Greinasafn fyrir merki: hersveinn

Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni

GHFI23

Ný bók eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur um öfluga borgararvitund er komin út.

Bókin Hugskot er handbók fyrir alla sem vilja taka þátt í baráttunni fyrir betra samfélagi. Umfjöllunarefninu er best lýst með hugtakinu gagnrýninn borgari sem felst í því að kunna skil á mannréttindum, vera læs á samtímann og þora að mótmæla.

Markmiðið er að efla kunnáttu og færni lesenda í að skyggnast inn í eigið hugskot, beita gagnrýnni hugsun ásamt því að greina ímyndir, fordóma, texta og skilaboð í samfélaginu.

hugskot9

Höfundar Hugskots hafa áralanga reynslu af starfi sem tengist efni bókarinnar, meðal annars sem kennarar og ráðgjafar. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra er með MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun og er sjálfstætt starfandi fræðikona í ReykjavíkurAkademíunni. Gunnar Hersveinn rithöfundur er menntaður í heimspeki og blaðamennsku og höfundur nokkurra bóka, þar á meðal metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu.

Hugskot er bók um gagnrýna hugsun, flokkanir, staðalímyndir, fordóma, jafnrétti, friðarmenningu og borgaravitund gefin út af IÐNÚ. Teikningar: Sirrý Margrét Lárusdóttir. Umbrot og hönnun: Bjarki Pétursson.

Tenglar

Facebooksíða

Iðnú – kaupa bók

Gagnrýnir borgarar mótmæla

Deila

Það er ómaksins vert

Það er í sjálfum sér nóg að berjast gegn kúgun, ofbeldi, misrétti og öllu sem vinnur gegn lífi og hamingju. Það er verðugt verkefni og þau sem taka það að sér standa í varnarbaráttu.

Þau standa í markinu til að verja það skotum, þau standa í dyrunum til að verja óvilhöllum inngöngu. Það er sama hvað líkingu við notum, þau standa á varnarlínunni, fyrir innan hana er varnarlaust fólk, saklaust og sært.

Tökum okkur stöðu í markinu, tökum okkur stöðu á miðjunni, tökum okkur stöðu en snúum fram, tökum okkur stöðu og sækjum fram. Hver sókn dregur úr mætti heimskunnar og illskunnar, þær hörfa og hopa á fæti.

Sýnum enga linkind, veitum ekki afslátt, horfum ekki framhjá, í gegnum fingur eða með blinda blettinum. Horfumst í augu við ókindina!

Sá sem vill batna hefur stígið skrefið, það gæti verið kærleikur, það gæti verið ábyrgð, það gæti verið jafnrétti og sjálfbærni, það gæti verið frelsi. Það er sama hvað það er.

En lífið er ekki bara leikur, eins og margoft hefur verið endurtekið áður, við stöndum ekki aðeins vörð á velli andstæðings, heldur stendur til að endurnýja völlinn …

það er ómaksins vert

Hvernig yrði heimurinn án kærleika? Hvernig yrði um að litast? Án frelsis í heimi þar sem enginn bæri ábyrgð? Traust væri óþekkt og enginn gerði ráð fyrir orðheldni eða vináttu?

Heimur þar sem virðingin fyrir lífi og náttúru væri þurrkuð út? Við könnumst við heim án lýðræðis og samfélög án jafnaðar og jafnréttis. En hvernig yrði heimur án heiðarleika og helgi fjölskyldunnar? Heimur án umönnunar og uppeldis?

Heimur án hófsemdar er heimur glundroða. Heimur án gilda er vissulega mögulegur, hann verður til þegar kærleikurinn slokknar í hjartanu.

Verkefni okkar er að glæða gildin lífi. Það er ekki nóg að hugsa um þau og nefna á nafn, heldur þurfa þau að birtast í daglegri breytni …

það er ómaksins vert

Aldrei má nema staðar. Allt þráir að vera fullbúið og fullgert en reynslan kennir að allt fram streymir, allt er til bráðabirgða. Svarið fæst hvorki staðfest eða sannað – en getur þó verið líklegt eða ólíklegt.

Tilgáta heldur áfram að vera tilgáta og viðleitni mannanna snýst um að sanna hana eða afsanna, bæði með rökræðu og reynslu. Alltaf án ofbeldis og iðulega með hug á gjöfinni.

Tilgátan er: ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.

Ef það virðir mörkin og leyfir ekki ofbeldi og kúgun – getur það orðið öðrum góð og traust fyrirmynd. Gjöf gefin af góðsemi hefur gæfu að geyma.

Tilraunin stendur yfir …

hún er ómaksins verð.

Nægjusemi – nauðsynlegt skilyrði sjálfbærni

Hugtakið sjálfbærni er um þessar mundir eitt af þjóðgildum Íslendinga. Það er títtnefnt á fundum og er líklegt til að koma við sögu í næstu stjórnarskrá. Sjálfbærni gefur til kynna að rétt sé staðið að málum og af þeim sökum vilja ýmsir (mis)nota hugtakið, jafnt íhaldsmenn sem framfarasinnar. Svo rammt kveður á um misnotkun orðsins að það jafnast á við notkun á hugtakinu framför: sá sem ekki er með stórgerðum framkvæmdum er á móti framförum.

Hugtakið nægjusemi er hins vegar ekki eitt af þjóðgildunum og er sjaldan nefnt sem eftirsóknarverð íslensk dyggð. Fremur er hvatt til óbilandi bjartsýni og að takast á við lífið af (náttúrulegum) krafti, þrautseigju og dirfsku. Það teljst fremur óþjóðlegt að hugsa sig um, neita sér um og að velja eitthvað af kostgæfni. Hér verður leitast við að skýra hvers vegna nægjusemi er nauðsynlegt skilyrði sjálfbærrar þróunar.

I. Sjálfbær þróun
Breytingar eru ekki til hagsældar nema menn temji sér nægjusemi gagnvart umhverfinu. Markmið sjálfbærrar þróunar er hagsæld og jafnvægi milli mannlífs og umhverfis. Náttúran býður upp á gæði en auðlindir hennar eru sjaldnast óþrjótandi.

Lífið nemur ekki staðar, lífverur hafa áhrif til breytingar. Sjálfbær þróun er aðferð sem hefur það að markmiði að næstu kynslóðir eigi óskerta möguleika til að þroskast og dafna við svipuð skilyrði og fyrri kynslóðir.

Engin kynslóð getur skilað umhverfinu af sér eins og hún tók við því, líf merkir breytingar. Nægjusemi snýst ekki um að varðveita gamlagróna lífshætti og fátækt. Hún merkir ekki afturhvarf til fortíðar heldur kveður hún á um heillavænlega framtíð. Hún er aðferð til að nálgast gæði á sjálfbæran hátt. Hún stillir hug, lægir vitund og róar hjartað til að ná árangri. 

Viðhorfið snýst um mannlega viðleitni sem nýtir auðlindir á hófsaman hátt til að fullnægja þörfum samtímans og án þess að það bitni á næstu kynslóð. Markmiðið sjálfbærni er að möguleikar til búsetu og lífs séu ekki verri en áður, heldur betri ef eitthvað er.

Eyðilegging á svæði sem án sér engar eða fáar hliðstæður í veröldinni er ekki einkamál landeiganda, sveitafélags eða þjóðar heldur verknaður gagnvart öllum þjóðum. Ef, til að mynda, lífríki (Þingvalla)vatns er án hliðstæðu í heiminum ber okkur skylda til að beita allri okkar þekkingu og verkviti til að svo verði áfram og koma í veg fyrir verk heimskunnar.

II. Nægjusemi
Nægjusemi er lærð dyggð. Sjálfbærni er lærð aðferð. Nægjusemi er nauðsynlegt skilyrði sjálfbærrar þróunar. Sá sem vill efla sjálfbærni með þjóðinni, hefur mál sitt á því að kynna nægjusemi til sögunnar því hún er svarið við aga- og taumleysi sem skamm- og þröngsýni býður oft upp á. Nægjusemi er samvinnudyggð.

Nægjusemi er agi. Hún felst í því að virkja óbeislaðar langanir, hvatir og athafnasemi þar sem hugsunarleysi ræður för og ekki er spurt um afleiðingar. Sjálfbærni er af sama toga, hún er þróuð aðferð til að hemja gegndarlausa græðgi sem veldur eyðileggingu og dauða.

Ekki vantar auðlindirnar á Íslandi eða orkuna – aðeins siðvitið, þolinmæðina og hófstillinguna. Nægjusemi er dyggðin sem breytir fólki til betri vegar í umhverfismálum. Hún merkir ekki stöðnun eða afturför, heldur þvert á móti hagsæld.

Nægjusemi felst í því að velja úr öllu því sem stendur til boða og þeim löngunum sem menn vilja fullnægja. Hún hefst handa á því að fækka valkostum og sinnir síðan þeim vel sem valdir eru. Græðgin er andhverfan, hún er þess ekki umkomin að velja úr, hemur ekki langanir sínar og glatar loks öllu.

Samfélag verður ekki sjálfbært og framkoman við vistkerfið ekki heilbrigð og þróunin ekki vænleg fyrr en viðleitni mannanna verður hófstillt og tillitssöm og virðing  borin fyrir náttúrunni: lífríkinu og landslaginu. Þjóð sem getur tamið sig í góðæri og staðist freistingar er lofsverð og þjóð sem stenst freistingar um að selja undan sér á krepputímum vinnur afrek.

Einkenni þeirra sem vilja fara aðrar leiðir er að segja að ákvarðanir þurfi að taka skjótt, engan tíma megi missa því annars glatist ómetanlegt tækifæri. Nauðsynlegt sé að selja verðmæti Íslands umsvifalaust annars tapist milljarðar, því enginn vilji kaupa á morgun og fátækt blasi við. Áróðurinn styður sig við óttann og teflir honum stíft fram. Hrætt samfélag gæti því selt landið án þess að taka eftir því.

III. Nauðsynlegt skilyrði
Hugtakið sjálfbærni er oftlega misnotað af þeim sem engan áhuga eða skilning hafa á sjálfbæru samfélagi. Oft er það þannig að „andstæðingurinn“ tileinkar sér hugtökin til að eyðileggja þau. Fullyrt hefur verið til að mynda, að landshluti verði sjálfbær þegar fallvötn og jökulár hafa verið virkjuð og álver risið. Þá verði næg atvinna og fólk geti haldið áfram að búa á svæðinu. Það verði engum háð og því sjálfbært. Þarna er hugtakið einungis tengt við atvinnuskilyrði manna en ekki náttúru, lífríki eða mannlíf og efnahag í víðtækum skilningi. Þetta er ótæk notkun á hugtakinu.

Hvert svæði þarf að ræða út frá ýmsum rökum og gæðum, til að mynda búsetu, fegurð, siðfræði, hagfræði, lífræði, tilfinningum og ýmsum vísindum. Meta má svæði út frá undrun ferðamanna eða þeirri rósemd sem svæðið skapar og áhrif þess á heilsu. Nýting og sala á svæðinu gegn greiðslum er aðeins ein aðferð sem oft hefur í för með sér óafturkræf áhrif og tekur ekki mið af næstu kynslóðum. Hún er því ekki sjálfbær.

Sjálfbærni er aðferð þar sem að engu er óðslega farið. Hún er ekki óútreiknanleg, djörf, agalaus eða harkaleg, heldur mild, hæg og vinaleg í samskiptum við aðrar þjóðir, lífverur og umhverfið. Staðir, þar sem aðferðinni er beitt, leggjast ekki í auðn, heldur þróast þeir með íbúum sínum í sátt við vistkerfið. Sjálfbærni krefst samvinnu milli þeirra sem hlut eiga að máli, hún spyr um hlutskipti mannsins út frá fortíð og framtíð en ekki aðeins nútíð.

Sérkenni nægjusemi og sjálfbærni eru agi, varkárni og val byggt á ígrundun og gögnum. Einkenni þeirra er yfirsýn, þverfagleg nálgun, fjöldi sjónarhorna og samráð við hagsmunaaðila. Kostir nægjusemi og sjálfbærni er að í þeim felst taumhald og mildi. Þau draga úr hraða og líkum á mistökum og heimsku.

Nægjusemi og sjálfbærni eru skjaldbakan sem kemst þótt hægt fari. Sá sem kann sér ekki hóf er horfinn af sjónarsviðinu þegar hinn hófsami telur sig reiðubúinn til að stíga fram og láta að sér kveða. Annar er uppbrunninn, útrunninn, gufaður upp, sprunginn blaðra. Hann var illa undirbúinn og gráðugur. Hinn kemur í mark,  þó ekki undir lófaklappi, því hann ætlaði engan að sigra.

www.thjodgildin.is

Nýárssöngur þjóðarinnar!

Ljósmynd/Gunnar HersveinnÞað vantar nýársávarp frá þjóðinni! Hver getur flutt það? Enginn – en hver og einn getur samið sitt eigið ávarp eða sungið. Mitt nýársávarp er svona: „Ég ætla aldrei aftur að gera samning við Magma Energy Sweden AB!“ (ekki í mínu nafni).  
Eða með öðrum orðum: Náttúruauðlindir Íslands í eigu og lögsögu almennings !*

Hið svokallaða Magma-mál snerist og snýst enn um grundvallarákvörðun sem Íslendingar geta tekið um sjálfræði þjóðarinnar og almannahag til frambúðar. Andi íslenskra laga mælir alfarið gegn gjörningum á borð við sölu á HS Orku hf og framsali á nýtingarétti. Ekki efast, þetta er enn ein blekkingin og gríninu er beint að þjóðinni. Markmið og tilgangur íslenskra lagas kveður nefnilega á um full yfirráð yfir landi og verðmætum auðlindum. Hlustum ekki á annað.

Íslensk lög voru gróflega sniðgengin með þessum Magma samningi og almenningi var gefið langt nef. Allir vita að Magma Energy Sweden AB er tóm skúffa í Stokkhólmi og að eigendurnir eru kanadískir. Þetta var trix. Hvers vegna trúum áfram þótt blekkingin hafi verið afhjúpuð?

Greinilegt var að íslensk stjórnvöld brugðust þjóð sinni með því að vera bæði svifasein og óvarkár gagnvart þessum gjörningi. Hagsmunir almennings urðu undir og af þeim sökum átti skilyrðislaust að fara með málið fyrir dómstóla eða afturkalla ákvörðunina um söluna eða setja lög um eignarnám eða finna betra ráð. Ef þetta verður látið viðgangast er gatan greið fyrir óvelkomna.

Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður hefur sýnt fram á að hefðbundnir fjölmiðlar  kokgleyptu fréttatilkynningar um að kaup Magma Energy á eignarhlutum HS Orku hf. hafi verið í lagi og að „frá lagalegum sjónarhóli sé ekki tilefni til að gera athugasemdir við samningana sem slíka.“ Frá öllum öðrum sjónarhólum voru kaupin vafasöm en fjölmiðlar höfðu ekki tíma til að kanna það þrátt fyrir að segjast vera fulltrúar almennings í landinu. Hvers vegna eiga óljós, loðin, gloppótt, mótsagnarkennd lög að ráða fremur en ljós rökhugsun og staðfast siðvit?

MAGNAÐUR SÖNGUR
Í dag (6. janúar 2011) hefst maraþonkaraókí þar sem sunginn verður óður til náttúru- og orkuauðlinda landsins. Skráning fer fram í Norræna húsinu, 6.-8.janúar, frá kl:15.00 til kl:24.00.  Á þréttándanum lætur þjóðin rödd sína heyrast.  Hún mun syngja orkuauðlindir sínar til okkar aftur! Allir eru hvattir til að taka þátt og syngja uppáhaldslagið sitt í stærsta karaókíi Íslandssögunnar.

Nú þegar hafa safnast rúmar 20.000 undirskriftir á áskorun á orkuaudlindir.is um að stjórnvöld taki mark á ósk þjóðarinnar um orkuauðlindirnar. Maraþonsöngurinn heldur áfram þar til 15 % er náð; Þegar 35.000 Íslendingar hafa skrifað undir !

Óskin er einföld og er nýárssöngurinn 2011: Náttúruauðlindir Íslands í eigu og lögsögu almennings ! *

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

* Ljósmynd/ Kirkjufoss í Jökulsá í Fljótsdal/Gunnar Hersveinn
*  Slagorð frá hópnum sem stendur fyrir maraþon-karókí í Norræna húsinu.
Tengill:
http://www.nordice.is/norraena-husid/frettir/nr/784

www.orkuaudlindir.is

Friðarjól? Um stríð og frið

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Ógnvænlegar fréttir berast nú fyrir jólin 2010 um mögulegar hryðjuverkaárásir í Evrópu. Tökum þær alvarlega. Í þessari grein verður stiklað á stóru um möguleikana á friði umfram stríð og ofbeldi.

I. STRÍÐSHERRAR

Karlarnir sitja enn með flekaðar hendur bakvið fáguð skrifborðin. Þeir hafa aldrei gert neitt nema það að valda eyðileggingu og dauða. Huglausir senda ungt fólk á blóðvelli eða láta fjarstýrð stríðstól eyða þorpum og borgum án þess að neinn stígi inn fyrir hliðin – allra síst þeir sjálfir.

Við þekkjum þá öll. Bob Dylan samdi lagið Masters Of War þeim til háðungar árið 1963. Þúsund sinnum hafa þeir verið afhjúpaðir, nú síðast í uppljóstrunum WikiLeaks.org.

Svokölluð stórveldi búa yfir svo miklum og öflugum vopnum að þau hafa ekki einu sinni sýn yfir. Þau telja borgurum sínum sífellt trú um að þetta sé nauðsynlegt, að skatturinn verði að fara í vopnaframleiðslu undir yfirskini heimavarna. Hvílíkt bull. Það mætti aðeins treysta þeim til að eyða mörg hundruð plánetum og eiga síðan tölvuverðan vopnaforða eftir.

WikiLeaks skjölin opinbera hrokafulla menn sem þjást af minnimáttarkennd eins og flestallir stríðsherrar mannkynssögunnar. Þeir girnast land, vald, fé og frama i sögubókum. Þrá að vera skrásettir sem mikilmenni. Hvernig tekst þeim þetta?

Þeir áforma og eru hvattir af öðrum körlum í öðrum löndum til að skríða til skarar eins og WikiLeaks sýnir dæmi um. Treystum aldrei þessum körlum, felum þeim aldrei veg okkar. Höfnum þeim umsvifalaust. Treystum ekki Bush, ekki Blair, ekki Cameron, ekki Obama, ekki Rassmussen eða Reinfeld, ekki Hu Jintao, ekki Berluscon, Sarkozy eða hvað sem þeir heita. Stríð er aldrei svarið, ekki kúgun, ofbeldi, nauðgun, dauði. Allir vita svarið en flestir láta telja sér trú um annað. Þar liggja mistökin.

Mér er sagt að ég sé með óra en ég er ekki einn um það. Meginmálið er að taka afstöðu og standa við hana: að friðvæða jörðina. Hunsum stríðsherranna, mætum ekki á vígvöllinn! Hættum að kjósa þá. Veljum alltaf frið fram yfir stríð. Auðvitað lendum við linnulaust í flóknum siðaklemmum og eigum eftir að kveljast yfir valkostum, en það er til mælikvarði.

Viðmiðið er uppbygging lífs andspænis eyðileggingu og dauða. Allt lendir á þessum skala lífs og dauða og við þurfum iðulega að standa lífsmegin andspænis dauðanum.

Menntum okkur til að greina milli góðs og ills og til að þekkja muninn á réttu og röngu, stríði og frið. Lærum að láta ekki kúgun annarra viðgangast. Hættum að láta telja okkur trú um eitthvað annað. Hugsum fremur: það eru þau í dag en við á morgun. Bara að við gætum lært að miðla og gefa. Við verðum að gefa öðrum til að koma í veg fyrir eigin þjáningu!

WikiLeaks upplýsingaflóðið er staðfesting á að heimskan ræður enn för. Lesum, hlustum, tölum saman, hlustum á Masters Of War með Dylan. Skilaboðin eiga enn við.

II. FRIÐARJÓL 2010
Jólin eru hátíð árs og friðar en friðurinn er sjaldan á forsíðum. Hann er ekki athyglissjúkur, það eru stríðin. Heitum okkur að vinna að friði heima og að heiman. Hvað getum við gefum þjóðum?

Við ættum að geta miðlað friðarmenningu til annarra þjóða –  en getum við það? Höfum við ræktað hana? Þetta er ónumið land, við höfum ekki sinnt þessu borðleggjandi verkefni.

Lærum af nokkrum af friðarverðlaunahöfum Nóbels: Aung San Suu Kyi í Mjanmar – og Liu Xiaobo í Kína sem hlaut viðurkenninguna 2010 fyrir langa og friðsamlega baráttu sína fyrir grundvallar mannréttindum í Kína. Við eigum góðar fyrirmyndir til að hlusta á og læra af.

Hættum að hlusta á stríðherrana og leggjum hlustir þegar friðurinn kveður sér hljóðs. Það er aldrei með látum og lúðrablæstri heldur með rósemd hjartans. Það verður að lokum Liu Xiaobo sem hlýtur virðinguna en ekki núverandi stjórnvöld í Kína.

III. Hryðjuverk
Formlegir leiðtogar þjóða sem hafa skrifað undir mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóð komast ekki undan skrifræðinu góðaþ Þeir sem draga þjóðir sínar í stríð verða fyrr eða síðar afhjúpaðir – til dæmis á WikiLeaks eða einhverjum öðrum öflugum fjölmiðli sem starfar fyrir almenning. Annar vandi eru hryðjuverkasamtök.

Verstu fréttirnar sem birtast núna fyrir jólin eru að hryðjuverkasamtök hafi í hyggju að valda usla í Evrópu um hátíðirnar. Aðgerðir hryðjuverkasamtaka eru byr undir báða vængi fyrir vopnaframleiðslu og þróun hernaðartækni stórveldanna svokölluðu. Nýja hertæknin verður fyrr eða síðar á höndum hryðjuverkamanna, það vita allir. Þetta er því skeflilegur vítahringur sem bitnar allra helst á almennum friðsömum borgurum, sérstaklega á börnum framtíðar sem gætu fyllst hefndarhug ef ekkert er að gert.

Þetta er ein af siðaklemmunum sem við lendum í. Hvernig getum við leyst úr henni?

IV. FRIÐARMENNING
Friðarmenningin hefur ekki enn skotið djúpum rótum því við upphaf 21. aldarinnar hófst styrjöld gegn hryðjuverkum, styrjöld með óljós endimörk og dulin markmið. Ógnin er alls staðar og ekki bundin við lönd eða þjóðir. Þetta stríð er afsprengi hinnar óheillavænlegu aðferðar að gjalda illt með illu.

Andstætt þessum hugsunarhætti þarf að leggja rækt við sprota friðarmenningar því hefðbundin viðbrögð við stríði hafa beðið skipsbrot. Skapa mætti vænlegra líf á jörðinni fyrir fleiri en nú er og til lengri tíma með því að beita aðferðum friðar. Þetta vita flestir. Knýjandi þörf er á því að þróa friðartækni og að ungt fólk læri friðarlist. Menntun er friðarskref en því þarf að fylgja heillavænleg viðhorf og vilji annarra í samfélaginu.

Friðarmenning er mannlegur þroski þar sem umburðarlyndi og gagnkvæm virðing koma helst við sögu. Stundum gefast tækifæri til friðarmenningar en þau eru oftast látin sér úr greipum sleppa.

Elisabeth Rehn, fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands, skrifaði merka skýrslu, Konur, stríð, friður, fyrir UNIFEM ásamt Ellen Johnson Sirleaf frá Líberíu. Þær ferðuðust um 14 átakasvæði og sáu ofstæki, þjáningu og sorg í flestum myndum. Þær hlustuðu á sögur á ýmsum tungumálum, sögur um mismunandi missi eftir svæðum og einstaklingum. Aðeins hryllingurinn og sársaukinn var sameiginlegur. Hlustum á þær og lærum! Niðurstaða Rehn og Sirleaf var að konur væru helstu fórnarlömbin í stríðum. Þessar konur vilja aftur á móti ekki láta ýta sér til hliðar þegar móta á friðarferlið í löndum þeirra. Þær vilja nota þjáninguna, ekki til að hefna sín heldur til að vinna bug á afleiðingum ófriðarins.

Konur eru í meirihluta þeirra almennu borgara sem lenda á flótta, missa heimili sín og bera ábyrgð á börnum og gamalmennum á átakatímum, og þær verða fyrir annars konar hremmingum en karlar, til dæmis skipulögðu kynferðisofbeldi.

Menntun er góð en hún er ekki nóg. Þrír lykilþættir verða að vinna saman til að menntunin nýtist: viðhorf og vilji fjölskyldu, samfélags og ríkis til að tækifæri barnanna til að sjá sér farborða í framtíðinni verði að veruleika. Börn fara oft á mis við formlega menntun í langvarandi stríðsátökum og sjá hana síðan í hillingum og trúa því að hún færi þeim betra líf. Miklu skiptir því að raunverulegir valkostir standi þessum börnum til boða að námi loknu, þau verði sjálfstæð og geti tekið þátt í að móta friðsamt samfélag.

Friðurinn lætur lítið yfir sér en krefst mikils. Hann krefst borgara sem veita aðhald og fjölmiðla sem eru ekki leiðitamir. Hann þarfnast hugsjóna, sýnar hugans um betri heim. Hugsjónin um frið er hugsjón um sátt og útkljáðar deilur. Sáttmáli hlýtur ævinlega að vera æðsta takmark þjóða og einstaklinga og felur í sér ákvörðun um að lifa í sátt og samlyndi. Hann er ánægjulegt friðarband sem enginn skyldi slíta nema við óbærilegar aðstæður.

V. NIÐURSTAÐA
Ég hef trú á öflugum borgurum sem veita aðhald, fylgjast með og láta til sín taka. Ég tel að á sama hátt og það var hægt að þróa ótrúlega hernaðartækni megi þróa magnaða friðartækni. Ég óska þess að friðartæknin leysi hertæknina af hólmi og verði svo þróuð að umfangsmikil friðaráætlun geti hafist á örskotsstundu. Hvarvetna um heiminn verða friðarbækistöðvar og umhverfis jörðina sveima athugul augu friðartungla – og engu verður til sparað.

Ég myndi setja konur sem hafa ekki gengið veg herkarlanna við stjórnvölinn . Aðferð friðarins felst í því að mennta og byggja upp og standa með lífinu!

Ég gæti haldið áfram en læt staðar numið að sinni. Ég bendi á að við eigum þegar hér á Íslandi nokkra einstaklinga sem hafa menntað sig í friðarmenningu. Fyrsta verk er að ráða þau í vinnu og leyfa þeim að blómstra. Hlustum á friðarmenninguna, höfnum stríðsmenningu!

Með von um friðsamleg jól!
Gunnar Hersveinn, 20. desember 2010
www.thjodgildin.is

Þjóðgildin árituð og viðtal við höfund

Gunnar Hersveinn áritar bók sína Þjóðgildin á Laugavegi 31 í Skálholtsútgáfunni laugardaginn 18. desember frá kl. 14.00. Allir velkomnir þangað í kaffi og koníak og spjall. Endilega gerið okkur þann heiður að líta í búðina. Allir sem eiga leið um eða vilja gera sér erindi til að fagna útkomu bókarinnar um þjóðgildi Íslendinga. Bókin er skrifuð gegn firringu og leiðindum með það markmið að taka þátt í því að skapa betra samfélag. Gunnar Hersveinn verður einnig í Vikulokunum á Rás eitt milli 11-12 (18. des) og loks er von á ítarlegu viðtalið við hann um vonir og vonbrigði Íslendinga í Fréttablaðinu, sennilega þriðjudaginn 21. desember. Fylgist með. Bókin er kjörin til uppbyggilegrar umræðu í jólaboðunum!

Hver nennir að vera heiðarlegur?

Það er ekki nóg að velja þjóðgildin, það er ekki nóg að hengja þau upp á vegg sem leiðarljós eða læra þau utanbókar. Verkefnið framundan er að tileinka sér þau. Heiðarleiki hefur margsinnis verið valinn eitt æðsta þjóðgildi Íslendinga. „Allir vita að heiðarleiki er göfug dyggð en enginn nennir að læra hana,“ er fullyrðing í anda Laó-tse.

Heiðarleiki er í raun rammi eða mörk sem ekki má fara yfir. Heiðarleiki birtist annars vegar gagnvart sjálfum sér og hins vegar öðrum. Heiðarleiki i eigin garð kemur öðrum ekki við nema þá helst nánustu aðstandendum. En heiðarleiki gagnvart öðrum dregur til sín mörg önnur gildi eins og traust og réttlæti.

Fyrirtæki sem hefur heiðarleika sem leiðarljós leynir ekki mikilvægum upplýsingum fyrir viðskiptavinum sínum. Það veitir ekki lán sem það á ekki fyrir né sá sem fær það, það lýgur ekki og blekkir ekki til að bjarga sér frá falli. Skortur á heiðarleika var áberandi fyrir hrun.

Samfélag sem hefur heiðarleika að leiðarljósi gerir það sem það hefur samþykkt. Það mismunar ekki fólki. Það leggur sig fram um jöfnuð, ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. Heiðarlegt samfélag þarf að leggja eitthvað á sig til að standa undir nafni, það er ekki nóg að birta tölur eða kaupa skýrslur.

Alþingi sem hefur heiðarleika að leiðarljósi og samþykkir Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar um sama efni hefur samþykkt eftirfarandi: Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð (13, 2010). Samþykktin verður sennilega látið nægja.

Ef þessi yfirlýsing verður látin næga, er ekkert samband milli hugar og handar. Heiðarleiki er nefnilega samhljómur milli hugsjóna og aðgerða. Það er ekki nóg að segjast vera heiðarlegur eins og títt er, heldur þarf hátternið ennfremur að vera það. Ef það verður bara skorið niður í skólakerfinu og námsgagnasjóðir lagðir niður, þá er ofangreind samþykkt merkingarlaus ímyndarvinna. Hún verður sennilega vitnisburður um fögur fyrirheit.

Ég held að þjóðin hafi valið heiðarleika sem æðsta gildið á Íslandi vegna áþreifanlegs og mælanlegs skorts á honum hjá þeim sem tengjast valdi og óheyrilegu ríkidæmi. Hrópað var á heiðarleika meðal annars til að sporna gegn tilurð yfirstéttar. Heit um betrumbætur er byrjunin en hegðunin er prófsteinninn. Hlustum ekki á fagurgala, tökum eftir þeim sem raunverulega eru að störfum til að byggja upp betra samfélag, fylgjumst með grasrótinni.

Bókin Þjóðgildin er viðleitni til að fylgja þjóðfundunum 2009 og 2010 eftir og hún er verkfæri handa þeim sem vilja taka þátt í því að skapa betra samfélag þar sem efnahagur og peningar eru ekki einu guðirnir og mælikvarðarnir. Það sem er hrunið, er hrunið, beinum huganum annað.

Hver nennir að vera heiðarlegur? Ef samfélagið metur heiðarleika mikils og lætur ekki glepjast af fölskum vonum, ef virðing fylgir heiðarleika og sú yfirlýsing að hann sé eftirsóknarverður, þá gæti ef til vill eitthvað breyst. Ef samfélagið krefur alla um heiðarleika, ekki aðeins óbreytta launamenn, þá mun margt breytast til betri vegar.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Lýðræðið eftir kosningar

Lýðræði er eitt af þjóðgildunum. Gestir á þjóðfundunum 2009 og 2010 völdu lýðræði. Íslendingar eru óánægðir lýðræðissinnar vegna þess að þeim hefur ekki líkað fáræði formanna stjórnmálaflokkanna. En eina leiðin til að breyta ríkjandi fáræði er að taka þátt í lýðræðinu.

Kosið var til stjórnlagaþings laugardaginn 27. nóvember og svo virðist sem þátttaka í kosningunum hafi verið undir 40%. Skiptir það máli? Allir vissu af kosningunum, öllum gafst kostur til að kjósa, fólk var hvatt til að kjósa, enginn skortur var á frambjóðendum.

Hvert atkvæði í opinberum kosningum er brot af valdi almennings. Flestir er sammála því um þessar mundir að valdið sprettur úr grasrótinni. Valdið býr í þjóðinni og hún veitir fulltrúum sínum sem hún velur í kosningum tímabundið leyfi til að vara með valdið. Hlutverk fjölmiðla er síðan að fylgjast með því hvernig valdhafar hverju sinni fara með fé, eigir, land og önnur dýrmæti þjóðarinnar. Hlutverk fjölmiðla er að skapa aðstæður fyrir upplýst almenningsálit. (Það tókst ekki að þessu sinni.)

Þrátt fyrir það þarf hver og einni kjósandi að efast og beita gagnrýnni hugsun, því svo óendanlega margir vilja hafa áhrif á skoðanir hans og hegðun. Hvað hann kaupir, hvert hann fer og hvað hann velur í kosningum.

Kosningarnar til stjórnlagaþings voru nýjung á Íslandi. Valmöguleikarnir voru fleiri. Það voru persónukosningar en samt voru frambjóðendur meðhöndlaðir sem hjörð í fjölmiðlum. Kosningarnar voru talaðar upp og þær voru talaðar niður. Möguleikar kjósenda til að kynna sér það fólk sem þeim leist vel á voru þrátt fyrir fjöldann talsverðir. (Ekki þó í sjónvarpi).

Í bók minni Þjóðgildin er fjallað um lýðræði, þar segir meðal annars: „Lýðræði er aðferð til að laða fram visku fjöldans. Lýðræði er samræða þar sem leitað er heillavænlegra leiða til að halda áfram. Lýðræði krefst sterkrar vitundar borgaranna um gildin í samfélaginu. Lýðræði er aðferð sem krefst alls hins besta í samfélaginu. Það krefst umhugsunar, tíma og gaumgæfilegra athugana, gagnsæis, virðingar og umfram allt náungakærleika. “

OF MARGIR Í FRAMBOÐI?

Ég hef alls ekki tapað trú á lýðræðisást landsmanna þrátt fyrir að kosningaþátttakan núna hafi verið undir 40%. Aðrir þættir spila hér sterkt inn í. Hér tilgáta 1. Valkostirnir voru of margir, 552 í stað tveggja til átta eins og venjulega. 2. Persónukosningar þar sem hver og einn var aðeins hluti af hjörð. 3. Fjölmiðlar og almenningur hefði þurft meiri tíma og fleiri lausnir, jafnvel forkosningar (frambjóðendur í nútímasamfélagi verða nauðsynlega að fá tækifæri til að koma fram í sjónvarpi).

Lýðræðið þarf vettvang þar sem viska fjöldans getur brotist upp á yfirborðið. Almenningur er sterkasta aflið en hinn útvaldi er veikasti hlekkurinn. Það eru engin ofurmenni til, þau eru ekkert nema almenningur gefi þeim styrk. Sköpum fremur aðrar aðstæður og andrúmsloft. Fjölmiðill á aðeins og einungis að vera vinur borgarana, almennings og þjóna engum öðrum!

Lýðræði á sín mörk eins og allt annað.  Mannréttindi eru t.a.m. mörk lýðræðis. Of fáir valkostir eða of margir geta einnig varðað mörk lýðræðis. En hvað um það: Höldum áfram að vinna að lýðræði á Íslandi! Nemum ekki staðar! Fögnum góðum lýðræðistilraunum!

Eitt er alveg víst: þau sem taka þátt, þau velja, þau ráða framtíðinni.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Leiðarljós þjóðarinnar!

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskránni núna og ekki seinna en það. Ástæðan er sú að í undanfarin áratug hefur landinu verið stjórnað af örfáum körlum og þjóðin hefur glatað sambandi sínu við stjórnarskrána.
Foringja(r)æði hefur ríkt, oddvitaræði eða með öðrum orðum: örfáir valdamenn hafa ráðið næstum öllu þinginu og stjórnmálaflokkunum. Hvað lög eru sett og hvernig þau eru framkvæmd. Þetta er ekki bara fullyrðing heldur er nú staðfest í rannsóknarskýrslum Alþingis og skýrslu alþingismanna sjálfra.

Einhver gæti sagt að vel sé hægt að búa áfram við þessa stjórnarskrá og hægt sé að lagafæra hana í rólegheitunum eftir því sem þarf. Það skipti engu máli þótt fyrstu tvær síðurnar séu lagðar undir forsetann, mannréttindakaflinn sé aftarlega og ekki sé þess getið að valdið komi frá fólkinu. En svo er ekki.

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskránni til að þjóðin eignist á ný lifandi samband við grundvallarlögin. Þetta er ekki breyting breytinganna vegna heldur viðleitni til að byrja upp á nýtt með betri huga.

Sá sem hefur lent í því að vera fluttur í sjúkrabíl með blikkandi sírenur og endurlífgaður á síðustu sekúndunni, heitir sér því að breyta líferni sínu. Hann endurskoðar venjur sínar og lífsreglur. Hann setur væntanlega heilsuna fremst og kærleikann til annarra.

Hið sama gerir þjóð sem féll fram af hengifluginu. Hún endurskoðar stjórnarskrána sína, bætir í, þéttir og endurraðar til að draga úr líkum á að fáræði ráði aftur för. Hún heitir sér því að efla vald almennings og skapa skilyrði til að hægt sé að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hlustum ekki á úrtöluraddir eða þá sem tala gegn breytingum. Hlustum ekki á þá sem engu vilja breyta, þeir styðja gamla valdið og kerfið og vilja ekki breyta líferni sínu.

Breyta þarf andanum í stjórnarskránni, þannig að hann verði aftur andi þjóðarinnar en ekki valdsins. Styrkja þarf hlut almennings, bæta virðingu hans og auka ábyrgð þeirra sem fara tímabundið með valdið fyrir þjóðina.

Styrkja þarf hlut náttúru og auðlinda landsins í stjórnarskránni, svo tryggt sé að sölumenn eyðileggingarinnar geti ekki öðlast vald yfir gersemum landsins og svipt næstu kynslóðir fegurðinni.

Enginn þarf að óttast það að fulltrúar þjóðarinnar í stað fulltrúa stjórnmálaflokka fái tækifæri til að leggja til breytingar á stjórnarskrá Íslands. Enginn þarf að óttast þótt valdmörk Alþingis verði skýrari og sterkari gagnvart framkvæmdavaldinu. Traust á Alþingi getur aðeins vaxið.

Margt mjög frambærilegt fólk býður sig fram í það starf að eiga samtal um drög að nýrri stjórnarskrá, leggja fram drög að frumvarpi. Það mun vinna að þessu verkefni af alúð. Ég gef kost á mér í þetta starf, ég er ekki nauðsynlegur í starfið fremur en neinn annar. Ég hef þekkingu á grunngildum Íslendinga og hef skrifað bækur um þau og tel af þeim sökum að sú þekking geti nýst.

Niðurstaðan er að tækifærið er núna. Nýr tíðarandi lýðræðis, jafnaðar, sjálfbærni, jafnréttis, samvinnu, fjölskyldu, réttlætis og virðingar knýr á og sú viðleitni að vilja endurskoða stjórnarskrá Íslendinga er mikilvægur þáttur í því að varanleg breyting eigi sér stað.

Spurningin er: Hvernig samfélag viljum við vera? Tvisvar voru þjóðfundir haldnir til að laða fram visku þjóðarinnar og tvisvar voru sömu gildin valin. Þjóðin vill sporna gegn spillingu og græðgi gamla tíðarandans og móta heiðarlegt samfélag. Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að festa þjóðgildin í sessi? Meðal annars með því að þjóðin öll taki þátt í ferlinu og geri stjórnarskrána að leiðarljósi sínu.

Gunnar Hersveinn 6527
www.thjodgildin.is

Gamla og nýja valdið

Nýr tíðarandi er á næsta leiti. Hann verður ekki líkur þeim sem var og ekki heldur þeim sem ríkti þar á undan. Það er vandasamt að vinna að þessari heimsmynd því hún er viðkvæm, auðvelt er að sniðganga hana og margir eru á móti henni. Gamla valdið berst gegn þessum nýja anda og fær ýmsa í lið með sér.

Nýr tíðarandi krefst gagnrýnnar hugsunar í stað karps. Í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur: „Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð.“ (13, 2010). Skýrslan var samþykkt á Alþingi. Nú þarf að vinna þessu brautargengi og finna leiðir framhjá margskonar hindrunum.

Vissulega er holóttur vegur framundan í þeirri viðleitni að skapa nýtt og öflugt lýðræði. Gamla valdið fellir tré yfir vegi, kemur upp tálmunum, lokar vegum … Frambjóðendur til stjórnlagaþings finna það til að mynda á eigin skinni. Þeir hljóta að teljast einhvers konar grasrót, eða mögulegt nýtt vald, andspænis gamla valdinu: yfir fimmhundruð karlar og konur eru reiðubúin til að taka þátt í endurskoðun stjórnarskrár, leggja sitt af mörkum og móta sýn fyrir framtíðina. Áhrif hefðbundinna valdastofnana á væntanlega þingmenn er þverrandi og því er gamla valdið óttaslegið.

Verkefnið á stjórnlagaþingi felst í samræðu og rökræðu, þar sem skipts er á skoðunum og tilraun gerð til að taka heillvænlegar ákvarðanir fyrir almenning. Þingið hefur niðurstöður þjóðfundar til hliðsjónar og upplag stjórnlagaþingsnefndar en ekki fyrirskipanir frá foringjum stjórnmálaflokka. Þingið á að vera opin lýðræðisleg samræða í samræmi við nýjan tíðaranda. Þarna má greina vísi að nýju valdi og það vekur mörgum valdamönnum ugg í brjósti.

Stjórnlagaþing er nýjung á Íslandi. Hefðbundin, vanabundin hugsun bregst illa við. Um þessar mundir fá frambjóðendur sendar fyrirspurnir frá fjölmiðlum og öðrum sem eiga það sammerkt að vera tilraun til að flokka þá í kvíar. Ert þú með eða á móti? Já eða nei? Ekki er gert ráð fyrir samtali eða samráði eða visku, aðeins einlínu afstöðu.

Eftir stjórnlagaþing verða vonandi gerðar rannsóknir á umfjöllun hefðbundinna fjölmiðla í aðdraganda þingsins. Þar mun líklega koma fram að fjölmiðlar ræddu aðeins við sérfræðinga um þingið og höfðu sérlega gaman af því að flokka frambjóðendur í kvíar. Fáskrúðug lýðræðisleg umræða, engin gagnrýnin hugsun, aðeins flokkunarárátta hugans sem styður hið gamla og „æskilega“ vald.

Frambjóðendur birtast núna í helstu fjölmiðlum landsins sem ein hjörð sem var svo „djörf“ að bjóða sig fram til að byggja upp annað Ísland en það sem nú hopar á hæli. Frambjóðendum er hvarvetna stillt upp eins og einsleitum vefhópi og gefst ekki tækifæri til að skiptast á skoðunum sín á milli eða ræða við almenning.

Ég býst við því að fram að kosningum 27. nóvember muni fátt koma fram í fjölmiðlum, um þetta mál, sem hefur það markmið að skapa upplýst almenningsálit, þótt það sé meginhlutverk fjölmiðla. Við munum sjá enn fleiri aðferðir til að raða frambjóðendum á bása í stað gefandi umræðu um mikilvæg málefni. Fleiri já eða nei, með eða á móti. Meira af fávisku, minna af visku.

Umræðuhefðin á Íslandi er eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast um leið og skipt er um tíðaranda. Markmiðið með umræðu er að finna líklegan veg til farsældar en ekki að sigra í kappræðu eða gæta sérhagsmuna. Núna hlaupa menn næstum undantekningarlaust í vörn og sókn þegar mikilvæg mál bera á góma. Það er úrelt aðferð, tökum ekki þátt í henni.

Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi. Hlustum!

Næsti tíðarandi verður, ef við viljum, fjöllyndur, hann gefur ekki eyðileggingunni undir fótinn. Hann lyftir því sem hefur gildi. Hann teflir ekki fram einni lausn, heldur mörgum. Hann verður mildur. Hann er ekki draumur, heldur raunhæfur möguleiki sem nú þegar breiðist út …

Þegar úrelt hugsun á fjölmiðlum líður undir lok mun ný aðferð felast í því að beita uppbyggilegri gagnrýni, greina, skýra og miðla á faglegan hátt. Aðferðin er í raun ekki ný heldur felst nýjungin í því að leyfa henni að lifa.

Lýðræðið hefur spillst og engir geta hreinsað út nema borgararnir sjálfir. Sjálfboðaliðar úr hópi borgaranna verða að fá áheyrn fjöldans og leyfi til að breyta kerfinu. Verkefnið felst í því að endurskapa samfélagið, ekki að smiða hindranir með úrtölum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Viska þjóðarinnar býr innra með henni. Hún verður ekki þvinguð fram heldur stígur hún fram sjálf við kjöraðstæður. Sköpum þær!

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is