Greinasafn fyrir merki: heimspeki

Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni

GHFI23

Ný bók eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur um öfluga borgararvitund er komin út.

Bókin Hugskot er handbók fyrir alla sem vilja taka þátt í baráttunni fyrir betra samfélagi. Umfjöllunarefninu er best lýst með hugtakinu gagnrýninn borgari sem felst í því að kunna skil á mannréttindum, vera læs á samtímann og þora að mótmæla.

Markmiðið er að efla kunnáttu og færni lesenda í að skyggnast inn í eigið hugskot, beita gagnrýnni hugsun ásamt því að greina ímyndir, fordóma, texta og skilaboð í samfélaginu.

hugskot9

Höfundar Hugskots hafa áralanga reynslu af starfi sem tengist efni bókarinnar, meðal annars sem kennarar og ráðgjafar. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra er með MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun og er sjálfstætt starfandi fræðikona í ReykjavíkurAkademíunni. Gunnar Hersveinn rithöfundur er menntaður í heimspeki og blaðamennsku og höfundur nokkurra bóka, þar á meðal metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu.

Hugskot er bók um gagnrýna hugsun, flokkanir, staðalímyndir, fordóma, jafnrétti, friðarmenningu og borgaravitund gefin út af IÐNÚ. Teikningar: Sirrý Margrét Lárusdóttir. Umbrot og hönnun: Bjarki Pétursson.

Tenglar

Facebooksíða

Iðnú – kaupa bók

Gagnrýnir borgarar mótmæla

Deila

Hefur hugsun áhrif á heilsu?

facebook_event_1703336496546142

Heilsan er hátt skrifuð í hugum Íslendinga og er jafnan nefnd sem höfuðgildi í lífinu. Læknisfræðin lítur gjarnan á huga og líkama sem aðskilin fyrirbæri en hvað segja önnur vísindi og heimspekin? Getur til að mynda vonglaður hugur haft heilsusamleg áhrif á starfsemi líkamans? Spáum í það:

Hryggðarefnin eru óendanlega mörg og áhyggjur hafa tilhneigingu til að vaxa – en það er þó ekki næg ástæða til að útiloka gleðina.

Lífið getur verið eilífur táradalur sé þess óskað. En hvernig líður þeim sem rækta ekki gleðina? Stórir hópar fólks missa af henni því þeir hleypa henni ekki um líkama sinn, huga eða hjarta. Margar leiðir eru til að sneiða hjá gleðinni og safna fremur áhyggjum og hrukkum.

Gleðin er vanmetinn mælikvarði í lífinu, hún leynist í mörgu, kúnstin er bara að njóta hennar. Líkaminn þarfnast einfaldlega gleði, gleði áreynslunnar, matar og drykkjar, hvíldar og starfs. Gleðin kemur fjörefnum af stað í taugakerfinu svo þeir glöðustu lyfta höndum, hrópa upp yfir sig og dansa af kæti. Aðrir hlæja sig magndofa og hníga niður. Hvílík gleði! Aukaverkanir? Hún er smitandi og breiðist út til annarra. Það albesta við gleðina er löngunin til að vilja deila henni með öðrum, að gefa með gleði. Von og gleði eru gott par.

Um leið og vonin vaknar verða sporin léttari og viljinn sterkari. Þrauka má jafnvel án ástar og gleði – en ef vonin slokknar þá er voðinn vís. Von felur í sér ósk og þrá. Hún hverfist um bjartsýni og hughreysti og sá sem missir hana fer á andlegan vonarvöl. Von er sláttur hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans – sem getur ræst. Vonin ljær lífsbaráttunni þindarleysi og göngunni þrótt.

Hvað er heilsa? Getur hugsun haft áhrif á hjartað? Geta viðhorf haft áhrif á líðan? Getur gleðin og það að deila gleðinni með öðrum lengt lífið? Lára G. Sigðurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísindum og Gunnar Hersveinn rithöfundur ætla að eiga samtal um samband hugar og heilsu á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 20. janúar klukkan 20:00. Allir velkominir – enginn aðgangseyrir.

Tengill

Melda sig á viðburð hér

Upplýsingar um viðburðinn

 

Hver er myndin af guði?

Heimspeki

Spurningin um myndina af guði er ekki spurning um tilvist, trú eða reynslusögur, heldur þær myndir sem fólk í gegnum aldirnar hefur gert sér í hugarlund af guði eða veru sem er æðri en maðurinn.

Myndirnar hafa verið margbrotnar eftir tímaskeiðum og menningu, guðirnir af ýmsum toga, kynlausir og kynjaðir. Afskiptalaus himnavera er sennilega ein elsta guðsmyndin, óljós hugmynd um veru sem hafði ekki nafn, eðli, framtíð eða fortíð. Höfuðskepnurnar, jörð, loft, vatn og eldur hafa allar birst á hugartjaldinu sem guð á himnum eða guð í undirdjúpunum.

Myndin af guði sýnir yfirleitt veru sem býr yfir einhverjum mætti sem manneskjur búa ekki yfir eins og eilífð eða valdi til að sigra dauðann (sem allir óttast). Önnur mynd sýnir frjósemi, efni sem sáldrast yfir heiminn og upp vaxa jurtir. Þriðja myndin sýnir stríðsguði sem breyta, bylta og frelsa úr ánauð, fjórða myndin sýnir varanleika.

Myndin af guði sýnir ekki aðeins karlkyns öldunga heldur einnig gyðjur, konur og mæður. Myndin hefur bæði varpast fram sem himnadrottning og himnafaðir. Jafnvel börnum, vinum, óvinum og dýrum bregður fyrir í myndinni af guði.

Það er krefjandi verkefni að dusta rykið af myndinni af guði, efast og leita og sjá hvað opinberast , því myndir af móður, föður, sonum (en þó ekki dætrum), konum, körlum, hjónum og einnig af kaldri skynsemi og heitum kærleika,  birtast.

HELGIMYNDIR

Nútíma rithöfundar sem semja dæmisögur um guði í mannheimum fela hina guðlegu veru iðulega meðal hinna ósýnilegu. Í þeim gæti guð verið stétt- og allslaus indverskur karl eða pakistönsk kona með sýrubrennt andlit sem enginn tekur eftir.

Listamenn hafa löngum glímt við myndina af guði og skapað margar helgimyndir, samið tónverk, skrifað bækur og gert myndverk.
Helgimynd er heiti yfir myndir með trúarlegu inntaki. Íkon er helgimynd, oftast gerð á tré eða í fílabein og stundum úr blaðgulli.

KristinGunnlaugsdottir - Afrit

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður hefur tekist á við helgimyndina í verkum sínum. Hún hefur birt þar konur, börn, öldunga og fjöll en einnig „fléttaði ég saman blaðgulli og eggtemperu, eða tækni helgimynda við nýtt myndmál. Hinn heiti kjarni mannlegrar tilveru, sem býr meðal annars í sköpum konunnar eða leið innra lífs og fæðingar. Birting kvenorkunnar er minn veruleiki,“ segir Kristín (Undir rós, bls. 21). Hún fjallar m.a. um náttúruorku, lífsgeislun, kynkraft og frjósemi sem tengist fæðingu,  móður jörð og hringrás lífsins. Allt eru þetta þættir sem sjá má í myndinni af guði.

Átök hafa ævinlega staðið yfir um myndina af guði því sá sem mótar hana hefur vald. En hvernig lítur myndin út núna? Er hægt að lýsa henni? Á hún framtíð fyrir sér? Er frummyndin til eða aðeins margræð ímynd, eftirlíking af eftirlíkingu?

Hvert er svarið? Heimspekin og listin eiga leitina að svari sammerkt, og innan þeirra vébanda eru settar fram tilgátur, túlkanir og bráðabirgðaniðurstöður sem vekja nýjar spurningar.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður munu ræða saman um myndina af guði á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 21. október kl. 20:00 út frá nokkrum sjónarhornum og mun Kristín m.a. segja frá endursköpun sinni á helgimyndum en sú túlkun hefur komið mörgum á óvart.

Enginn aðgangseyrir, allir velkomnir.

Tenglar

Viðburður á facebook

Kristín Gunnlaugsdóttir

 

Leitin að svari á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visit

Hvert liggur leið? Oft er sagt að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju en ef til vill væri betra að segja að allir leiti að svari. Nokkrir telja sig finna svarið og hanga í því eins og það væri haldreipi tilverunnar. Aðrir efast um allt og festa ekki hönd á neinu. En hvert er svarið?


Á örlagastundum sprettur svarið óvænt fram og verður öllum ljóst.

Við getum leitað að hverju sem er og að sumu leyti er allt tínt, við höfum tilhneigingu til að glata, allt sem er, er að verða eitthvað annað, ekkert er stöðugt í huga okkar, lífið er ævinlega ógert.

Við þurfum ekki nauðsynlega að leita að hamingju eða guðsríki. Við leitum vissulega að skjóli ef við erum svipt öryggi, og fæði ef það er matarskortur, og vinsemd ef við erum ein, og virðingu ef hún lætur á sér standa, en það er eitt svar sem allir hafa heyrt um en enginn skilur fyrr en á reynir. Það getur auðveldlega gleymst.

Margar bækur eru til um svarið,  trúarbrögð og  lífsskoðanir, heil mannkynssaga en þrátt fyrir það gleymist það of oft og við lendum í of mörgum ógöngum og óþarflega miklum flækjum.

Við getum komið auga á svarið með rannsóknum, við getum greint það og mælt, vegið og metið, við getum lært það og stundað það, en við „finnum“ það ekki í tvöfaldri merkingu þess orðs nema við tilteknar aðstæður og þá birtist það og verður öllum augljóst.

Það er ekkert dularfullt við svarið eða yfirnáttúrulegt og það má vissulega finna því stað í taugakerfinu en það er eldra en framheilinn og hefur þróast með manninum frá öndverðu.

Það hefur verið orðað í líffræði, heimspeki, sálfræði, trúarbragðafræði og öðrum hug- og félagsvísindum. Skilgreint og flokkað en þó er það alltaf jafn fallegt og satt, þegar það brýst fram. Það hefur fengið mörg nöfn, eitt þeirra er samlíðun sem felst í því að geta liðið með öðrum á jafnréttisgrunni og rétt þeim hjálparhönd sem þurfa á henni að halda.

Þrátt fyrir að fullyrt sé að fólk sé fullt sjálfselsku og hugsi fyrst og fremst um eigið skinn, öryggi, fæði og fjölskyldu þá brýst fram kennd sem á ekkert skylt við rök eða efnislegar ástæður, hún brýst fram þegar aðrir missa allt í hamförum hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar.

Samlíðun með öðrum brýst fram meðal almennings og það er sama hvað yfirvöld á hverjum stað mæla eða gera, það skiptir engu máli. Þannig var það gagnvart fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Indlandshafi og jarðskjálftans á Haítí og þannig er það gagnvart flóttafólkinu frá Sýrlandi, Írak og fleiri löndum. Samlíðun var svarið.

Samlíðun er ekki vorkunn, hún er samkennd, hún er umhyggja fyrir ókunnugum og geta sett sig í spor annarra. Hún er mannleg meginregla sem við verðum ekki svipt, ekki einu sinni með heilaþvotti. Hún er miðjan í allri mannúð og hún hlustar ekki á úrtölur. Hún er umhyggja og kærleikur. Hún er charity, agape, karuna og compassion.

Víðast hvar á jörðinni hafa  sprottið af henni margskonar en lykilsetningar í ólíkum samfélögum. Dæmi um það eru ráðleggingarnar: „Ekki gera öðrum það sem þér viljið ekki að þeir gjöri yður.“ (Konfúsíus 551-479 f. Kr) og „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Jesús, fjallræðan Matt. 22.37-39). Skynsemin orðar þetta svona en kjarninn er samlíðun.  Eitthvað á þessa leið skrifaði heimspekingur „Breyttu eftir þeim lífsreglum sem þú vilt jafnframt að aðrir breyti eftir.“ (Immanuel Kant 1724–1804).

Einnig hvíla nokkrar frelsiskröfur á samlíðun t.d. frelsi frá ótta, frelsi frá kvölum og frelsi til að lifa mannsæmandi lífi. Meira um það síðar.

Heimspekikaffi 16. september í Gerðubergi

Gunnar Hersveinn rithöfundur mun takast frekar á við leitina að svari í mannheimum á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 16. september kl. 20 og Þóroddur Bjarnason myndlistarmaður skoðar málið m.a. út frá spurningunni um hvort hægt sé að fullgera lífið eða hvort það sé ævinlega ógert og ósvarað. Hvert er svarið?

Allir velkomnir.

Tengill

Borgarbókasafn Gerðuberg Heimspekikaffi

Þrífst ástin á einmanakennd?

Morgunblaðið/menning: Rætt verður um ástina í Heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudagskvöldið 15. febrúar kl. 20. Gunnar Hersveinn mun stýra umræðum sem gestir taka virkan þátt í, um eðli ástarinnar og kraftana sem eru þar að verki.
Er ást losti, vinátta eða kærleikur? Er ástin háð tíma, stétt og viðhorfi eða er hún alltaf og alls staðar eins? Er viðhorf Íslendinga til ástarinnar sprottið úr norrænum sögum eða er það ef til vill sprottið úr forngrískri heimspeki og ástarbókmenntum miðalda? Þetta eru sumar spurninganna sem ber á góma í Heimspekikaffi undir stjórn Gunnars Hersveins, sem haldið verður í Gerðubergi miðvikudaginn 15. febrúar, klukkan 20.00. Gestur kvöldsins verður Aðalheiður Guðmundsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Aðalheiður hefur fjallað um ástina í bókmenntum fyrri alda og er meðal annars höfundur bókar um norrænu arfsöguna Úlfhams sögu.»Við byrjum hjá Grikkjum til forna og ræðum meðal annars hugmynd um ástina út frá kenningu Aristófanesar, um að maðurinn og konan hafi upphaflega verið ein vera sem guðirnir skiptu í tvennt,« segir heimspekingurinn Gunnar Hersveinn. Í þeirri táknsögu um ástina segir hann helmingana síðan leita hvor annars. »Að sumu leyti er ástin þá söknuður og þrífst á einmanakennd og löngun til að finna hinn helminginn,« bætir hann við.»Til umhugsunar verður lögð fram tilgáta þar sem ástinni er skipt í þrennt og reynt að raða hlutunum upp á ýmsan hátt. Það eru hinn erótíski þáttur, þáttur vináttunnar og hinn andlegi þáttur.«Aðalheiður segir frá riti Rómverjans Óvíðs sem skrifaði rit sitt Ars amatoria (Listin að elska), hún hefur einnig skoðað ástina í riddarasögum og hvernig kenningar um hana hafi borist fyrst til Íslands, meðal annars í riti eftir Óvíd, því elsta sem til er um þetta efni.»Við Aðalheiður munum ekki bara tala, heldur er þetta umræðuvettvangur og gestirnir taka við,« segir Gunnar um Heimspekikaffið. »Við hvert borð verða ákveðnar spurningar um ástina ræddar og tjá hóparnir sig um þær.«
efi@mbl.is Morgunblaðið 14.02.12