Greinasafn fyrir merki: heimspekikaffi

ÞJÓÐGILDIN 5 ÁRUM EFTIR HRUN

islandHvernig líður þjóðgildunum fimm árum eftir hrun? Hrunið opinberaði ekki aðeins spillingu, ofdramb og skeytingarleysi heldur einnig ófullnægða ósk og þrá sem bjó með þjóðinni. Áfallið sem fylgdi efnhagslegu hruni, falli bankanna og ríkisstjórnarinnar veitti innri rödd þjóðarinnar vægi. Þjóðfundirnir 2009 og 2010 löðuðu fram visku þjóðarinnar.

Tíðarandi græðgi, taumleysi, óbilandi bjartsýni og gildislausar hegðunar hafði ríkt um skeið. Skefjalaus heimskan fékk verðlaun, viðurkenningar og himinhá bankalán. Græðgin, agaleysið, framsæknin og hrokinn áttu greiðan aðgang að völdum, þjóðareignum og bankalánum en forsjálni, heiðarleiki, jöfnuður, umhyggja, ábyrgð og nægjusemi komu að luktum dyrum.

Þetta er ein af meginástæðunum fyrir hruninu og þarna liggur ábyrgð sem of fáir hafa gengist við. Viðhorfið, hegðunin og hugsunin sem fylgja óskum um ríkidæmi og draumsýn um að vera fremst þjóða er einfaldlega ávísun á hrun. Það er óneitanlega fífldirfska að beisla ekki kraftinn, reikna ekki út afleiðingar hegðunar og stemma ekki stigu við hömlulausri bjartsýni. Það er því engin ástæða til að draga úr ábyrgð þeirra sem réðu hvert hin svokallað þjóðarskúta sigldi.

ÁFÖLL SKÝRA MYNDIR

Við áföll kemur í ljós hvað hefur gildi í lífinu og samfélaginu. Sá sem lendir í lífsháska, uppgötvar oftast hvað hefur gildi og hvað ekki. Það sama átti sér stað með þjóðinni og hún sá skýrt hvernig samfélag hún óskaði sér og hrópaði á að gildin gagnsæi, ábyrgð, heiðarleiki, réttlæti, sjálfbærni og lýðræði yrðu efld og ræktuð.

Þjóðfundirnir voru framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf þjóðar til sjálfs sín og ný stjórnarskrá átti að vera veganesti fyrir nýja ráðamenn og þjóð með framtíðarsýn. Flest atkvæði á þjóðfundinum 2009 fengu gildin heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldan, jöfnuður og traust. Einnig voru menntun, bjartsýni, öryggi og mannréttindi ofarlega á baugi. Ástæðan var að sum þeirra höfðu verið alvarlega vanrækt meðal annars heiðarleikinn.

Þjóðgildin voru efld á marga lund á næstu árum, það kostaði baráttu, óhlýðni, byltingar og breytingar auk þess að takast á við andspyrnu græðginnar. Embætti sérstakts saksóknara er til dæmis tilraun til að leita réttlætis og ný náttúruverndarlög og rammaáætlun tilraun til að auka virðingu og efla sjálfbærni svo dæmi séu nefnd.

Samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika, réttlæti og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt lendir ekki í hruni, það tekur ekki áhættu sem er út fyrir öll endimörk alheimsins. Það hefur taumhald á græðginni, hrokanum og setur bjartsýninni mörk. Þjóð sem leggur sig ekki fram um að bæta hag annarra og heldur aðeins eigin hag fyllist hroka sem hrynur yfir hana að lokum.

KÆRLEIKURINN OG HRUNIÐ

thjodgildin_bokskuggiKærleikur var eitt þeirra gilda sem innri rödd þjóðarinnar nefndi eftir hrun en segja má að skeytingarleysi hafi verið ríkjandi í tíðarandanum fyrir hrun og sú færni að hremma bráðina á undan öðrum hafi oftast verið lofuð: að grípa tækifærin á undan varfærnum þjóðum og að kaupa á meðan önnur fyrirtæki eru að kanna hvort það sé góður kostur.

Kærleikurinn til annarra verður að teljast æðsta stig mannlegrar viðleitni: að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljug til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju af eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur. Gildið merkir elsku milli ólíkra hópa, ekki að taka heldur að gefa.

Sjálfselsk þjóð er á byrjunarreit. Engin þjóð er fullgild fyrr en hún finnur sér vettvang til að bæta heiminn. Hún þarf aðeins að velja hann og sinna honum af alúð í áratugi. Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (2010) til að skilja innri rödd þjóðarinnar og greindi þá dulda óbeit hennar á því að hrifsa og hremma og vera fremst þjóða – og kom auga á löngun hennar til að vera bara þjóð meðal þjóða og að geta gefið öðrum eitthvað: „ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin bls. 164). Getur það verið leiðarljós?

Þetta er sá kærleikur sem þjóðin vildi stefna að eftir hrun, hún nefndi hann skýrt og ritaði. En hvernig gengur? Kærleikurinn og hrunið verða í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20 þar sem Gunnar Hersveinn og Sigríður Guðmarsdóttir rýna í hugtakið og tengja það við samtímann. Næsta grein fjallar um það.

Tenglar:

Heimspekikaffi um kærleikann og hrunið

Bókin Þjóðgildin

 

Deila

Barátta góðs og ills í Gerðubergi

Eldur illskunnar hefur logað alla mannkynssöguna. Áður var eldurinn talinn kveiktur af ókunnum öflum með það markmið að draga mannkynið frá hinu góða og fagra. Eftir óbærilegar þjáningar uppgötvaði maðurinn sér til skelfingar að eldurinn brann innra með honum sjálfum.
Hvað er illska?
Svarið er margslungið. Er hún skortur á hinu góða? Eru illskuverk framin vegna skorts á þekkingu og visku? Eða er illska ætlunarverk sem ekki verður framkvæmt nema með því að valda öðrum þjáningu? Gerandinn veit hvaða afleiðingar gjörðir hans geta haft en honum er annað hvort sama um velferð annarra eða vill skaða þá?
Illskan er margræð, ef hún er skortur, þá er hún ekki aðeins skortur, heldur einnig eitthvað annað. Ef hún er markviss framkvæmdaáætlun, þá er hún heldur ekki aðeins það. En hvað sem hún er þá er verkefnið að slökkva hana.
En jafnvel þótt hún verði ekki slökkt, þá er markmiðið að draga úr öllum áhrifaþáttum sem blása lífi í eldinn.
Aðferðin felst í því að gera ekkert sem glæðir eldinn. Hótanir, ögranir, ógn og óvirðing eru loftið í fýsibelgnum sem notaður er til að örva eldinn í bálinu. Bandaríkin og Íran blása nú andfúl hvert á annað með hótunum sem enda sennilega í stríðsátökum. Það er dæmi um heimsku og skort á virðingu gagnvart samtíðinni og komandi kynslóðum.
INNRI VARNIR GEGN ILLSKU
Hvernig byggjum við upp innri varnir gegn illskunni? Hvað er gott og hvað illt? Enginn má leiða þessa spurningu hjá sér því við þurfum ævinlega að bregðast við illsku og ofbeldi. Hið góða og illa verður til umfjöllunar í heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 18. janúar 2011.
Heimspekikaffið var nýjung sem sló í gegn í dagskrá Gerðubergs síðastliðið haust. Fullt var út úr dyrum á kaffihúsinu þar sem lifandi umræður urðu um vináttu, hjálpsemi, hamingju, nægjusemi, röksemi og karpsemi.
Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, leiðir umræðuna. Hann leggur fram tilgátu um aðferð sem glæðir ekki eldinn á báli illskunnar.  Gestur kvöldsins verður Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur og fréttamaður.  Hún hefur lagt sitt af mörkum til að kveða illskuna niður og hefur skrifað bókina Ofbeldi á Íslandi: Á mannamáli.
Og ekki aðeins þau tvö munu taka þátt þátt í baráttu góðs og ills heldur munu allir gestir í heimspekikaffinu taka þátt og leggja sitt málanna.
Staður: Menningarmiðstöðin Gerðuberg í Breiðholti.
Dagur: 18. janúar 2012
Tími: klukkan 20.00
Fyrir hverja: Allir velkomnir!
Tenglar:
www.odlingurinn.is

Hamingja og hófsemd spjalla yfir kaffibolla í Gerðubergi

Er nægjusemin lykill að hamingjunni? er ein af þeim spurningum sem munu svífa yfir bollum í heimspekikaffi með Gunnari Hersveini í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi miðvikudaginn 19. október, kl. 20. Allir eru velkomnir.

HAMINGJA – NÆGJUSEMI
 
Húsfyllir var á fyrsta heimspekikaffinu í Gerðubergi  í september þegar Gunnar Hersveinn stjórnaði lifandi umræðum um náin tengsl hjálpsemi og vináttu. Í næsta heimspekikaffi verður glímt við samband nægjusemi og hamingju ásamt mörgum öðrum skemmtilegum og mikilvægum spurningum. Gestur kvöldsins verður Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur og rithöfundur sem hefur skrifað og flutt erindi um hamingjuna, hún hefur m.a. fjallað um samband hamingjunnar við ást og einmanaleika . (Fréttatilkynning: Menningarmiðstöðin Gerðuberg).

Hamingjan er eitthvað sem allir sækjast leynt eða ljóst eftir. Hún er víðtækt hugtak og krefst mikils, m.a. fjölbreytileika, tíma, tækifæra og jafnvel heppni og langlundargeðs en nægjusemin er nokkuð einföld dyggð sem kallar á sjálfsaga til að neita sér um safaríka hluti. Árangur hófsemdarinnar opinberast yfirleitt ekki fyrr en seint og um síðir (seint koma sumir…) .

Hamingjan er vinsæl en hófsemdin sést aftur á móti ekki á mörgum vinsældarlistum … eða hver velur hana sér við hlið þegar til dæmis hugrekki stendur til boða með glæstum sigrum og lofi? (Margir segja að fylginautar hófsemdarinnar séu leiðindi og tóm leti). Ætli hófsemdin gæti fyllt hús gesta?

Málið verður rætt í Gerðubergi 19. október klukkan 20. Allir velkomnir! Ókeypis aðgangur.

Gunnar Hersveinn hefur skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor, Orðspor og ÞjóðgildinAnna Valdimarsdóttir hefur haldið fjölda námskeiða í sjálfsstyrkingu og m.a. skrifað metsölubókina Leggðu rækt við sjálfa þig

í HNOTSKURN:
Nafn: Hamingja – Nægjusemi / Heimspekikaffi.
Staður: Gerðuberg – menningarmiðstöð, Gerðubergi 3-5.
Tími: Miðvikudaginn 19. október 2011, klukkan 20.00.
Umsjón: Gunnar  Hersveinn (lifsgildin@gmail.com).
Gestur: Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur.
Fyrir hverja: Allir velkomnir.
Fyrirkomulag: Innlegg frá höfundum, umræðuverkefni, samtal milli aðila, samantekt.
Tenglar:
Grein eftir Önnu Valdimarsdóttur
Brot úr textum eftir Gunnar Hersvein