Greinasafn fyrir merki: Gunnar Hersveinn

Hefur hugsun áhrif á heilsu?

facebook_event_1703336496546142

Heilsan er hátt skrifuð í hugum Íslendinga og er jafnan nefnd sem höfuðgildi í lífinu. Læknisfræðin lítur gjarnan á huga og líkama sem aðskilin fyrirbæri en hvað segja önnur vísindi og heimspekin? Getur til að mynda vonglaður hugur haft heilsusamleg áhrif á starfsemi líkamans? Spáum í það:

Hryggðarefnin eru óendanlega mörg og áhyggjur hafa tilhneigingu til að vaxa – en það er þó ekki næg ástæða til að útiloka gleðina.

Lífið getur verið eilífur táradalur sé þess óskað. En hvernig líður þeim sem rækta ekki gleðina? Stórir hópar fólks missa af henni því þeir hleypa henni ekki um líkama sinn, huga eða hjarta. Margar leiðir eru til að sneiða hjá gleðinni og safna fremur áhyggjum og hrukkum.

Gleðin er vanmetinn mælikvarði í lífinu, hún leynist í mörgu, kúnstin er bara að njóta hennar. Líkaminn þarfnast einfaldlega gleði, gleði áreynslunnar, matar og drykkjar, hvíldar og starfs. Gleðin kemur fjörefnum af stað í taugakerfinu svo þeir glöðustu lyfta höndum, hrópa upp yfir sig og dansa af kæti. Aðrir hlæja sig magndofa og hníga niður. Hvílík gleði! Aukaverkanir? Hún er smitandi og breiðist út til annarra. Það albesta við gleðina er löngunin til að vilja deila henni með öðrum, að gefa með gleði. Von og gleði eru gott par.

Um leið og vonin vaknar verða sporin léttari og viljinn sterkari. Þrauka má jafnvel án ástar og gleði – en ef vonin slokknar þá er voðinn vís. Von felur í sér ósk og þrá. Hún hverfist um bjartsýni og hughreysti og sá sem missir hana fer á andlegan vonarvöl. Von er sláttur hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans – sem getur ræst. Vonin ljær lífsbaráttunni þindarleysi og göngunni þrótt.

Hvað er heilsa? Getur hugsun haft áhrif á hjartað? Geta viðhorf haft áhrif á líðan? Getur gleðin og það að deila gleðinni með öðrum lengt lífið? Lára G. Sigðurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísindum og Gunnar Hersveinn rithöfundur ætla að eiga samtal um samband hugar og heilsu á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 20. janúar klukkan 20:00. Allir velkominir – enginn aðgangseyrir.

Tengill

Melda sig á viðburð hér

Upplýsingar um viðburðinn

 

Deila

Að byrja á sjálfum sér

12_vef_feb_heimspeki_visitEngin persóna verður fullgerð fyrr en hún finnur hjá sér knýjandi þörf til að gera eitthvað fyrir aðra. Sú persóna sem finnur samhljóminn með öðrum, getur liðið með öðrum og nemur samhengið í tilverunni fyllist löngun til að geta látið gott af sér leiða. Hún gæti anað út í verkefnið en ef hún er skynsöm þá, staldrar hún við og ákveður að búa sig undir það með því að byrja á sjálfum sér.

Ekki byrja á öðrum

Það er ekki heiglum hent að byrja á sjálfum sér, það er mun auðveldara að byrja á öðrum og segja samfélaginu til. Að byrja á sjálfum sér er viðamikil rannsókn. „Fyrir hverju vil ég berjast fyrir og hverju berst ég gegn? Hver eru mörk mín, hvenær segi ég hingað og ekki lengra! Hvaða gæði vil ég vernda, hvað get ég lagt af mörkum? Hvernig get ég skapað frið og forðast illsku og ofbeldi? Hverjar eru mínar eigin skoðanir, hverjar hugsjónir?”

Markmiðið með þessari rannsókn er falið í lönguninni til að verða betri sjálfrar sín vegna og annarra. Þessi löngun virðist hafa fylgt mannkyninu frá upphafi og hún birtist oft í þeirri viðleitni að setja sér lífsreglur til að temja sig og til að kalla fram eftirsóknarverða mynd af sjálfum sér.

Grískir fornaldarheimspekingar glímdu við þessa aðferð og hver sá sem les Málsvörn Sókratesar hlýtur að hugsa um orð hans „…  að þetta sé manni best að öllu, að iðka daglega samræður um dyggðina og reyna bæði sjálfan sig og aðra, og órannsakað líf sé einskis virði.“

Efasemdarmaður

Sá sem byrjar á sjálfum sér verður óhjákvæmilega efasemdarmaður, hann efast um það sem aðrir hafa sagt, það sem oftast er sagt, það sem á að vera satt. Hann tekur engu sem fyrirfram gefnu.

Hann er því ekki vinsæll á þessu tímabili, hann verður eins pirrandi broddfluga, því hann efast um það sem aðrir gera. Og ekki aðeins um aðra heldur einnig sjálfan sig, hann brýtur skoðanir, þekkingu, hegðun og hátterni til mergjar.

Ekki til að breyta öllu í auðn og tóm, ekki til að eyðileggja góða stemningu, heldur til að finna eitthvað sem stenst rannsókn. Efasemdin er glíma við lífið og leit að gildum þess og siðfræðispurningin sem vaknar er:

Hvers konar líf er ómaksins vert?

Þetta er heimspekilegt hugarvíl sem vekur menn upp af værum blundi hringrásar hins daglega lífs.

Slíkt hugarvíl er verðugt verkefni og það þarf hugrekki til að leyfa efanum að greina hismið frá kjarnanum. Efinn er liður í því að verða maður sjálfur, upphaf sjálfsskilningsins og eftir að hafa efast rækilega stendur vonandi vakandi hugur á varðbergi gagnvart fordómum, kreddutrú, lygi og heimsku, staðráðinn í að láta ekki glepja sig á ný með innantómum orðum.

Þetta kostar hugrekki. Það er miklu auðveldara að draga sig í hlé heldur en að standa með sjálfum sér. Sá sem byrjar á sjálfum sér verður um sinn eirðarlaus sannleiksleitandi sem þjáist af vitsmunalegri angist. Þetta verkefni getur ært óstöðugan.

Uppbygging

Efinn er grimmur til að byrja með en enginn má festast í linnulausum efasemdum, eitthvað þarf að finnast, einhver sýn eða aðferð svo hægt sé að byggja upp nýja og betri veröld. Því sá sem byrjar á sjálfum sér, gerir það ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur aðra. Það er betra fyrir alla að hver leggi sig fram um að verða sjálfur sem bestur.

Það þarf sterk bein til að byrja á sjálfum sér, aga, vilja, þrautseigju.

Þetta er rannsóknarvinna sem er ómaksins verð. Sókrates sagði: „Ég leitaðist við að telja hvern mann á það, að bera ekki umhyggju fyrir neinum högum sínum, fyrr en hann hefði hugsað um að verða sjálfur sem bestur og vitrastur og ekki fyrir neinum högum borgarinnar fremur en borginni sjálfri – og svo framvegis um alla aðra hluti.“

Sókrates tók afstöðu eftir efasemdir sínar um að sækjast fyrst og fremst eftir dyggðinni, ekki aðeins til að hafa eitthvað til að hugsa um heldur til að breyta hegðun sinni til betri vegar. Hann taldi það líka skyldu sína að ávíta þá sem sækjast eftir hégóma og fjármunum fremur en dyggðum.

Efasemdarmaður getur tekið afstöðu með því sem hann telur vera til heilla fyrir lífið og jörðina, en hann verður aldrei öfgamaður. Hann segist ekki vita svarið, heldur telur það líklegt um stund. Hann er í raun að beita aðferð vísindanna, gera tilraunir og feta sig áfram til að öðlast þekkingu á veröldinni, öðrum og sjálfum sér.

Gunnar Hersveinn rithöfundur fjallar um hvað það þýðir að byrja á sjálfum sér á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti 18. mars 2015 og Ragnheiður Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi og leiðbeinandi á námskeiðum um orkustjórnun segir frá því hvernig nálgast megi efnið með því að setja sér markmið og efla líkamlega, tilfinningalega, hugræna og andlega orku.

Tengill

Heimspekikaffi

Heimspekikaffi – viðburður á facebook

Heimild: Platón.Síðustu dagar Sókratesar. HÍB 1996.
Róbert Jack. Hversdagsheimspeki. Heimspekistofnun 2006

Orkustjórnun

 

VÆNTUMÞYKJA GAGNVART NÁTTÚRUNNI

12_vef_feb_heimspeki_visitGildin í lífinu eru dyggðir, tilfinningar og viðhorf sem við lærum og æfum til að verða betra fólk. Gildin í samfélaginu eflum við og styrkjum til að gera samfélagið betra. Við reynum á sama tíma að kveða niður brestina, heimskuna, grimmdina og eyðileggingarmáttinn sem knýr á.

Gildin í náttúrunni felast í því að bæta samband mannverunnar við náttúruna, efla með okkur virðingu og ábyrgðarkennd gagnvart henni.

Segja má að samband mannveru við náttúruna sé í uppnámi um þessar mundir og verkefnið framundan felist í því að finna jafnvægi og farsæla braut. En hvernig má vinna að því?

Siðfræði náttúrunnar fjallar ekki aðeins skilgreinda mælikvarða um rétt og rangt, góða og ranga hegðun gagnvart náttúrunni heldur einnig um að rækta væntumþykju, virðingu og vinsemd: að finna gleði þegar sambandið styrkist, að bera virðingu fyrir heilbrigðri náttúru og að verða dapur sambandinu er raskað.

Mannveran er hluti af náttúrunni og ætti því að geta ræktað væntumþykju gagnvart henni, og ef það tekst, vex virðingin gagnvart auðlindum hennar og viljinn til að öðlast þekkingu á henni og umgangast af varkárni. En ef hlýjan hverfur, þá hverfur blíðan líka.

Það gæti verið ósnert víðerni, það gætu verið heimkynni dýra, það gæti verið heilt vistkerfi, það gæti verið gróðurlendi, fossaröð, fornt stöðuvatn, tiltekið landslag og það gæti verið háhitasvæði í hættu gagnvart mannlegu kuldakasti.

Mannskepnan gortar oft af því að vera eina siðræna veran á jörðinni, en það er ofsögum sagt , því hjá ýmsum dýrahópum má greina siðrænt atferli eins og umhyggju, samkennd, virðingu, ábyrgð, sorg, hópkennd, hjálpsemi og einnig fórnfýsi. Íslendingar ráðstafa ekki landsvæðum undir orkunýtingu einungis af siðrænum ástæðum eða vegna ábyrgðarkenndar, heldur af hagrænum ástæðum og vegna búsetuskilyrða.

Voðinn er vís ef strengurinn milli manns og náttúru slitnar og sambandið verður firringu að bráð, ef mannveran setur sig á háan hest og geymir sér yfir náttúru á korti á teikniborði.

 

NÁTTÚRAN Á TEIKNIBORÐINU

Áhuginn og krafturinn fer oft allur í það að bæta efnahaginn líkt og ekkert annað vegi þyngra í þessum heimi. Okkur hættir stórlega til að ofmeta hagkerfið og vanmeta vistkerfið. Við gerum ráð fyrir hagvexti án endimarka og sköpum okkur líferni án samhengis við náttúruna, líkt og hún sé til ekki hluti af okkur. Við fórnum vistkerfi fyrir hagkerfi víða um Jörð, vegna þess að það virðist henta okkur um hríð.

Náttúrusvæði á fullnýttu Íslandi flakka nú á milli orkunýtingarflokks, biðflokks og verndarflokks. Við flokkum, leikum okkur og náðum svæði eða nýtum, án virðingar og vinsemdar. Við segjum:
„Við náðum þig Neðri-Þjórsá!“ „Við náðum þig Dettifoss – í bili! Þú átt það ekki skilið en það hentar okkur núna, þú varst á dauðalistanum en við náðuðum þig “ „Við ónáðum þig Urriðafoss og við tökum þig af lífslistanum Dynkur – þú verður ekki lengur til – nema undir okkar stjórn.“

Þessar setningar hljóma undarlega en staðan er jafnvel verri. Tæplega níutíu svæði á Íslandi eru kölluð virkjanakostir sem mögulega verður þá raskað og nýttir til orkuframleiðslu. Náttúran liggur berskjölduð á teikniborðinu og henni á að raska til og frá – eða ekki, svæði sem voru í verndunarflokki flytjast óvænt í nýtingarflokk og jafnvel svæði í þjóðgörðum – allt eftir duttlungum og hagsmunasamningum.

Nýlega dró Orkustofnun til baka þrjá virkjanakosti af 50 sem búið var að senda til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar. Ástæðan var sú að stofnunin notaði ekki nýjustu kort af Vatnajökulsþjóðgarði við vinnslu á virkjunarkostunum. Þessi vandræðalegi gjörningur vakti grun um sambandsrof mannsskepnunnar við náttúrusvæðin.

 

SKEYTINGARLEYSIÐ ER ÓVINURINN

Skeytingarleysi mannsins er versti óvinur náttúrunnar, umhyggjuleysi, andvaraleysi og kæruleysi. Að vera sama um víðernin, að vera sama um miðhálendi Íslands og að líta aðeins á það með virkjun í huga er landinu okkar stórhættulegt. Að láta land sem er mótað af eldvirkni og jöklum, samspili elds og íss í árþúsundir, vera háð tímabundnum hagsmunum virkjanasinna, er ekki vitnisburður um virðingu. Það er vítavert ástleysi.

„Hálendi Íslands, hjarta landsins, er eitt stærsta landsvæði í Evrópu, sunnan heimskautsbaugs, sem hefur aldrei verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“ (Landvernd).

Ákvörðun um að hrinda virkjanakosti í framkvæmd styðst ekki einungis við rök um aukin atvinnutækifæri, tekjur, búsetuskilyrði og viðskipti. Ákvörðun um virkjanakost þarf fyrst og fremst að setja í samhengi við náttúruna, landslagsheildir, lífríki og vistkerfi sem varasamt er að raska. Hvað merkir þessi „kostur“ í stóra samhenginu?

Enn eru sterkar líkur eru á því að alvarleg óafturkræf slys verði gerð í gegndarlausri ásókn í óviðjafnanleg verðmæti sem íslensk náttúru geymir. Af þeim sökum þarf nauðsynlega að efla og rækta gildin í náttúrunni með mannfólkinu. „Efla tengsl fólks við landið, þekkingu og samvinnu landsmanna með auknum almannarétti,“ eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðaði það, „að varðveita fegurð fjölbreytileikans í náttúru landsins og vatnafari Íslands.“ (Vatnið í náttúru Íslands).

Gerum ávallt ráð fyrir harðri baráttu gegn ásókn í náttúruauðlindir.

 

SAMBANDIÐ EKKI AÐEINS VITRÆNT

Og sambandið við náttúruna er dýpra. Við glímum við rök og sjónarhorn til að skilgreina mörk og til að kanna möguleika en væntumþykja gagnvart landinu felur einnig í sér víðtækara samband, til dæmis þegar taugakerfið og hugurinn nemur fegurðina, þegar einstaklingur stendur agndofa og orðlaus gagnvart óvæntri hrikafegurð. Sambandið við náttúruna er því ekki einungis vitrænt, hagrænt, siðrænt, það er einnig af öðrum toga.

Siðfræði náttúrunnar snýst ekki einungis um rannsókn á boðum og bönnum, dyggðum og löstum og verðmætum heldur einnig fegurð og væntumþykju. Sambandið við náttúruna er oftast smækkað niður í eitthvað skiljanlegt en sambandið er alls ekki alltaf hversdagslegt heldur byggist það einnig á upphafningu andans. Við hrífumst og andinn lyftist upp og dýpri merking tilverunnar opinberast. Þessar stundir veita fólki kraft til að lifa af meiri ákafa og fyllast þakklæti. En þetta undur gerist sennilega æ sjaldnar því maðurinn hefur aldrei fyrr verið svo fjarlægur heimkynnum sínum, náttúrunni.

Verkefnið framundan er margþætt en meðal annars er brýnt að rækta væntumþykju gagnvart náttúrunni. Frekari pælingar um þessa væntumþykju verða á næsta heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. febrúar en þá mun Gunnar Hersveinn rithöfundur tengja saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru og Ásta Arnardóttir leiðsögukona og yogakennari segja frá gönguferðum þar sem fléttað er saman yoga og göngu um hálendisvíðernin ásamt fræðslu um yogavísindin og hvernig þau endurspegla dýpri lögmál náttúrunnar.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Tenglar

Náttúrukortið – Framtíðarlandið

Landvernd – hjarta landsins

Orkustofnun – frétt

Heimspekikaffi – gildin í lífinu og yoga í fjallasal

Meira um siðfræði náttúrunnar

Óttalaust tjáningarfrelsi

Frelsi til að tjá sig, frelsi til að mæla mál sitt. Frelsi til að tala, andmæla, færa rök, frelsi til að efast, gagnrýna og byggja upp. Frelsi til að leita upplýsinga og miðla þeim aftur til almennings. Frelsi til að gefa ráð, til að kynna verk sín, frelsi til að vera manneskja án þess að búa við fordóma annarra er dýrmætt.

Frelsi til að vera fullgildur borgari í landinu sem getur án ótta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu ætti að vera sjálfsagt. Enginn ætti að þurfa að færa fórnir einungis til að geta tekið þátt í lýðræðislegum umræðum á opinberum vettvangi. Það er fásinna.

Á Íslandi sem var – krafðist það hugrekkis að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, því sífellt reis einhver upp og reyndi að gera andmælendur tortryggilega. Þetta vissu allir og var síðan afhjúpað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Blaðamenn þögðu, háskólamenn þögðu …

Enn í dag þarf hugrekki til að standa með frelsi sínu til tjáningar. Hræðslan við skammir, óttinn við brottrekstur, kvíðinn vegna möguleikans á því að persónan yrði dregin inn í málið – allt þetta leiðir til þess að fólk velur fremur að þegja en að tala.

Frelsið knýr fólk til að tjá sig, gagnrýna heimsku og ofbeldi og mótmæla ósanngjarni hegðun. Í hverju landi og á hverjum stað er vald og hópur sem vill ráða ferðinni og berst ekki fyrir óttalausu tjáningarfrelsi borgarana. Foreldrar ættu í uppeldi barna sinna að kenna þeim hugrekki til að tala, hugrekki til að tjá hug sinn og ályktun, hugrekki til að mótmæla heimskunni. Slíkt myndi draga úr líkum á hræðslusamfélagi. Eða hver vill búa í samfélagi kvíða og angistar?

Frelsi er eitt af þjóðgildunum. Þjóðfundurinn 2009 valdi frelsi og þjóðfundurinn 2010 valdi frelsi. Hvers vegna? Vegna þess að þjóðin finnur fyrir skorti á frelsi andans og frelsi til tjáningar. Það eru alltaf einhverjir sem vilja setja öðrum of þröngar skorður. Samfélag þar sem borgarar þora ekki að tala eða taka þátt í rökræðum og samræðu af ótta við afleiðingarnar er ekki í góðum málum.

Sá sem verður hræddur, sá sem lætur kúga sig, sá sem hættir að þora að tjá sig, hann glatar sjálfum sér. Við eigum þvert á móti að standa keik í fæturna og mótmæla. Málfrelsi, ritfrelsi, talfrelsi, tjáningarfrelsi – hvers vegna ætti einhver að beita sig innri ritskoðun óttans, í stað þess að vera fyrirmyndarborgari sem tjáir sig og vill styrkja rétt sinn til að segja skoðun sína og taka þátt í umræðunni?

Sá sem gerir tilraun til að draga persónur niður í svaðið, sá sem sviptir einhvern einhverju vegna skoðana hans er ekki vinur frelsis heldur kúgunar. Ég held að á næstu árum verði frelsið eitt mikilvægasta þjóðgildið því þjóðin þarf að berjast fyrir frelsi sínu gagnvart skuldurum sínum og hver og einn þarf að standa vörð um frelsi sitt gagnvart öðrum. Aðferðin felst í því að temja okkur samræður, greina á milli málefnis og persónu og leita lausna í stað þess að búa til vandamál.

Ég skrifaði kafla um frelsið í bók minni Þjóðgildin. Þar stendur meðal annars:

„Innra ófrelsi felst í því að skapa sjálfum sér eða taka í arf ótta og hugleysi til að stíga skrefin. Sá sem býr við andlegt ófrelsi lýtur eigin þvingunum og stjórnsömu fólki. Hann nemur innri rödd og löngun, veit hvað hann vill, en skortir kraft og sjálfstraust til að fylgja því eftir. Frelsið er fyrir hendi en hann nýtir það ekki til fulls.“

„Hrædd þjóð, stillt þjóð, hlýðin þjóð, værukær þjóð, saklaus þjóð er í bágri stöðu þegar kjöraðstæður skapast fyrir þá sem vilja græða á henni. Þjóðin, hver hópur, hvert fyrirtæki, stofnun og félag þarf því að temja sér hugrekki og heiðarleika til að láta ekki traðka á sér. “

„Frelsið snýst ekki aðeins um að taka sér bessaleyfi til að framkvæma það sem hugurinn girnist. Frelsið felst einnig í því að setja sjálfum sér mörk, skipta um viðhorf, breyta hegðun sinni og gangast við ábyrgð sinni. Stilla frekjunni í hóf. Helsta hindrunin er að heimskan ræður of oft för. Þeir sem við leyfum að ráða hafa sjaldan áhuga á breyttu fyrirkomulagi.“

„Hættum að þræta um útmörk mögulegs frelsis og hefjumst handa við að velja leiðir til að bæta aðstæður, líðan, menntun og valfrelsi annarra. Frelsi spinnst af mörkum. Þau mörk snúast um kúgun og ofbeldi gegn manninum og anda hans. Frelsið sjálft felst í því að skapa heim sem fer ekki yfir mörk ofbeldis. Frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.“

„Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.“

Við þetta má bæta: Frelsið lamast ef óttinn við hið þekkta og óþekkta verður sterkur. Frelsi án hugrekkis, frelsi án kærleika og frelsi án ábyrgðar er einskis virði. Frelsi án ótta er aftur á móti eftirsóknarvert.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

 

Úr Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 207
„Íslenskir fjölmiðlar eru í kreppu en ef einhver gerir athugasemdir við vinnubrögð þeirra er sá hinn sami annaðhvort hunsaður eða gerður tortryggilegur. Það er líkt og hugrekki þurfi til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu á Íslandi.“
Gunnar Hersveinn: „Röng umræða um fjölmiðla.“ Fréttablaðið 8. desember 2009.

Gildin eru í bókinni Þjóðgildin

Þjóðfundurinn 6. nóvember 2010 stendur nú yfir. Þjóðfundargestir hafa nú valið grunngildin sem þeir telja að eigi að birtast í nýrri stjórnarskrá. Í bókinni minni Þjóðgildin eru að finna greinar um öll þessi gildi; jafnrétti, lýðræði, réttlæti, virðing, heiðarleiki, frelsi, mannréttindi og ábyrgð. Hér eru gildin í hnotskurn:

Jafnrétti felst í jafnri stöðu kynjanna gagnvart völdum, ríkidæmi, störfum og heimili. Jafnrétti er svar við kúgun og launin eru betri veröld fyrir alla, konur og karla. Jafnrétti skapar jafnvægi milli manna og laðar fram heillavænlegar ákvarðanir.

Lýðræði felst í samfélagi þar sem viska fjöldans stígur hæglátlega fram og kveður á um veginn framundan. Lýðræði þrífst ekki í landi hörku, múgsefjunar eða valdamikilla manna. Lýðræði kallar á virðingu og samráð fólks um næstu skref.

Réttlæti felst í því að skapa jafnan aðgang að völdum og tækifærum og að allir standi jafnfætis gagnvart lögum og reglum, þar á meðal refsingum. Réttlæti felur í sér mannúð og það skapar samfélag mannréttinda sem berst gegn spillingu.

Virðing felst í því að heiðra sambandið milli sín og annarra og veita umhverfinu stöðu í hjarta sínu. Virðing felur í sér væntumþykju gagnvart öðrum. Hún er forsenda fyrir betri heimi. Virðing er svarið við fordómum og aðskilnaði.

Heiðarleiki felst í því að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum. Sá sem vill verða heill til orðs og æðis þarf að finna jafnvægið milli sín og samfélags. Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða og samfélagið verður opið og gagnsætt.

Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.

Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.

Mannréttindi felast í þeim gildum sem eru sammannleg og þar af leiðandi óháð trúarbrögðum, stjórnmálum, stöðu, búsetu og hverju öðru sem ætlað er til að aðgreina manneskjur og raða þeim í flokka. Mannréttindi gilda á öllum tímum og óháð aðstæðum og fyrir alla. Þau eru ævinlega til stuðnings lífinu og gegn allri kúgun, eyðileggingu og dauða.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is