Greinasafn fyrir merki: Heiðarleiki

Heiðarleiki sem þjóðgildi

Heiðarleiki er eitt af þjóðgildum Íslendinga. Staða heiðarleikans í samfélaginu er stundum óljós. Allir krefjast heiðarleika en færri eru reiðubúnir til að leggja eitthvað á sig til að styðja hann og styrkja. 

Heiðarleiki er eftirsóknarverð dyggð sem þarf að læra og æfa. Samfélag sem vill vera heiðarlegt þarf aga til að standast freistinguna sem skjótfengur gróði felur í sér og hugrekki til að sporna gegn spillingu tíðarandans.

Heiðarlegt samfélag hefur tvær víddir, önnur felur í sér fyrirmyndar samskipti og hin spornar gegn slægð, blekkingu og lýgi. Heiðarlegir borgarar hafa engan áhuga á  líferni sem hægt er að afhjúpa á einu augabragði. Heiðarleikinn veitir þeim frelsi og gleði.

Þjóð verður ekki heiðarleg nema hún búi yfir kröftugum borgurum. Spilling sprettur upp ef almenningur sofnar á verðinum. Dagblað verður ekki gott nema lesendur þess séu kröfuharðir. Hætta er á að það dragi úr heiðarleika stjórnvalda ef fjölmiðlar og almenningur missa áhugann og veita ekki aðhald.

Þjóð sem vill gera heiðarleika að þjóðgildi sínu þarf að leggja ýmislegt á sig. Ekki er nóg að velja gildið. Almenningur þarf að vera heilsteyptur og áhugasamur um vænlegt samfélag og gera kröfur til fulltrúa sinna. Hann má til dæmis alls ekki umbera gort yfir svikum undan skatti eða aðferðum sem felast í því að greiða ekki í sameiginlega sjóði. Gagnrýni og gagnsæi eru nauðsynleg hjá heiðarlegri þjóð. Það er viturlegt að hrífast af þjóð sem rís upp gegn ranglæti og lætur ekki ljúga að sér.

Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða í opnu og gagnsæju samfélagi og felst í að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Deila

KALDAR TÆR KJÓSENDA

islandÞjóðin er á gönguferð og ólíkir tíðarandar blása ýmist í bakið eða fangið. Sumir vilja snúa við – aðrir ekki, sumir benda í austur, aðrir í vestur, nokkrir til hægri og stöku til vinstri. Kosið verður um áttina 27. apríl 2013.

I. TÍÐARANDINN

Spár fyrir Alþingiskosningar 2013 gera ráð fyrir því að það sem var verði næst á dagskrá. Taumleysi og agaleysi er það sem var ásamt hroka, óbilandi bjartsýni og óbeisluðum krafti að ógleymdri óútreiknanlegri hegðun.

Efnishyggja, skammsýni, spilling, yfirstétt og eyðing auðlina einkenndi það sem var – en það sem átti að koma í staðinn var víðsýni, heiðarleiki, jöfnuður, sjálfbærni og gagnsæi ásamt vináttu og samábyrgð. Þangað átti að minnsta kosti að stefna.

Óbilandi einstaklingshyggja, þrautseigja, forysta og yfirburðir geystust um eins og framtíðin væri þeirra. En eftir hengiflugið efldist virðing, umhyggja, nægjusemi og lýðræði. Tíðarandar takast á, það sem var togar í og það sem vill verða er ekki fast í hendi.

II. GÖNGUFERÐIN

Gangan á milli þess sem var og þess sem verður tekur á, hún þarfnast þolinmæði og úthalds göngufólks. Sundrung skapast í hópnum, sumir vilja snúa við, aðrir halda áfram og einhverjir eru áttavilltir.

„Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi – snúum við,“ segir þreytt göngufólk,“ „Sjáið þið ekki reykinn sem stígur upp af rústunum, þar er ekkert skjól – höldum áfram,“ segja aðrir í hópnum.

Áfangastaðurinn er handan við hæðirnar en of margt göngufólk virðist reiðubúið að snúa við á vaðinu yfir jökulána. Kjósa þarf um næstu höfuðátt í miðri á. Enginn vandi er að spá köldum tám kjósenda á bakkanum báðum megin árinnar en …

III. AFTURGANGA – FRAMGANGA

Framtíðin er val, hún er mótuð af þeim sem stíga lífsgönguna á hverjum tíma. Hún er ýmist fram eða aftur, í hring eða spíral í meðvindi eða mótvindi tíðarandans. Þjóðin er á vaði og lýkur ferðinni með kaldar tær á árbakkanum hvort sem hún snýr við eða ekki. Öðrum megin blána þær en hinum megin má nudda lífi í þær og fá blóðið til að renna á nýjan leik. En hvorum megin?

 

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 

 

 

Hver nennir að vera heiðarlegur?

Það er ekki nóg að velja þjóðgildin, það er ekki nóg að hengja þau upp á vegg sem leiðarljós eða læra þau utanbókar. Verkefnið framundan er að tileinka sér þau. Heiðarleiki hefur margsinnis verið valinn eitt æðsta þjóðgildi Íslendinga. „Allir vita að heiðarleiki er göfug dyggð en enginn nennir að læra hana,“ er fullyrðing í anda Laó-tse.

Heiðarleiki er í raun rammi eða mörk sem ekki má fara yfir. Heiðarleiki birtist annars vegar gagnvart sjálfum sér og hins vegar öðrum. Heiðarleiki i eigin garð kemur öðrum ekki við nema þá helst nánustu aðstandendum. En heiðarleiki gagnvart öðrum dregur til sín mörg önnur gildi eins og traust og réttlæti.

Fyrirtæki sem hefur heiðarleika sem leiðarljós leynir ekki mikilvægum upplýsingum fyrir viðskiptavinum sínum. Það veitir ekki lán sem það á ekki fyrir né sá sem fær það, það lýgur ekki og blekkir ekki til að bjarga sér frá falli. Skortur á heiðarleika var áberandi fyrir hrun.

Samfélag sem hefur heiðarleika að leiðarljósi gerir það sem það hefur samþykkt. Það mismunar ekki fólki. Það leggur sig fram um jöfnuð, ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. Heiðarlegt samfélag þarf að leggja eitthvað á sig til að standa undir nafni, það er ekki nóg að birta tölur eða kaupa skýrslur.

Alþingi sem hefur heiðarleika að leiðarljósi og samþykkir Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar um sama efni hefur samþykkt eftirfarandi: Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð (13, 2010). Samþykktin verður sennilega látið nægja.

Ef þessi yfirlýsing verður látin næga, er ekkert samband milli hugar og handar. Heiðarleiki er nefnilega samhljómur milli hugsjóna og aðgerða. Það er ekki nóg að segjast vera heiðarlegur eins og títt er, heldur þarf hátternið ennfremur að vera það. Ef það verður bara skorið niður í skólakerfinu og námsgagnasjóðir lagðir niður, þá er ofangreind samþykkt merkingarlaus ímyndarvinna. Hún verður sennilega vitnisburður um fögur fyrirheit.

Ég held að þjóðin hafi valið heiðarleika sem æðsta gildið á Íslandi vegna áþreifanlegs og mælanlegs skorts á honum hjá þeim sem tengjast valdi og óheyrilegu ríkidæmi. Hrópað var á heiðarleika meðal annars til að sporna gegn tilurð yfirstéttar. Heit um betrumbætur er byrjunin en hegðunin er prófsteinninn. Hlustum ekki á fagurgala, tökum eftir þeim sem raunverulega eru að störfum til að byggja upp betra samfélag, fylgjumst með grasrótinni.

Bókin Þjóðgildin er viðleitni til að fylgja þjóðfundunum 2009 og 2010 eftir og hún er verkfæri handa þeim sem vilja taka þátt í því að skapa betra samfélag þar sem efnahagur og peningar eru ekki einu guðirnir og mælikvarðarnir. Það sem er hrunið, er hrunið, beinum huganum annað.

Hver nennir að vera heiðarlegur? Ef samfélagið metur heiðarleika mikils og lætur ekki glepjast af fölskum vonum, ef virðing fylgir heiðarleika og sú yfirlýsing að hann sé eftirsóknarverður, þá gæti ef til vill eitthvað breyst. Ef samfélagið krefur alla um heiðarleika, ekki aðeins óbreytta launamenn, þá mun margt breytast til betri vegar.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is