Greinasafn fyrir merki: heimspekikaffi

Hefur hugsun áhrif á heilsu?

facebook_event_1703336496546142

Heilsan er hátt skrifuð í hugum Íslendinga og er jafnan nefnd sem höfuðgildi í lífinu. Læknisfræðin lítur gjarnan á huga og líkama sem aðskilin fyrirbæri en hvað segja önnur vísindi og heimspekin? Getur til að mynda vonglaður hugur haft heilsusamleg áhrif á starfsemi líkamans? Spáum í það:

Hryggðarefnin eru óendanlega mörg og áhyggjur hafa tilhneigingu til að vaxa – en það er þó ekki næg ástæða til að útiloka gleðina.

Lífið getur verið eilífur táradalur sé þess óskað. En hvernig líður þeim sem rækta ekki gleðina? Stórir hópar fólks missa af henni því þeir hleypa henni ekki um líkama sinn, huga eða hjarta. Margar leiðir eru til að sneiða hjá gleðinni og safna fremur áhyggjum og hrukkum.

Gleðin er vanmetinn mælikvarði í lífinu, hún leynist í mörgu, kúnstin er bara að njóta hennar. Líkaminn þarfnast einfaldlega gleði, gleði áreynslunnar, matar og drykkjar, hvíldar og starfs. Gleðin kemur fjörefnum af stað í taugakerfinu svo þeir glöðustu lyfta höndum, hrópa upp yfir sig og dansa af kæti. Aðrir hlæja sig magndofa og hníga niður. Hvílík gleði! Aukaverkanir? Hún er smitandi og breiðist út til annarra. Það albesta við gleðina er löngunin til að vilja deila henni með öðrum, að gefa með gleði. Von og gleði eru gott par.

Um leið og vonin vaknar verða sporin léttari og viljinn sterkari. Þrauka má jafnvel án ástar og gleði – en ef vonin slokknar þá er voðinn vís. Von felur í sér ósk og þrá. Hún hverfist um bjartsýni og hughreysti og sá sem missir hana fer á andlegan vonarvöl. Von er sláttur hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans – sem getur ræst. Vonin ljær lífsbaráttunni þindarleysi og göngunni þrótt.

Hvað er heilsa? Getur hugsun haft áhrif á hjartað? Geta viðhorf haft áhrif á líðan? Getur gleðin og það að deila gleðinni með öðrum lengt lífið? Lára G. Sigðurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísindum og Gunnar Hersveinn rithöfundur ætla að eiga samtal um samband hugar og heilsu á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 20. janúar klukkan 20:00. Allir velkominir – enginn aðgangseyrir.

Tengill

Melda sig á viðburð hér

Upplýsingar um viðburðinn

 

Deila

Feðraveldið í heimspekikaffi

Heimspeki

Ég er femínisti, ég er karlmaður, ég er karlfemínisti. Hvaða máli skiptir það? Engu. Hvað er svona merkilegt við það? Ekkert. Hver einstaklingur getur verið lýðræðissinni, friðarsinni, jafnréttissinni, náttúruverndarsinni og hvaðeina annað og kosið, valið og mótmælt án þess að kynið komi fram.

Þetta merkir þó ekki að kyn skipti engu máli. Kyn er eldfim pólitísk breyta og viðbrögð geta ráðist af því hvort um karl eða konu er að ræða í hverju tilviki. Það er því í góðu í lagi að spyrja „Hvernig bregst feðraveldið við karlfemínistum?“ Það er áhugavert sem athugun í félagsvísindum.

Arfur kynslóðanna

Feðraveldi er víðtækt hugtak sem merkir almenna karllæga drottnum í samfélaginu. Arfur kynslóðanna og vald gengur frá föður til sonar, frá körlum til karla. Andstætt kerfi væri þá mæðraveldi þar sem opinbert vald flyst á milli frá móður til dóttur.

Útvaldir karlar tóku sér fyrr á öldum allt opinbert vald og lögðu undir sig allar stofnanir sem þeir höfðu áhuga á. Þeir lögðu hald á og eignuðu sér hluti, halda í valdatauma og voru allsráðandi á þingum, í ráðum, nefndum og í sérhverjum hópi þar sem eignir, þýðingarmiklar ákvarðanir og peningar koma við sögu. Valdahefðin er þéttskipað körlum. Þetta þýddi óhjákvæmilega einnig undirskipun og kúgun kvenna.

Forræðishyggja aðal-karlanna  á sér rætur í feðraveldinu og birtist hún reglulega í samfélagi nútímans, til dæmis nú á haustmánuðum við skipun dómara í Hæstarétt Íslands. Dómnefnd sem mat hæfni umsækjenda var skipuð fimm karlmönnum en engri konu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að einn karlinn sem sótti um væri hæfastur af þeim, þótt mjög hæf kona væri reiðubúin til að gegna starfinu. Nú eru því níu karlar sem skipa Hæstarétt Íslands og ein kona. Þetta er dæmi um birtingarmynd feðraveldis. Efnisleg rök feðraveldisins og viðmið hníga að því að skipa karl í slíka stöðu. Jafnréttissinnar spyrja aftur á móti „Er ekki allt í lagi?“

Feðraveldið hyglar völdum körlum, veitir þeim háar stöður og laun og viðurkenningar á allan hátt. Þetta er kerfi kúgunar sem kemur í veg fyrir jafnrétti kynjanna jafnvel þótt réttlát jafnréttislög hafi verið sett í landinu. Karlar sköpuðu þetta valdakerfi, það er karllægt og sumum körlunum finnst það enn réttlátt og yfir allan vafa hafinn. Karlar eru samkvæmt þessu einfaldlega miklu oftar hæfari en konur til að gegna valdstöðum, en þó aðeins sumir karlar. Alls ekki allir karlar, þeir þurfa að standast ákveðna mælikvarða feðraveldisins,  lúta tilteknum reglum og hafna kvenlægum gildum.

Hugtakið „feðraveldi“ er vissulega víðtækt og vandasamt í meðförum en það merkir safn hefða og venja, laga og reglugerða sem standa vörð um vald karla og útilokar og undirskipar í sama mund konur og kvenlæga karla. Hugtakið merkir í sinni einföldustu mynd félagslegt kerfi þar sem konur eða hið kvenlæga er undirskipað.

Feðraveldið hefur orðið fyrir töluverðri gagnrýni á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og hefur hopað á fæti undan geirvörtum kvenna og margskonar þöggun á kvennakúgun og -ofbeldi í samfélaginu. Kvenfemínistar eru greinilega í fararbroddi byltinganna sem nú eru háðar. Brjóstabyltingunni eða #FreeTheNipple var meðal annars beint gegn feðraveldinu og flugu setningar um netið og fjölmiðla, til dæmis sagði Björt Ólafsdóttir þingmaður þegar hún tók þátt í #FreeTheNipple : „Þessi er hérna til að gefa börnum að borða. Troðiði því upp í feðraveldið á ykkur“.

Spurt er „Hvers vegna geta karlar gengið um berir að ofan í opinberu rými en konur ekki?“ Forréttindi karla í samfélaginu eru oft talin sjálfsögð og hegðun þeirra og viðhorf ekkert til að gera veður út af. Þá er aðgengi þeirra að völdum og stöðum betri en kvenna.  Spyrja má „Er lýðræði á Íslandi eða aðeins karlræði?“

Heimspekikaffi 18. nóvember kl. 20

Það er áhugavert að víkja að karlfemínistum í þessu samhengi. Hvernig tekur „feðraveldið“ viðleitni karlfemínista til að breyta samfélaginu? Hvernig gengur körlum að beita femíniskum viðmiðum til að breyta viðhorfum og brjóta niður kynjað valdakerfi ?

Kvenlæg og karllæg gildi og nýjar og breyttar karlmennskur verða til umræðu í heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. nóvember kl. 20.00. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur pælir í feðraveldinu og Hjálmar Sigmarsson kynja- og mannfræðingur fjallar um reynslu ungra karlmanna sem að hafa tileinkað sér femínisma.

Velkomin, konur og karlar.

Tengill

Viðburðurinn Karlfemínistar í feðraveldi

Leitin að svari á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visit

Hvert liggur leið? Oft er sagt að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju en ef til vill væri betra að segja að allir leiti að svari. Nokkrir telja sig finna svarið og hanga í því eins og það væri haldreipi tilverunnar. Aðrir efast um allt og festa ekki hönd á neinu. En hvert er svarið?


Á örlagastundum sprettur svarið óvænt fram og verður öllum ljóst.

Við getum leitað að hverju sem er og að sumu leyti er allt tínt, við höfum tilhneigingu til að glata, allt sem er, er að verða eitthvað annað, ekkert er stöðugt í huga okkar, lífið er ævinlega ógert.

Við þurfum ekki nauðsynlega að leita að hamingju eða guðsríki. Við leitum vissulega að skjóli ef við erum svipt öryggi, og fæði ef það er matarskortur, og vinsemd ef við erum ein, og virðingu ef hún lætur á sér standa, en það er eitt svar sem allir hafa heyrt um en enginn skilur fyrr en á reynir. Það getur auðveldlega gleymst.

Margar bækur eru til um svarið,  trúarbrögð og  lífsskoðanir, heil mannkynssaga en þrátt fyrir það gleymist það of oft og við lendum í of mörgum ógöngum og óþarflega miklum flækjum.

Við getum komið auga á svarið með rannsóknum, við getum greint það og mælt, vegið og metið, við getum lært það og stundað það, en við „finnum“ það ekki í tvöfaldri merkingu þess orðs nema við tilteknar aðstæður og þá birtist það og verður öllum augljóst.

Það er ekkert dularfullt við svarið eða yfirnáttúrulegt og það má vissulega finna því stað í taugakerfinu en það er eldra en framheilinn og hefur þróast með manninum frá öndverðu.

Það hefur verið orðað í líffræði, heimspeki, sálfræði, trúarbragðafræði og öðrum hug- og félagsvísindum. Skilgreint og flokkað en þó er það alltaf jafn fallegt og satt, þegar það brýst fram. Það hefur fengið mörg nöfn, eitt þeirra er samlíðun sem felst í því að geta liðið með öðrum á jafnréttisgrunni og rétt þeim hjálparhönd sem þurfa á henni að halda.

Þrátt fyrir að fullyrt sé að fólk sé fullt sjálfselsku og hugsi fyrst og fremst um eigið skinn, öryggi, fæði og fjölskyldu þá brýst fram kennd sem á ekkert skylt við rök eða efnislegar ástæður, hún brýst fram þegar aðrir missa allt í hamförum hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar.

Samlíðun með öðrum brýst fram meðal almennings og það er sama hvað yfirvöld á hverjum stað mæla eða gera, það skiptir engu máli. Þannig var það gagnvart fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Indlandshafi og jarðskjálftans á Haítí og þannig er það gagnvart flóttafólkinu frá Sýrlandi, Írak og fleiri löndum. Samlíðun var svarið.

Samlíðun er ekki vorkunn, hún er samkennd, hún er umhyggja fyrir ókunnugum og geta sett sig í spor annarra. Hún er mannleg meginregla sem við verðum ekki svipt, ekki einu sinni með heilaþvotti. Hún er miðjan í allri mannúð og hún hlustar ekki á úrtölur. Hún er umhyggja og kærleikur. Hún er charity, agape, karuna og compassion.

Víðast hvar á jörðinni hafa  sprottið af henni margskonar en lykilsetningar í ólíkum samfélögum. Dæmi um það eru ráðleggingarnar: „Ekki gera öðrum það sem þér viljið ekki að þeir gjöri yður.“ (Konfúsíus 551-479 f. Kr) og „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Jesús, fjallræðan Matt. 22.37-39). Skynsemin orðar þetta svona en kjarninn er samlíðun.  Eitthvað á þessa leið skrifaði heimspekingur „Breyttu eftir þeim lífsreglum sem þú vilt jafnframt að aðrir breyti eftir.“ (Immanuel Kant 1724–1804).

Einnig hvíla nokkrar frelsiskröfur á samlíðun t.d. frelsi frá ótta, frelsi frá kvölum og frelsi til að lifa mannsæmandi lífi. Meira um það síðar.

Heimspekikaffi 16. september í Gerðubergi

Gunnar Hersveinn rithöfundur mun takast frekar á við leitina að svari í mannheimum á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 16. september kl. 20 og Þóroddur Bjarnason myndlistarmaður skoðar málið m.a. út frá spurningunni um hvort hægt sé að fullgera lífið eða hvort það sé ævinlega ógert og ósvarað. Hvert er svarið?

Allir velkomnir.

Tengill

Borgarbókasafn Gerðuberg Heimspekikaffi

Að byrja á sjálfum sér

12_vef_feb_heimspeki_visitEngin persóna verður fullgerð fyrr en hún finnur hjá sér knýjandi þörf til að gera eitthvað fyrir aðra. Sú persóna sem finnur samhljóminn með öðrum, getur liðið með öðrum og nemur samhengið í tilverunni fyllist löngun til að geta látið gott af sér leiða. Hún gæti anað út í verkefnið en ef hún er skynsöm þá, staldrar hún við og ákveður að búa sig undir það með því að byrja á sjálfum sér.

Ekki byrja á öðrum

Það er ekki heiglum hent að byrja á sjálfum sér, það er mun auðveldara að byrja á öðrum og segja samfélaginu til. Að byrja á sjálfum sér er viðamikil rannsókn. „Fyrir hverju vil ég berjast fyrir og hverju berst ég gegn? Hver eru mörk mín, hvenær segi ég hingað og ekki lengra! Hvaða gæði vil ég vernda, hvað get ég lagt af mörkum? Hvernig get ég skapað frið og forðast illsku og ofbeldi? Hverjar eru mínar eigin skoðanir, hverjar hugsjónir?”

Markmiðið með þessari rannsókn er falið í lönguninni til að verða betri sjálfrar sín vegna og annarra. Þessi löngun virðist hafa fylgt mannkyninu frá upphafi og hún birtist oft í þeirri viðleitni að setja sér lífsreglur til að temja sig og til að kalla fram eftirsóknarverða mynd af sjálfum sér.

Grískir fornaldarheimspekingar glímdu við þessa aðferð og hver sá sem les Málsvörn Sókratesar hlýtur að hugsa um orð hans „…  að þetta sé manni best að öllu, að iðka daglega samræður um dyggðina og reyna bæði sjálfan sig og aðra, og órannsakað líf sé einskis virði.“

Efasemdarmaður

Sá sem byrjar á sjálfum sér verður óhjákvæmilega efasemdarmaður, hann efast um það sem aðrir hafa sagt, það sem oftast er sagt, það sem á að vera satt. Hann tekur engu sem fyrirfram gefnu.

Hann er því ekki vinsæll á þessu tímabili, hann verður eins pirrandi broddfluga, því hann efast um það sem aðrir gera. Og ekki aðeins um aðra heldur einnig sjálfan sig, hann brýtur skoðanir, þekkingu, hegðun og hátterni til mergjar.

Ekki til að breyta öllu í auðn og tóm, ekki til að eyðileggja góða stemningu, heldur til að finna eitthvað sem stenst rannsókn. Efasemdin er glíma við lífið og leit að gildum þess og siðfræðispurningin sem vaknar er:

Hvers konar líf er ómaksins vert?

Þetta er heimspekilegt hugarvíl sem vekur menn upp af værum blundi hringrásar hins daglega lífs.

Slíkt hugarvíl er verðugt verkefni og það þarf hugrekki til að leyfa efanum að greina hismið frá kjarnanum. Efinn er liður í því að verða maður sjálfur, upphaf sjálfsskilningsins og eftir að hafa efast rækilega stendur vonandi vakandi hugur á varðbergi gagnvart fordómum, kreddutrú, lygi og heimsku, staðráðinn í að láta ekki glepja sig á ný með innantómum orðum.

Þetta kostar hugrekki. Það er miklu auðveldara að draga sig í hlé heldur en að standa með sjálfum sér. Sá sem byrjar á sjálfum sér verður um sinn eirðarlaus sannleiksleitandi sem þjáist af vitsmunalegri angist. Þetta verkefni getur ært óstöðugan.

Uppbygging

Efinn er grimmur til að byrja með en enginn má festast í linnulausum efasemdum, eitthvað þarf að finnast, einhver sýn eða aðferð svo hægt sé að byggja upp nýja og betri veröld. Því sá sem byrjar á sjálfum sér, gerir það ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur aðra. Það er betra fyrir alla að hver leggi sig fram um að verða sjálfur sem bestur.

Það þarf sterk bein til að byrja á sjálfum sér, aga, vilja, þrautseigju.

Þetta er rannsóknarvinna sem er ómaksins verð. Sókrates sagði: „Ég leitaðist við að telja hvern mann á það, að bera ekki umhyggju fyrir neinum högum sínum, fyrr en hann hefði hugsað um að verða sjálfur sem bestur og vitrastur og ekki fyrir neinum högum borgarinnar fremur en borginni sjálfri – og svo framvegis um alla aðra hluti.“

Sókrates tók afstöðu eftir efasemdir sínar um að sækjast fyrst og fremst eftir dyggðinni, ekki aðeins til að hafa eitthvað til að hugsa um heldur til að breyta hegðun sinni til betri vegar. Hann taldi það líka skyldu sína að ávíta þá sem sækjast eftir hégóma og fjármunum fremur en dyggðum.

Efasemdarmaður getur tekið afstöðu með því sem hann telur vera til heilla fyrir lífið og jörðina, en hann verður aldrei öfgamaður. Hann segist ekki vita svarið, heldur telur það líklegt um stund. Hann er í raun að beita aðferð vísindanna, gera tilraunir og feta sig áfram til að öðlast þekkingu á veröldinni, öðrum og sjálfum sér.

Gunnar Hersveinn rithöfundur fjallar um hvað það þýðir að byrja á sjálfum sér á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti 18. mars 2015 og Ragnheiður Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi og leiðbeinandi á námskeiðum um orkustjórnun segir frá því hvernig nálgast megi efnið með því að setja sér markmið og efla líkamlega, tilfinningalega, hugræna og andlega orku.

Tengill

Heimspekikaffi

Heimspekikaffi – viðburður á facebook

Heimild: Platón.Síðustu dagar Sókratesar. HÍB 1996.
Róbert Jack. Hversdagsheimspeki. Heimspekistofnun 2006

Orkustjórnun

 

VÆNTUMÞYKJA GAGNVART NÁTTÚRUNNI

12_vef_feb_heimspeki_visitGildin í lífinu eru dyggðir, tilfinningar og viðhorf sem við lærum og æfum til að verða betra fólk. Gildin í samfélaginu eflum við og styrkjum til að gera samfélagið betra. Við reynum á sama tíma að kveða niður brestina, heimskuna, grimmdina og eyðileggingarmáttinn sem knýr á.

Gildin í náttúrunni felast í því að bæta samband mannverunnar við náttúruna, efla með okkur virðingu og ábyrgðarkennd gagnvart henni.

Segja má að samband mannveru við náttúruna sé í uppnámi um þessar mundir og verkefnið framundan felist í því að finna jafnvægi og farsæla braut. En hvernig má vinna að því?

Siðfræði náttúrunnar fjallar ekki aðeins skilgreinda mælikvarða um rétt og rangt, góða og ranga hegðun gagnvart náttúrunni heldur einnig um að rækta væntumþykju, virðingu og vinsemd: að finna gleði þegar sambandið styrkist, að bera virðingu fyrir heilbrigðri náttúru og að verða dapur sambandinu er raskað.

Mannveran er hluti af náttúrunni og ætti því að geta ræktað væntumþykju gagnvart henni, og ef það tekst, vex virðingin gagnvart auðlindum hennar og viljinn til að öðlast þekkingu á henni og umgangast af varkárni. En ef hlýjan hverfur, þá hverfur blíðan líka.

Það gæti verið ósnert víðerni, það gætu verið heimkynni dýra, það gæti verið heilt vistkerfi, það gæti verið gróðurlendi, fossaröð, fornt stöðuvatn, tiltekið landslag og það gæti verið háhitasvæði í hættu gagnvart mannlegu kuldakasti.

Mannskepnan gortar oft af því að vera eina siðræna veran á jörðinni, en það er ofsögum sagt , því hjá ýmsum dýrahópum má greina siðrænt atferli eins og umhyggju, samkennd, virðingu, ábyrgð, sorg, hópkennd, hjálpsemi og einnig fórnfýsi. Íslendingar ráðstafa ekki landsvæðum undir orkunýtingu einungis af siðrænum ástæðum eða vegna ábyrgðarkenndar, heldur af hagrænum ástæðum og vegna búsetuskilyrða.

Voðinn er vís ef strengurinn milli manns og náttúru slitnar og sambandið verður firringu að bráð, ef mannveran setur sig á háan hest og geymir sér yfir náttúru á korti á teikniborði.

 

NÁTTÚRAN Á TEIKNIBORÐINU

Áhuginn og krafturinn fer oft allur í það að bæta efnahaginn líkt og ekkert annað vegi þyngra í þessum heimi. Okkur hættir stórlega til að ofmeta hagkerfið og vanmeta vistkerfið. Við gerum ráð fyrir hagvexti án endimarka og sköpum okkur líferni án samhengis við náttúruna, líkt og hún sé til ekki hluti af okkur. Við fórnum vistkerfi fyrir hagkerfi víða um Jörð, vegna þess að það virðist henta okkur um hríð.

Náttúrusvæði á fullnýttu Íslandi flakka nú á milli orkunýtingarflokks, biðflokks og verndarflokks. Við flokkum, leikum okkur og náðum svæði eða nýtum, án virðingar og vinsemdar. Við segjum:
„Við náðum þig Neðri-Þjórsá!“ „Við náðum þig Dettifoss – í bili! Þú átt það ekki skilið en það hentar okkur núna, þú varst á dauðalistanum en við náðuðum þig “ „Við ónáðum þig Urriðafoss og við tökum þig af lífslistanum Dynkur – þú verður ekki lengur til – nema undir okkar stjórn.“

Þessar setningar hljóma undarlega en staðan er jafnvel verri. Tæplega níutíu svæði á Íslandi eru kölluð virkjanakostir sem mögulega verður þá raskað og nýttir til orkuframleiðslu. Náttúran liggur berskjölduð á teikniborðinu og henni á að raska til og frá – eða ekki, svæði sem voru í verndunarflokki flytjast óvænt í nýtingarflokk og jafnvel svæði í þjóðgörðum – allt eftir duttlungum og hagsmunasamningum.

Nýlega dró Orkustofnun til baka þrjá virkjanakosti af 50 sem búið var að senda til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar. Ástæðan var sú að stofnunin notaði ekki nýjustu kort af Vatnajökulsþjóðgarði við vinnslu á virkjunarkostunum. Þessi vandræðalegi gjörningur vakti grun um sambandsrof mannsskepnunnar við náttúrusvæðin.

 

SKEYTINGARLEYSIÐ ER ÓVINURINN

Skeytingarleysi mannsins er versti óvinur náttúrunnar, umhyggjuleysi, andvaraleysi og kæruleysi. Að vera sama um víðernin, að vera sama um miðhálendi Íslands og að líta aðeins á það með virkjun í huga er landinu okkar stórhættulegt. Að láta land sem er mótað af eldvirkni og jöklum, samspili elds og íss í árþúsundir, vera háð tímabundnum hagsmunum virkjanasinna, er ekki vitnisburður um virðingu. Það er vítavert ástleysi.

„Hálendi Íslands, hjarta landsins, er eitt stærsta landsvæði í Evrópu, sunnan heimskautsbaugs, sem hefur aldrei verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“ (Landvernd).

Ákvörðun um að hrinda virkjanakosti í framkvæmd styðst ekki einungis við rök um aukin atvinnutækifæri, tekjur, búsetuskilyrði og viðskipti. Ákvörðun um virkjanakost þarf fyrst og fremst að setja í samhengi við náttúruna, landslagsheildir, lífríki og vistkerfi sem varasamt er að raska. Hvað merkir þessi „kostur“ í stóra samhenginu?

Enn eru sterkar líkur eru á því að alvarleg óafturkræf slys verði gerð í gegndarlausri ásókn í óviðjafnanleg verðmæti sem íslensk náttúru geymir. Af þeim sökum þarf nauðsynlega að efla og rækta gildin í náttúrunni með mannfólkinu. „Efla tengsl fólks við landið, þekkingu og samvinnu landsmanna með auknum almannarétti,“ eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðaði það, „að varðveita fegurð fjölbreytileikans í náttúru landsins og vatnafari Íslands.“ (Vatnið í náttúru Íslands).

Gerum ávallt ráð fyrir harðri baráttu gegn ásókn í náttúruauðlindir.

 

SAMBANDIÐ EKKI AÐEINS VITRÆNT

Og sambandið við náttúruna er dýpra. Við glímum við rök og sjónarhorn til að skilgreina mörk og til að kanna möguleika en væntumþykja gagnvart landinu felur einnig í sér víðtækara samband, til dæmis þegar taugakerfið og hugurinn nemur fegurðina, þegar einstaklingur stendur agndofa og orðlaus gagnvart óvæntri hrikafegurð. Sambandið við náttúruna er því ekki einungis vitrænt, hagrænt, siðrænt, það er einnig af öðrum toga.

Siðfræði náttúrunnar snýst ekki einungis um rannsókn á boðum og bönnum, dyggðum og löstum og verðmætum heldur einnig fegurð og væntumþykju. Sambandið við náttúruna er oftast smækkað niður í eitthvað skiljanlegt en sambandið er alls ekki alltaf hversdagslegt heldur byggist það einnig á upphafningu andans. Við hrífumst og andinn lyftist upp og dýpri merking tilverunnar opinberast. Þessar stundir veita fólki kraft til að lifa af meiri ákafa og fyllast þakklæti. En þetta undur gerist sennilega æ sjaldnar því maðurinn hefur aldrei fyrr verið svo fjarlægur heimkynnum sínum, náttúrunni.

Verkefnið framundan er margþætt en meðal annars er brýnt að rækta væntumþykju gagnvart náttúrunni. Frekari pælingar um þessa væntumþykju verða á næsta heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. febrúar en þá mun Gunnar Hersveinn rithöfundur tengja saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru og Ásta Arnardóttir leiðsögukona og yogakennari segja frá gönguferðum þar sem fléttað er saman yoga og göngu um hálendisvíðernin ásamt fræðslu um yogavísindin og hvernig þau endurspegla dýpri lögmál náttúrunnar.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Tenglar

Náttúrukortið – Framtíðarlandið

Landvernd – hjarta landsins

Orkustofnun – frétt

Heimspekikaffi – gildin í lífinu og yoga í fjallasal

Meira um siðfræði náttúrunnar

Hamingja og sköpun á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visitGunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur fjalla um sköpunargáfuna og hamingjuna á heimspekikaffi í Gerðubergi 21. janúar. Það hefst með þessum orðum:

Forvitni hugans er áberandi einkenni mannverunnar. Hún er námsfús, forvitin um hvaðeina. Barnið grípur allt sem auga og hönd á festir, stingur upp í sig, smakkar, sýgur og svalar óseðjandi forvitni sinni um stund.

Forvitnin vex með árunum en stundum dofnar hún. Hlutir, hugtök, tilgátur og kenningar eru teknar í sundur, skoðaðar í smáatriðum og kannað hvort undrið stenst eða ekki. Hvað, hvernig, hver, hvar, hvenær og loks hvers vegna? Forvitinn hættir aldrei að spyrja, næsta spurning vaknar alltaf.

Forvitni þarfnast áræðni til að spyrja enn frekar, rannsaka, leggja í leiðangra, yfir höf og inn í ókönnuð lönd.

Líf án forvitni er dauflegt og endar í stöðnun. Það er án viðleitni til að gera eitthvað nýtt og óvænt. Sá sem glatar forvitni sinni algjörlega hættir að nenna út úr húsi. „Sá sem leitar aldrei frétta verður aldrei margs vitandi,“ segir málshátturinn.

Forvitni er eiginleiki sem hægt er að rækta og efla, forvitni er undanfari visku, óseðjandi þrá til að vita meira, sjá, heyra, finna, forvitnast um. Forvitinn leitar að svari þegar aðrir sætta sig við þau svör sem einhver annar hefur gefið þeim. Hann býst við meiru, öðru, dýpt, vídd.

Fordómar eru meðal óvina forvitninnar. Þeir bjóða upp á rangar ályktanir, þeir tefja för, villa um fyrir fólki og eyðileggja viskuleitina. Leiðangurinn verður hættuför, fyllt er upp í með tilgátum og fólk nemur staðar, hættir leitinni. Óttinn vill heldur ekki alltaf vita svarið.

Forvitni er forsenda gleði í lífinu. Forvitni er eins og fálmari þeirra sem vilja skilja eitthvað í tilverunni. Forvitni einkennir margar lífverur en sköpunargáfan er eitt af sérkennum mannverunnar. Forvitni er forsenda sköpunar, því hún dafnar og vex í huga hins forvitna. Sköpunin er leit að skilningi.

 

Sköpunargáfan

Sköpun er næsta lag á eftir forvitni, þrep, stig eða áfangi, þótt forvitnin sé ævinlega áfram með í för. Hún þarfnast einnig áræðni til að móta eitthvað annað en það sem blasir við og til að túlka á annan hátt en oftast er gert eða finna nýjar lausnir og opna dyr sem hafa verið lokaðar. Gildi sköpunar opinberast ef hún hefur haft áhrif á veruleikann.

Sköpunin er leit að skilningi.

Það er þráður á milli forvitni og sköpunargáfu og þeim fylgir gleði og þakklæti. Sá sem ræktar með sér forvitni barnsins og eflir með sér skapandi hugsun gleðst yfir verkum sínum. Verkin geta verið listaverk, nýjar lausnir, vísindaafrek, ný túlkun eða nýjar leiðir.

Sagt er að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju. Hún felst ekki aðeins í því að vera sátt og sáttur við lífið og aðra, heldur einnig að hætta aldrei að leita að svari við því sem ósvarað er. Dofin forvitni merkir minni sköpun og hamingja í lífinu.

Sköpunargáfan kemur við sögu í leitinni að hamingju, hún knýr fólk til að gera tilraunir, undrast, efast og endurraða í lífinu.

Gunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur ætla að rekja þráðinn, með hjálp gesta, milli sköpunar og hamingju á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 21. janúar kl. 20.00.  Gunnar mun einbeita sér að sköpunargáfunni og Hrefna að hamingjunni.

Allir velkomnir.

Tenglar

Viðburður á facebook

Kynning hjá Gerðubergi

 

 

 

 

 

 

 

JAFNSÆLT AÐ GEFA OG ÞIGGJA

12_vef_feb_heimspeki_visitAð kunna að gefa með gleði og þakka af heilum hug er meira virði en margur hyggur, það er jafnvel forsenda velgengni í lífinu. Gjöf og þakklæti ganga ekki kaupum eða sölum, þessar dyggðir eru djúpur lærdómur. Þótt ávallt sé fullyrt að sælla sé að gefa en þiggja þá er það ekki augljóslega rétt. Að mörgu leyti er jafnt á komið með þiggjanda og gefanda.

Gjöfin er ekki gjöf nema með ákveðnum skilyrðum. Hún er ekki gefin með ólund heldur gleði. Hún er aðeins gefin með góðum hug og gefandinn býst ekki við endurgreiðslu. Eins þarf þiggjandinn að gleðjast og taka við henni án beiskju.

Gjöf og þakklæti eru samstæður. Sú og sá sem lærir að gefa með gleði og sá sem lærir að þiggja með gleði lærir jafnframt uppbyggjandi afstöðu gagnvart samfélaginu. Hún losnar undan nístandi löngun til að taka af öðrum, safna upp einskis nýtum hlutum, losnar undan græðginni. Hún verður þakklát fyrir tækifærið til að geta gefið öðrum.

Siðaboðið „gefið öðrum“ er lögmál velgegni í lífinu. Sú sem gefur, öðlast eitthvað annað, hún veit ekki hvað, aðeins að það er eitthvað gott. Sá sem þiggur gerir það með þakklæti, hann vex og vonast til að geta gefið öðrum síðar. Þannig eru þessi hugtök samtvinnuð en þau verða til umræðu í heimspekikaffi í menningarmiðstöðinni í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 17. september kl. 20.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur fjallar þar um leyndardóma þakklætis og gjafar og Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur talar um hvernig þakklæti getur verið stysta leiðin frá reiði og vanlíðan og lykill að hamingju jafnt í amstri hversdagsins sem í erfiðleikum og sorg vegna missis.

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Allir eru velkomnir.

Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 17. september: Leyndardómar þakklætis og gjafar

 

 

 

 

Heimspekikaffi haustið 2014

12_vef_feb_heimspeki_visitHeimspekikaffið verður drukkið í Gerðubergi haustið 2014 eins og undanfarin ár. Það hefur verið sérlega vel sótt og gestir tekið fullan þátt í umræðum. Eftirfarandi efni verður til umræðu í haust:

17. september 2014: Þakklæti/Gjöf
Gunnar Hersveinn býður upp á umræðu um mikilvæg hugtök. Þakklætið og gjöfin geyma leyndardóma. Innlegg frá góðum gesti.

15. október: Mildi/Ofbeldi
Gunnar Hersveinn skapar umræðu um mikilvæg viðhorf og viðbrögð. Mildi og ofbeldi eru andstæður. Innlegg frá góðum gesti.

 19. nóvember: Einsemd/Vinsemd
Gunnar Hersveinn teflir saman mannlegum tilfinningum. Vinsemd og einsemd hafa áhrif á hamingjuna. Innileg frá góðum gesti.

„Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Margir hafa fengið gott veganesti eftir kvöldin eða a.m.k. eitthvað til að íhuga nánar og ræða heima eða á vinnustað sínum. Heimspekikvöldin hefjast klukkan 20.00 og eru allir velkomnir. Gunnar Hersveinn hefur frá upphafi haft umsjón með dagskránni og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefni sem eru ofarlega á baugi. Þetta kvöld fjallar hann um gildi hæglætis í hraðasamfélaginu og fær góðan gest til að finna óvænt sjónarhorn.“ www.gerduberg.is

GÓÐIR GESTIR Í GERÐUBERGI

Eftirfarandi þemu og gestir hafa verið undanfarin ár í heimspekikaffinu:

 

Heimspekikaffi – Hjálpsemi og vinátta

Gestur Sigga Víðis

Heimspekikaffi – Hamingja og nægjusemi

Gestur Anna Valdimarsdóttir

Heimspekikaffi. Röksemi – Karpsemi

Gestur Hafþór Sævarsson

Heimspekikaffi – Gott | Illt

Gestur Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Heimspekikaffi – Ást | Fæð

Gestur Aðalheiður Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Grín | Alvara

Gestur Helga Braga leikkona

Heimspekikaffi – Gæfuspor | Feilspor

Gestur Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Viska | Fáviska

Gestur Friðbjörg Ingimarsdóttir

Heimspekikaffi – Tími | Frelsi

Gestur Vilborg Davíðsdóttir

Heimspekikaffi – Stríð | Friður

Gestur Helga Þórólfsdóttir

Heimspekikaffi – Konur | Karlar

Gestur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

Heimspekikaffi – Líf | Dauði

Gestur Bjarni Randver Sigurvinsson

Heimspekikaffi – Hugsjónir breyta heiminum

Gestur Áshildur Linnet

Heimspekikaffi – Kærleikurinn og hrunið

Gestur Sigríður Guðmarsdóttir

Heimspekikaffi – Sjálfsþekking

Gestur Guðrún Margrét Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Hugrekki og sjálfsmynd

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Hæglæti í hraðasamfélagi

Ásgerður Einarsdóttir

Heimspekikaffi – Sjálfsvitund

Anna Valdimarsdóttir

 

Frásögn af heimspekikaffi, Reykjavík- vikublað, bls. 12

 

 

 

Heimspekikaffi um sjálfþekkingu

12_vef_feb_heimspeki_visitHver er ég? Hvernig getur maður þekkt sjálfan sig? Hver er besta leiðin til að kynnast sjálfum sér? Hvernig lýsir fólk hvert öðru og hvað merkir það? Hvað þarf að gera til að öðlast þekkingu sjálfan sig? Hvernig bregst ég við áreiti? Hopa ég á fæti eða stíg ég fram? Rétti ég fram hjálparhönd eða læt ég mig hverfa sporlaust?

Spurningarnar eru verðugt viðfangsefni en sennilega öðlast enginn þekkingu á sjálfum sér fyrr en á reynir, fyrr en í harðbakkan slær, fyrr en staðið er andspænis ógninni, auglitis til auglitis. Hugrekkið og kærleikurinn skilur líklega á milli feigs og ófeigs.

Ofangreindar spurningar eru efni í margar bækur, en til er önnur hlið á sjálfsþekkingu sem sjaldan er fjallað um. Þá hlið er ekki beinlínis hægt að lesa af svipbrigðum, dyggðum eða úr samræðumi. Hún felst í þeim afleiðingum sem hegðun og skoðanir hvers og eins skapa. Ekki endilega á hér og nú heldur annars staðar og síðar meir, jafnvel í framandi heimsálfum. Ábyrgð fylgir skoðunum og hegðun sem varða aðra .

Hver persóna hefur sjálfsmynd og vinir hennar móta sér myndir af henni í huga sér en á sama tíma lengist skuggamynd mótuð af atferli og viðhorfum. Sá skuggi verður einskonar tvífari sem fæstir koma auga á og  eigandinn vill ekki kannast við. Hver er tvífarinn og hvað er hann að gera?

Virðulegur maður í samfélaginu sem sífellt fær tækifæri til að lýsa skoðunum sínum og afrekum í fjölmiðlum hefur óhjákvæmilega áhrif á aðra. Hann gæti mælt með ýmsum hugmyndum sem hljóma ágætlega á yfirborðinu, hrifningaralda í þjóðfélaginu gæti haft áhrif á lög og reglugerðir. Hann gæti jafnvel sannfært aðra um að það borgaði sig að skulda sem mest. Aðeins þegar ráðleggingar hans eru greindar og rannsakaðar opinberast duldar afleiðingar þeirra.

Stéttaskipting gæti leynst í þeim og hvers konar ójöfnuður. Hann gæti dregið upp spennandi viðskiptaumhverfi hér á landi án þess að nefna að í þeim fælist kúgun launþega í Bangladesh, að vörurnar sem auglýstar yrðu hér á útsölu væru handunnar af lægst launuðu launþegum veraldar sem ynnu svo sannarlega myrkranna á milli.Hver er ábyrgð þeirra sem trúa honum? Hver er ábyrgð hans sjálfs? Hvað segir tvífarinn?

Páll postuli og heimspekingur gat greint tvífarann sinn og tókst að orða þetta ágætlega: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ Flestallir vilja þetta góða sem þeir tala mikið um og aðrir styðja þá í þeirri viðleitni. En svo gera margir eitthvað allt annað og afleiðingarnar til lengri tíma eru alls ekki góðar. Þar er tvífarinn á ferð.

Tvífarinn er hin hliðin. Sérhver maður er ekki aðeins sá sem hann vill vera, heldur einnig sá sem hann vill ekki vera. Sjálfsþekkingin er því tvíþætt: Sá sem þú vilt horfast í augu við og sá sem þú vilt ekki horfast í augu við.

 

HEIMSPEKIKAFFI UM TVÍFARANN

„Þekktu sjálfan þig“ er ein elsta ráðlegging heimspekinnar til þeirra sem vilja skilja heiminn. Sjálfsþekking er langtímanám og sá sem er um það bil að útskrifast uppgötvar að öflug skoðun og hegðun á einum stað getur haft óvæntar afleiðingar á öðrum fjarlægum stað.

Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, ætla með ýmsum dæmum að varpa ljósi á leitina að sjálfsþekkingu á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 20. nóvember kl. 20.00 en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum

Gunnar Hersveinn hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni um margra ár skeið og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er fyrrverandi formaður stjórnar UNIFEM, nú UNWOMEN. Hún mun m.a. glíma við þá mótsögn að berjast gegn misrétti og að viðhalda því á sama tíma.

Heimspekikaffi í Gerðubergi

www.lifsgildin.is

 

Kærleikurinn og hrunið

Copy of kaerleikurKærleikurinn verður í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20.. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Guðríðarkirkju og doktor í heimspekilegri guðfræði efna til lifandi umræðu um kærleika fyrir og eftir hrun og velta upp fjölmörgum hliðum hans með hjálp gesta sem einnig láta ljós sitt skína.

Þjóðgildin 5 árum eftir hrun

Heimspekikaffi í Gerðubergi