2011 kom nefnilega í ljós að fréttin var ekki þar, heldur í sterkum vopnlausum samtakamætti kvenna og svo verður áfram.
Konurnar í Líberíu sögðu við karlana sína: „Ef þið hafið eitthvert vald til að stöðva stríðið, notið það.“  Hafi fjölmiðill snefil að valdi til að beina kastljósinu að þeim sem geta stöðvað stríð og kúgun, ber honum að gera það í stað þess að fylgja byssunum, skoti eftir skoti …
Tengill:
http://www.pbs.org/wnet/women-war-and-peace/
http://www.womenwarpeace.org/
Gunnar Hersveinn
lifsgildin.is

Friðarreglan: særið engan

Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það þráir að forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur, þrátt fyrir allt, búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð.

Það dýrmætasta í lífinu er oftast falið innan um hversdaglega hluti. Það er hulin fegurð, ekkert prjál og skraut. Fólk líður hjá og enginn tekur eftir því nema sá sem hefur hugrekki til að loka augunum. Hið dýrmæta er á mörkunum.

Saga ofbeldis er saga kúgunar, ofstækis og ofríkis þeirra sem vilja græða, öðlast völd, eignast land, drottna. Þetta er skelfileg saga sem greint er frá í smáatriðum í sögubókum, saga sem of oft verður hetjusaga í túlkun söguritara. Þetta er saga sem á sér fyrirmyndir í goðsögnum og stríðshetjum líkt í grískri og norrænni goðafræði. Svo stríðsglöðum goðum að þær lögðu jafnvel andstæðingum sínum lið eða egndu saman vinum. Það þekkjum við einnig úr sögu nútímavopnasölu og stríðsstuðningi stórvelda við geðsjúka einræðisherra.

Hvað sem þeir heita allir þessir ofbeldisfullu leiðtogar þjóða og hryðjuverkasamtaka allra tíma: hættum að minnast þeirra. Til er annar hópur kvenna og karla sem fátt er um skrifað þrátt fyrir þrekvirki þeirra og mannraunir til að koma í veg fyrir ofbeldi, stríð, kúgun og dauða og með því að skapa frið.

Hverjar eru útlínur friðarins?
Til er regla sem kalla má meginreglu í mannlegum samskiptum. Reglan lætur lítið yfir sér. Hún er hljóðlát, ekki áköf eða frek. Hún hrópar ekki á torgum undir lúðrablæstri, stærir sig ekki, krefst ekki fylgis og refsar ekki en hefur kraft til að láta hönd hefndar og ofbeldis síga. Nafn hennar er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún bindur ekki, hún skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera. Hún setur ein mörk, eitt bann.

Hún er sagnarandinn í brjóstinu sem hvetur fólk aldrei til eins eða neins heldur letur það og varar við: ekki gera þetta, hvað sem á dynur, ekki slá, ekki berja, ekki hóta, ekki drepa. Reglan er svo djúp og forn að hún er handan siðfræði og lögfræði. Hún er grunnstoð án undantekninga. Hún er friðurinn, jafnt friðurinn á heimilinu sem heimsfriðurinn í hjartanu.

Siðfræðingur getur fundið undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarnar og dómari gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlætið fylgir aldrei ofbeldi og kúgun. Í grískri goðsögn er friðurinn gyðja sem á tvær systur: gyðju réttlætis og gyðju viturlegra laga – og segir fátt af þeim enda hófstilltar og í þeim brennur hvorki heift og reiði. Þar sem þær fara um eru blómlegir akrar en ekki sviðin jörð.

Særið engan er friðarreglan. Tákn hennar er ekki hávaxin gyðja og herðabreið með skjöld og sverð á lofti. Ekki nakin fegurðardís sem rís upp úr skel, ekki móðirin með ungbarnið. Tákn hennar er konan sjálf án allra hlutverka – hið kvenlæga. Hún skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Slíkur friður er sprottinn af kærleika og gleði og er meira en óljós tilfinning. Föruneyti hennar vinnur ævinlega með lífinu og aldrei gegn því.

Dyggðir friðarreglunnar
Tákn friðarreglunnar getur einnig verið regnbogi, dúfa, blóm, hringur eða silfur því hún er stundum kölluð silfurreglan í mannlegum samskiptum. Gyllta reglan kveður á um frumkvæði til að gera öðrum gott en silfurreglan er um mörk friðsemdar og ofbeldis: ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Friðarreglan er jafnframt kjarni frelsisreglunnar víðkunnu um að setja einstaklingum einungis þau mörk: að valda ekki öðrum tjóni.

Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan er friðarsúlan, ekki aðeins í Viðey heldur á öllum eyjum, heimsálfum og landamærum. Hún sendir hljóðlát skilaboð út um allan heim, hvar sem ógnarhönd ætlar að reiða til höggs, hvar sem kúgun á sér stað. Hún er skilyrðislaus beiðni um líf án ofbeldis. Hljóðlaust ljós sem flæðir um loftin.

Þær dyggðir sem þarf að efla til að friðarreglan verði okkur töm eru virðing, hófsemi og kærleikur.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það þráir að forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur, þrátt fyrir allt, búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð.
Það dýrmætasta í lífinu er oftast falið innan um hversdaglega hluti. Það er hulin fegurð, ekkert prjál og skraut. Fólk líður hjá og enginn tekur eftir því nema sá sem hefur hugrekki til að loka augunum. Hið dýrmæta er á mörkunum.

Saga ofbeldis er saga kúgunar, ofstækis og ofríkis þeirra sem vilja græða, öðlast völd, eignast land, drottna. Þetta er skelfileg saga sem greint er frá í smáatriðum í sögubókum, saga sem of oft verður hetjusaga í túlkun söguritara. Þetta er saga sem á sér fyrirmyndir í goðsögnum og stríðshetjum líkt í grískri og norrænni goðafræði. Svo stríðsglöðum goðum að þær lögðu jafnvel andstæðingum sínum lið eða egndu saman vinum. Það þekkjum við einnig úr sögu nútímavopnasölu og stríðsstuðningi stórvelda við geðsjúka einræðisherra.

Hvað sem þeir heita allir þessir ofbeldisfullu leiðtogar þjóða og hryðjuverkasamtaka allra tíma: hættum að minnast þeirra. Til er annar hópur kvenna og karla sem fátt er um skrifað þrátt fyrir þrekvirki þeirra og mannraunir til að koma í veg fyrir ofbeldi, stríð, kúgun og dauða og með því að skapa frið.

Hverjar eru útlínur friðarins?
Til er regla sem kalla má meginreglu í mannlegum samskiptum. Reglan lætur lítið yfir sér. Hún er hljóðlát, ekki áköf eða frek. Hún hrópar ekki á torgum undir lúðrablæstri, stærir sig ekki, krefst ekki fylgis og refsar ekki en hefur kraft til að láta hönd hefndar og ofbeldis síga. Nafn hennar er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún bindur ekki, hún skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera. Hún setur ein mörk, eitt bann.

Hún er sagnarandinn í brjóstinu sem hvetur fólk aldrei til eins eða neins heldur letur það og varar við: ekki gera þetta, hvað sem á dynur, ekki slá, ekki berja, ekki hóta, ekki drepa. Reglan er svo djúp og forn að hún er handan siðfræði og lögfræði. Hún er grunnstoð án undantekninga. Hún er friðurinn, jafnt friðurinn á heimilinu sem heimsfriðurinn í hjartanu.

Siðfræðingur getur fundið undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarnar og dómari gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlætið fylgir aldrei ofbeldi og kúgun. Í grískri goðsögn er friðurinn gyðja sem á tvær systur: gyðju réttlætis og gyðju viturlegra laga – og segir fátt af þeim enda hófstilltar og í þeim brennur hvorki heift og reiði. Þar sem þær fara um eru blómlegir akrar en ekki sviðin jörð.

Særið engan er friðarreglan. Tákn hennar er ekki hávaxin gyðja og herðabreið með skjöld og sverð á lofti. Ekki nakin fegurðardís sem rís upp úr skel, ekki móðirin með ungbarnið. Tákn hennar er konan sjálf án allra hlutverka – hið kvenlæga. Hún skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Slíkur friður er sprottinn af kærleika og gleði og er meira en óljós tilfinning. Föruneyti hennar vinnur ævinlega með lífinu og aldrei gegn því.

Dyggðir friðarreglunnar
Tákn friðarreglunnar getur einnig verið regnbogi, dúfa, blóm, hringur eða silfur því hún er stundum kölluð silfurreglan í mannlegum samskiptum. Gyllta reglan kveður á um frumkvæði til að gera öðrum gott en silfurreglan er um mörk friðsemdar og ofbeldis: ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Friðarreglan er jafnframt kjarni frelsisreglunnar víðkunnu um að setja einstaklingum einungis þau mörk: að valda ekki öðrum tjóni.

Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan er friðarsúlan, ekki aðeins í Viðey heldur á öllum eyjum, heimsálfum og landamærum. Hún sendir hljóðlát skilaboð út um allan heim, hvar sem ógnarhönd ætlar að reiða til höggs, hvar sem kúgun á sér stað. Hún er skilyrðislaus beiðni um líf án ofbeldis. Hljóðlaust ljós sem flæðir um loftin.

Þær dyggðir sem þarf að efla til að friðarreglan verði okkur töm eru virðing, hófsemi og kærleikur.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Friðarjól? Um stríð og frið

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Ógnvænlegar fréttir berast nú fyrir jólin 2010 um mögulegar hryðjuverkaárásir í Evrópu. Tökum þær alvarlega. Í þessari grein verður stiklað á stóru um möguleikana á friði umfram stríð og ofbeldi.

I. STRÍÐSHERRAR

Karlarnir sitja enn með flekaðar hendur bakvið fáguð skrifborðin. Þeir hafa aldrei gert neitt nema það að valda eyðileggingu og dauða. Huglausir senda ungt fólk á blóðvelli eða láta fjarstýrð stríðstól eyða þorpum og borgum án þess að neinn stígi inn fyrir hliðin – allra síst þeir sjálfir.

Við þekkjum þá öll. Bob Dylan samdi lagið Masters Of War þeim til háðungar árið 1963. Þúsund sinnum hafa þeir verið afhjúpaðir, nú síðast í uppljóstrunum WikiLeaks.org.

Svokölluð stórveldi búa yfir svo miklum og öflugum vopnum að þau hafa ekki einu sinni sýn yfir. Þau telja borgurum sínum sífellt trú um að þetta sé nauðsynlegt, að skatturinn verði að fara í vopnaframleiðslu undir yfirskini heimavarna. Hvílíkt bull. Það mætti aðeins treysta þeim til að eyða mörg hundruð plánetum og eiga síðan tölvuverðan vopnaforða eftir.

WikiLeaks skjölin opinbera hrokafulla menn sem þjást af minnimáttarkennd eins og flestallir stríðsherrar mannkynssögunnar. Þeir girnast land, vald, fé og frama i sögubókum. Þrá að vera skrásettir sem mikilmenni. Hvernig tekst þeim þetta?

Þeir áforma og eru hvattir af öðrum körlum í öðrum löndum til að skríða til skarar eins og WikiLeaks sýnir dæmi um. Treystum aldrei þessum körlum, felum þeim aldrei veg okkar. Höfnum þeim umsvifalaust. Treystum ekki Bush, ekki Blair, ekki Cameron, ekki Obama, ekki Rassmussen eða Reinfeld, ekki Hu Jintao, ekki Berluscon, Sarkozy eða hvað sem þeir heita. Stríð er aldrei svarið, ekki kúgun, ofbeldi, nauðgun, dauði. Allir vita svarið en flestir láta telja sér trú um annað. Þar liggja mistökin.

Mér er sagt að ég sé með óra en ég er ekki einn um það. Meginmálið er að taka afstöðu og standa við hana: að friðvæða jörðina. Hunsum stríðsherranna, mætum ekki á vígvöllinn! Hættum að kjósa þá. Veljum alltaf frið fram yfir stríð. Auðvitað lendum við linnulaust í flóknum siðaklemmum og eigum eftir að kveljast yfir valkostum, en það er til mælikvarði.

Viðmiðið er uppbygging lífs andspænis eyðileggingu og dauða. Allt lendir á þessum skala lífs og dauða og við þurfum iðulega að standa lífsmegin andspænis dauðanum.

Menntum okkur til að greina milli góðs og ills og til að þekkja muninn á réttu og röngu, stríði og frið. Lærum að láta ekki kúgun annarra viðgangast. Hættum að láta telja okkur trú um eitthvað annað. Hugsum fremur: það eru þau í dag en við á morgun. Bara að við gætum lært að miðla og gefa. Við verðum að gefa öðrum til að koma í veg fyrir eigin þjáningu!

WikiLeaks upplýsingaflóðið er staðfesting á að heimskan ræður enn för. Lesum, hlustum, tölum saman, hlustum á Masters Of War með Dylan. Skilaboðin eiga enn við.

II. FRIÐARJÓL 2010
Jólin eru hátíð árs og friðar en friðurinn er sjaldan á forsíðum. Hann er ekki athyglissjúkur, það eru stríðin. Heitum okkur að vinna að friði heima og að heiman. Hvað getum við gefum þjóðum?

Við ættum að geta miðlað friðarmenningu til annarra þjóða –  en getum við það? Höfum við ræktað hana? Þetta er ónumið land, við höfum ekki sinnt þessu borðleggjandi verkefni.

Lærum af nokkrum af friðarverðlaunahöfum Nóbels: Aung San Suu Kyi í Mjanmar – og Liu Xiaobo í Kína sem hlaut viðurkenninguna 2010 fyrir langa og friðsamlega baráttu sína fyrir grundvallar mannréttindum í Kína. Við eigum góðar fyrirmyndir til að hlusta á og læra af.

Hættum að hlusta á stríðherrana og leggjum hlustir þegar friðurinn kveður sér hljóðs. Það er aldrei með látum og lúðrablæstri heldur með rósemd hjartans. Það verður að lokum Liu Xiaobo sem hlýtur virðinguna en ekki núverandi stjórnvöld í Kína.

III. Hryðjuverk
Formlegir leiðtogar þjóða sem hafa skrifað undir mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóð komast ekki undan skrifræðinu góðaþ Þeir sem draga þjóðir sínar í stríð verða fyrr eða síðar afhjúpaðir – til dæmis á WikiLeaks eða einhverjum öðrum öflugum fjölmiðli sem starfar fyrir almenning. Annar vandi eru hryðjuverkasamtök.

Verstu fréttirnar sem birtast núna fyrir jólin eru að hryðjuverkasamtök hafi í hyggju að valda usla í Evrópu um hátíðirnar. Aðgerðir hryðjuverkasamtaka eru byr undir báða vængi fyrir vopnaframleiðslu og þróun hernaðartækni stórveldanna svokölluðu. Nýja hertæknin verður fyrr eða síðar á höndum hryðjuverkamanna, það vita allir. Þetta er því skeflilegur vítahringur sem bitnar allra helst á almennum friðsömum borgurum, sérstaklega á börnum framtíðar sem gætu fyllst hefndarhug ef ekkert er að gert.

Þetta er ein af siðaklemmunum sem við lendum í. Hvernig getum við leyst úr henni?

IV. FRIÐARMENNING
Friðarmenningin hefur ekki enn skotið djúpum rótum því við upphaf 21. aldarinnar hófst styrjöld gegn hryðjuverkum, styrjöld með óljós endimörk og dulin markmið. Ógnin er alls staðar og ekki bundin við lönd eða þjóðir. Þetta stríð er afsprengi hinnar óheillavænlegu aðferðar að gjalda illt með illu.

Andstætt þessum hugsunarhætti þarf að leggja rækt við sprota friðarmenningar því hefðbundin viðbrögð við stríði hafa beðið skipsbrot. Skapa mætti vænlegra líf á jörðinni fyrir fleiri en nú er og til lengri tíma með því að beita aðferðum friðar. Þetta vita flestir. Knýjandi þörf er á því að þróa friðartækni og að ungt fólk læri friðarlist. Menntun er friðarskref en því þarf að fylgja heillavænleg viðhorf og vilji annarra í samfélaginu.

Friðarmenning er mannlegur þroski þar sem umburðarlyndi og gagnkvæm virðing koma helst við sögu. Stundum gefast tækifæri til friðarmenningar en þau eru oftast látin sér úr greipum sleppa.

Elisabeth Rehn, fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands, skrifaði merka skýrslu, Konur, stríð, friður, fyrir UNIFEM ásamt Ellen Johnson Sirleaf frá Líberíu. Þær ferðuðust um 14 átakasvæði og sáu ofstæki, þjáningu og sorg í flestum myndum. Þær hlustuðu á sögur á ýmsum tungumálum, sögur um mismunandi missi eftir svæðum og einstaklingum. Aðeins hryllingurinn og sársaukinn var sameiginlegur. Hlustum á þær og lærum! Niðurstaða Rehn og Sirleaf var að konur væru helstu fórnarlömbin í stríðum. Þessar konur vilja aftur á móti ekki láta ýta sér til hliðar þegar móta á friðarferlið í löndum þeirra. Þær vilja nota þjáninguna, ekki til að hefna sín heldur til að vinna bug á afleiðingum ófriðarins.

Konur eru í meirihluta þeirra almennu borgara sem lenda á flótta, missa heimili sín og bera ábyrgð á börnum og gamalmennum á átakatímum, og þær verða fyrir annars konar hremmingum en karlar, til dæmis skipulögðu kynferðisofbeldi.

Menntun er góð en hún er ekki nóg. Þrír lykilþættir verða að vinna saman til að menntunin nýtist: viðhorf og vilji fjölskyldu, samfélags og ríkis til að tækifæri barnanna til að sjá sér farborða í framtíðinni verði að veruleika. Börn fara oft á mis við formlega menntun í langvarandi stríðsátökum og sjá hana síðan í hillingum og trúa því að hún færi þeim betra líf. Miklu skiptir því að raunverulegir valkostir standi þessum börnum til boða að námi loknu, þau verði sjálfstæð og geti tekið þátt í að móta friðsamt samfélag.

Friðurinn lætur lítið yfir sér en krefst mikils. Hann krefst borgara sem veita aðhald og fjölmiðla sem eru ekki leiðitamir. Hann þarfnast hugsjóna, sýnar hugans um betri heim. Hugsjónin um frið er hugsjón um sátt og útkljáðar deilur. Sáttmáli hlýtur ævinlega að vera æðsta takmark þjóða og einstaklinga og felur í sér ákvörðun um að lifa í sátt og samlyndi. Hann er ánægjulegt friðarband sem enginn skyldi slíta nema við óbærilegar aðstæður.

V. NIÐURSTAÐA
Ég hef trú á öflugum borgurum sem veita aðhald, fylgjast með og láta til sín taka. Ég tel að á sama hátt og það var hægt að þróa ótrúlega hernaðartækni megi þróa magnaða friðartækni. Ég óska þess að friðartæknin leysi hertæknina af hólmi og verði svo þróuð að umfangsmikil friðaráætlun geti hafist á örskotsstundu. Hvarvetna um heiminn verða friðarbækistöðvar og umhverfis jörðina sveima athugul augu friðartungla – og engu verður til sparað.

Ég myndi setja konur sem hafa ekki gengið veg herkarlanna við stjórnvölinn . Aðferð friðarins felst í því að mennta og byggja upp og standa með lífinu!

Ég gæti haldið áfram en læt staðar numið að sinni. Ég bendi á að við eigum þegar hér á Íslandi nokkra einstaklinga sem hafa menntað sig í friðarmenningu. Fyrsta verk er að ráða þau í vinnu og leyfa þeim að blómstra. Hlustum á friðarmenninguna, höfnum stríðsmenningu!

Með von um friðsamleg jól!
Gunnar Hersveinn, 20. desember 2010
www.thjodgildin.is