Greinasafn fyrir merki: jafnrétti

Námskeið: Hugskot, skamm-, fram- og víðsýni

Namskeið

Hugskot, skamm-, fram- og víðsýni. Námskeið sem hentar bæði í kennslu og daglega lífinu.

Viltu bæta samfélagið? Viltu vera kraftmikill borgari sem stendur vörð um gæðin og hefur færni og leikni til að greina ímyndir, fordóma og misrétti? Þá er þetta námskeið fyrir þig.: Efni bókarinnar Hugskotskamm-, fram- og víðsýni eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur er ofarlega á baugi um þessar mundir enda beint gegn rugli og skekkjum í samfélaginu. Þá hefur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari látið að sér kveða á þessum vettvangi. Þau þrjú sjá um kennsluna á námskeiðinu.

Nú er kallað eftir kraftmiklum borgurum sem hafa hugrekki til að láta að sér kveða í samfélaginu. Til þess þarf að efla gagnrýna hugsun og hvers konar færni til að greina og meta áreiti og áróður í samfélaginu. Á námskeiðinu er m.a. greint frá samhenginu á milli flokkana, staðalímynda og fordóma. Þá er fjallað um jafnréttismál, friðarmenningu, borgaravitund og visku. Fjölmörg nýleg dæmi verða nefnd til sögunnar og rými gefið fyrir umræðu.

Tímariti um uppeldi og menntun (2.tbl -2016) er dómur um bókina Hugskot: „Markmið bókarinnar er að efla gagnrýna hugsun, og það er grundvöllur þess að fólk vakni til vitundar, skilji umhverfi sitt og bregðist við því á ígrundaðan, upplýstan hátt … frábær lesning fyrir alla sem starfa með börnum og ungmennum. “ Sjá dóm:  Hugskot -besta bókin: https://ojs.hi.is/tuuom/article/view/2440/1323.  Námskeiðið er fyrir alla sem vilja skapa betra samfélag.

Tími: Þriðjudaginn 15. ágúst, kl. 9-12. Staður: Borgarholtsskóli
Umsjón/leiðbeinendur: Gunnar Hersveinn heimspekingur og rithöfundur, Friðbjörg Ingimarsdóttir MA i mennta- og menningarstjórnun og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari í Borgarholtsskóla.

Verð: 7.500 kr. og hægt er að fá námskeiðsgjald endurgreitt frá stéttarfélögum.

Skráning í tölvupósti á netfangið hannabjorg@bhs.is sími 861 7404.

Þau sem skrá sig á námskeiðið fá bókina á tilboðsverði hjá IÐNÚ.

Tengill á viðburð

hugskot9

Deila

Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni

GHFI23

Ný bók eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur um öfluga borgararvitund er komin út.

Bókin Hugskot er handbók fyrir alla sem vilja taka þátt í baráttunni fyrir betra samfélagi. Umfjöllunarefninu er best lýst með hugtakinu gagnrýninn borgari sem felst í því að kunna skil á mannréttindum, vera læs á samtímann og þora að mótmæla.

Markmiðið er að efla kunnáttu og færni lesenda í að skyggnast inn í eigið hugskot, beita gagnrýnni hugsun ásamt því að greina ímyndir, fordóma, texta og skilaboð í samfélaginu.

hugskot9

Höfundar Hugskots hafa áralanga reynslu af starfi sem tengist efni bókarinnar, meðal annars sem kennarar og ráðgjafar. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra er með MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun og er sjálfstætt starfandi fræðikona í ReykjavíkurAkademíunni. Gunnar Hersveinn rithöfundur er menntaður í heimspeki og blaðamennsku og höfundur nokkurra bóka, þar á meðal metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu.

Hugskot er bók um gagnrýna hugsun, flokkanir, staðalímyndir, fordóma, jafnrétti, friðarmenningu og borgaravitund gefin út af IÐNÚ. Teikningar: Sirrý Margrét Lárusdóttir. Umbrot og hönnun: Bjarki Pétursson.

Tenglar

Facebooksíða

Iðnú – kaupa bók

Gagnrýnir borgarar mótmæla

Feðraveldið í heimspekikaffi

Heimspeki

Ég er femínisti, ég er karlmaður, ég er karlfemínisti. Hvaða máli skiptir það? Engu. Hvað er svona merkilegt við það? Ekkert. Hver einstaklingur getur verið lýðræðissinni, friðarsinni, jafnréttissinni, náttúruverndarsinni og hvaðeina annað og kosið, valið og mótmælt án þess að kynið komi fram.

Þetta merkir þó ekki að kyn skipti engu máli. Kyn er eldfim pólitísk breyta og viðbrögð geta ráðist af því hvort um karl eða konu er að ræða í hverju tilviki. Það er því í góðu í lagi að spyrja „Hvernig bregst feðraveldið við karlfemínistum?“ Það er áhugavert sem athugun í félagsvísindum.

Arfur kynslóðanna

Feðraveldi er víðtækt hugtak sem merkir almenna karllæga drottnum í samfélaginu. Arfur kynslóðanna og vald gengur frá föður til sonar, frá körlum til karla. Andstætt kerfi væri þá mæðraveldi þar sem opinbert vald flyst á milli frá móður til dóttur.

Útvaldir karlar tóku sér fyrr á öldum allt opinbert vald og lögðu undir sig allar stofnanir sem þeir höfðu áhuga á. Þeir lögðu hald á og eignuðu sér hluti, halda í valdatauma og voru allsráðandi á þingum, í ráðum, nefndum og í sérhverjum hópi þar sem eignir, þýðingarmiklar ákvarðanir og peningar koma við sögu. Valdahefðin er þéttskipað körlum. Þetta þýddi óhjákvæmilega einnig undirskipun og kúgun kvenna.

Forræðishyggja aðal-karlanna  á sér rætur í feðraveldinu og birtist hún reglulega í samfélagi nútímans, til dæmis nú á haustmánuðum við skipun dómara í Hæstarétt Íslands. Dómnefnd sem mat hæfni umsækjenda var skipuð fimm karlmönnum en engri konu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að einn karlinn sem sótti um væri hæfastur af þeim, þótt mjög hæf kona væri reiðubúin til að gegna starfinu. Nú eru því níu karlar sem skipa Hæstarétt Íslands og ein kona. Þetta er dæmi um birtingarmynd feðraveldis. Efnisleg rök feðraveldisins og viðmið hníga að því að skipa karl í slíka stöðu. Jafnréttissinnar spyrja aftur á móti „Er ekki allt í lagi?“

Feðraveldið hyglar völdum körlum, veitir þeim háar stöður og laun og viðurkenningar á allan hátt. Þetta er kerfi kúgunar sem kemur í veg fyrir jafnrétti kynjanna jafnvel þótt réttlát jafnréttislög hafi verið sett í landinu. Karlar sköpuðu þetta valdakerfi, það er karllægt og sumum körlunum finnst það enn réttlátt og yfir allan vafa hafinn. Karlar eru samkvæmt þessu einfaldlega miklu oftar hæfari en konur til að gegna valdstöðum, en þó aðeins sumir karlar. Alls ekki allir karlar, þeir þurfa að standast ákveðna mælikvarða feðraveldisins,  lúta tilteknum reglum og hafna kvenlægum gildum.

Hugtakið „feðraveldi“ er vissulega víðtækt og vandasamt í meðförum en það merkir safn hefða og venja, laga og reglugerða sem standa vörð um vald karla og útilokar og undirskipar í sama mund konur og kvenlæga karla. Hugtakið merkir í sinni einföldustu mynd félagslegt kerfi þar sem konur eða hið kvenlæga er undirskipað.

Feðraveldið hefur orðið fyrir töluverðri gagnrýni á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og hefur hopað á fæti undan geirvörtum kvenna og margskonar þöggun á kvennakúgun og -ofbeldi í samfélaginu. Kvenfemínistar eru greinilega í fararbroddi byltinganna sem nú eru háðar. Brjóstabyltingunni eða #FreeTheNipple var meðal annars beint gegn feðraveldinu og flugu setningar um netið og fjölmiðla, til dæmis sagði Björt Ólafsdóttir þingmaður þegar hún tók þátt í #FreeTheNipple : „Þessi er hérna til að gefa börnum að borða. Troðiði því upp í feðraveldið á ykkur“.

Spurt er „Hvers vegna geta karlar gengið um berir að ofan í opinberu rými en konur ekki?“ Forréttindi karla í samfélaginu eru oft talin sjálfsögð og hegðun þeirra og viðhorf ekkert til að gera veður út af. Þá er aðgengi þeirra að völdum og stöðum betri en kvenna.  Spyrja má „Er lýðræði á Íslandi eða aðeins karlræði?“

Heimspekikaffi 18. nóvember kl. 20

Það er áhugavert að víkja að karlfemínistum í þessu samhengi. Hvernig tekur „feðraveldið“ viðleitni karlfemínista til að breyta samfélaginu? Hvernig gengur körlum að beita femíniskum viðmiðum til að breyta viðhorfum og brjóta niður kynjað valdakerfi ?

Kvenlæg og karllæg gildi og nýjar og breyttar karlmennskur verða til umræðu í heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. nóvember kl. 20.00. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur pælir í feðraveldinu og Hjálmar Sigmarsson kynja- og mannfræðingur fjallar um reynslu ungra karlmanna sem að hafa tileinkað sér femínisma.

Velkomin, konur og karlar.

Tengill

Viðburðurinn Karlfemínistar í feðraveldi

Ábyrgð annarra en kennara

Efla þarf kennslu í gagnrýnni hugsun, siðfræði og kynjafræði  – en það dugar skammt ef enginn tekur ábyrgð nema kennarar og foreldrar. Bankahrun og Alþingi samþykkir í kjölfarið kennslu í heimspeki. Hrun öfgakarlmennsku og við viljum kenna kynjafræði í skólum. Einn kennari getur ekki bjargað heiminum.

Áhrifaríkir hópar innan viðskiptalífs, fjölmiðla og stjórnmála gera oftast ekki ráð fyrir því að þurfa að svara fyrir ákvarðanir sínar. Þeir styðja ekki það sem fram fer í skólastofunni og þegar eitthvað hrynur bregðast þeir við með réttlætingum og gagnárásum – eða með því að segja að efla þurfi kennslu í gagnrýnni hugsun.

Samábyrgð liggur hjá fjölmiðlum. Ritstjóri sem velur ævinlega karla til að gegna yfirmannastörfum og felur konum önnur viðfangsefni en körlum hefur óbein áhrif á jafnréttisbaráttuna í landinu. Fjölmiðlar sem segja aðeins hálfa söguna eru hættulegir lýðræðinu. Fjölmiðlar sem hampa heimskunni vegna vinsælda eru hættulegir. Þetta er ekki léttvægt, allt hefur þetta áhrif. Það er sama hversu oft og lengi kennari fræðir ungmennin, það er oftast fyrir bí, ef fjölmiðlar og fyrirmyndir hrópa eitthvað annað.

Fjölmiðlar eru meðal áhrifaþátta á heimilum og skólum, en stundum heyrist fjölmiðlamaður þó segja þegar hann er spurður um ábyrgð sína: „Ég segi einungis frá því sem gerist“ og „Ég læt fólk fá það sem það vill.“ Líkt og hann sé auðmjúkur þjónn sem semur efni eftir vilja annarra. Hann talar ef til vill aðeins við þá sem valda flytja áróður, valda usla og hneykslun og býst svo við að ábyrgðin liggi öll og alltaf hjá móttakandanum.

Þegar eitthvað hrynur er iðulega knúið á skólastofnanir um að kenna meira um sammannleg gildi. Í skólum á að efla siðferðiskennd og samskiptahæfni og örva samfélagsvitund eða mennta vitræna þegna sem hafa hæfileika til að setja sig í spor annarra og finna til með öðrum. Ætlast er til að í skólum læri börn að taka þátt í umræðum um fordóma, erfiðleika í samskiptum, einelti, samskipti kynjanna, fjölmenningu, siðferðileg álitamál og um lýðræði, svo brot sé nefnt. En spyrja má: hvar er ytri stuðningurinn við það starf að kenna um manngildi?

Það er ekki nóg að búa til námskeið í grunnskóla eða framhaldsskóla, við þurfum einnig að standa með efninu og kennaranum, fylgja því eftir og gera kröfur til annarra, til viðskiptalífs, fjölmiðla og stjórnmálamanna. Hættum að leyfa fólki að firra sig sjálft ábyrgð.

Algengasta klisjan er að fjölmiðlar endurspegli samfélagið en í henni felst afsökun eða réttlæting til að taka ekki ábyrgð. Betra er að segja að fjölmiðlar taki þátt í mótun samfélagsins, mótun skoðana og hegðunar. Fjölmiðill tekur einfaldlega undir fjandsamleg viðhorf til kynjanna með því að velja blaðamenna eða þáttastjórnendur sem hvetja til ofbeldis og kúgun kvenna. Hann getur ekki firrt sig ábyrgð, þvert á móti verður hann samábyrgur. Hversu oft þarf að minna á þetta?

Hvernig getur einn kennari bjargað málunum ef markaðurinn, fjölmiðlar, viðskiptalíf og stofnanir vinna ekki með honum? Hvar er þá stuðningurinn? Hverjir aðrir en kennarar ætla að styðja foreldra til að ala upp sterka þegna í lýðræðisþjóðfélagi? Við skulum ekki telja okkur trú um að öllu séu bjargað með því að kenna heimspeki og kynjafræði í skólum. Það er nauðsynlegur grunnþáttur – en aðrir eiga að taka ábyrgð líka. Gerum þá kröfu!

Fjölmiðlar ættu með öðrum orðum að taka meiri þátt í því að fjalla um sammannleg gildi og hafa þau sem mælikvarða á ákvarðanir um efnisval. Fjölmiðill sem kýs að taka ábyrgð, reynir að forðast að falla í gryfjur hættulegra fordóma um til dæmis kynin og trúarbrögð. Hann lætur ekki mata sig á því sem aðrir vilja selja og byggist á kúgun annarra. Fjölmiðill má ekki selja notendur sína með von um vinsældir þeirra og hann ræður ekki fólk til starfa sem haldið er mannfyrirlitningu eða er sama um allt og alla. Er það ekki augljóst?

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Friðarreglan: særið engan

Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það þráir að forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur, þrátt fyrir allt, búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð.

Það dýrmætasta í lífinu er oftast falið innan um hversdaglega hluti. Það er hulin fegurð, ekkert prjál og skraut. Fólk líður hjá og enginn tekur eftir því nema sá sem hefur hugrekki til að loka augunum. Hið dýrmæta er á mörkunum.

Saga ofbeldis er saga kúgunar, ofstækis og ofríkis þeirra sem vilja græða, öðlast völd, eignast land, drottna. Þetta er skelfileg saga sem greint er frá í smáatriðum í sögubókum, saga sem of oft verður hetjusaga í túlkun söguritara. Þetta er saga sem á sér fyrirmyndir í goðsögnum og stríðshetjum líkt í grískri og norrænni goðafræði. Svo stríðsglöðum goðum að þær lögðu jafnvel andstæðingum sínum lið eða egndu saman vinum. Það þekkjum við einnig úr sögu nútímavopnasölu og stríðsstuðningi stórvelda við geðsjúka einræðisherra.

Hvað sem þeir heita allir þessir ofbeldisfullu leiðtogar þjóða og hryðjuverkasamtaka allra tíma: hættum að minnast þeirra. Til er annar hópur kvenna og karla sem fátt er um skrifað þrátt fyrir þrekvirki þeirra og mannraunir til að koma í veg fyrir ofbeldi, stríð, kúgun og dauða og með því að skapa frið.

Hverjar eru útlínur friðarins?
Til er regla sem kalla má meginreglu í mannlegum samskiptum. Reglan lætur lítið yfir sér. Hún er hljóðlát, ekki áköf eða frek. Hún hrópar ekki á torgum undir lúðrablæstri, stærir sig ekki, krefst ekki fylgis og refsar ekki en hefur kraft til að láta hönd hefndar og ofbeldis síga. Nafn hennar er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún bindur ekki, hún skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera. Hún setur ein mörk, eitt bann.

Hún er sagnarandinn í brjóstinu sem hvetur fólk aldrei til eins eða neins heldur letur það og varar við: ekki gera þetta, hvað sem á dynur, ekki slá, ekki berja, ekki hóta, ekki drepa. Reglan er svo djúp og forn að hún er handan siðfræði og lögfræði. Hún er grunnstoð án undantekninga. Hún er friðurinn, jafnt friðurinn á heimilinu sem heimsfriðurinn í hjartanu.

Siðfræðingur getur fundið undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarnar og dómari gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlætið fylgir aldrei ofbeldi og kúgun. Í grískri goðsögn er friðurinn gyðja sem á tvær systur: gyðju réttlætis og gyðju viturlegra laga – og segir fátt af þeim enda hófstilltar og í þeim brennur hvorki heift og reiði. Þar sem þær fara um eru blómlegir akrar en ekki sviðin jörð.

Særið engan er friðarreglan. Tákn hennar er ekki hávaxin gyðja og herðabreið með skjöld og sverð á lofti. Ekki nakin fegurðardís sem rís upp úr skel, ekki móðirin með ungbarnið. Tákn hennar er konan sjálf án allra hlutverka – hið kvenlæga. Hún skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Slíkur friður er sprottinn af kærleika og gleði og er meira en óljós tilfinning. Föruneyti hennar vinnur ævinlega með lífinu og aldrei gegn því.

Dyggðir friðarreglunnar
Tákn friðarreglunnar getur einnig verið regnbogi, dúfa, blóm, hringur eða silfur því hún er stundum kölluð silfurreglan í mannlegum samskiptum. Gyllta reglan kveður á um frumkvæði til að gera öðrum gott en silfurreglan er um mörk friðsemdar og ofbeldis: ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Friðarreglan er jafnframt kjarni frelsisreglunnar víðkunnu um að setja einstaklingum einungis þau mörk: að valda ekki öðrum tjóni.

Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan er friðarsúlan, ekki aðeins í Viðey heldur á öllum eyjum, heimsálfum og landamærum. Hún sendir hljóðlát skilaboð út um allan heim, hvar sem ógnarhönd ætlar að reiða til höggs, hvar sem kúgun á sér stað. Hún er skilyrðislaus beiðni um líf án ofbeldis. Hljóðlaust ljós sem flæðir um loftin.

Þær dyggðir sem þarf að efla til að friðarreglan verði okkur töm eru virðing, hófsemi og kærleikur.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það þráir að forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur, þrátt fyrir allt, búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð.
Það dýrmætasta í lífinu er oftast falið innan um hversdaglega hluti. Það er hulin fegurð, ekkert prjál og skraut. Fólk líður hjá og enginn tekur eftir því nema sá sem hefur hugrekki til að loka augunum. Hið dýrmæta er á mörkunum.

Saga ofbeldis er saga kúgunar, ofstækis og ofríkis þeirra sem vilja græða, öðlast völd, eignast land, drottna. Þetta er skelfileg saga sem greint er frá í smáatriðum í sögubókum, saga sem of oft verður hetjusaga í túlkun söguritara. Þetta er saga sem á sér fyrirmyndir í goðsögnum og stríðshetjum líkt í grískri og norrænni goðafræði. Svo stríðsglöðum goðum að þær lögðu jafnvel andstæðingum sínum lið eða egndu saman vinum. Það þekkjum við einnig úr sögu nútímavopnasölu og stríðsstuðningi stórvelda við geðsjúka einræðisherra.

Hvað sem þeir heita allir þessir ofbeldisfullu leiðtogar þjóða og hryðjuverkasamtaka allra tíma: hættum að minnast þeirra. Til er annar hópur kvenna og karla sem fátt er um skrifað þrátt fyrir þrekvirki þeirra og mannraunir til að koma í veg fyrir ofbeldi, stríð, kúgun og dauða og með því að skapa frið.

Hverjar eru útlínur friðarins?
Til er regla sem kalla má meginreglu í mannlegum samskiptum. Reglan lætur lítið yfir sér. Hún er hljóðlát, ekki áköf eða frek. Hún hrópar ekki á torgum undir lúðrablæstri, stærir sig ekki, krefst ekki fylgis og refsar ekki en hefur kraft til að láta hönd hefndar og ofbeldis síga. Nafn hennar er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún bindur ekki, hún skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera. Hún setur ein mörk, eitt bann.

Hún er sagnarandinn í brjóstinu sem hvetur fólk aldrei til eins eða neins heldur letur það og varar við: ekki gera þetta, hvað sem á dynur, ekki slá, ekki berja, ekki hóta, ekki drepa. Reglan er svo djúp og forn að hún er handan siðfræði og lögfræði. Hún er grunnstoð án undantekninga. Hún er friðurinn, jafnt friðurinn á heimilinu sem heimsfriðurinn í hjartanu.

Siðfræðingur getur fundið undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarnar og dómari gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlætið fylgir aldrei ofbeldi og kúgun. Í grískri goðsögn er friðurinn gyðja sem á tvær systur: gyðju réttlætis og gyðju viturlegra laga – og segir fátt af þeim enda hófstilltar og í þeim brennur hvorki heift og reiði. Þar sem þær fara um eru blómlegir akrar en ekki sviðin jörð.

Særið engan er friðarreglan. Tákn hennar er ekki hávaxin gyðja og herðabreið með skjöld og sverð á lofti. Ekki nakin fegurðardís sem rís upp úr skel, ekki móðirin með ungbarnið. Tákn hennar er konan sjálf án allra hlutverka – hið kvenlæga. Hún skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Slíkur friður er sprottinn af kærleika og gleði og er meira en óljós tilfinning. Föruneyti hennar vinnur ævinlega með lífinu og aldrei gegn því.

Dyggðir friðarreglunnar
Tákn friðarreglunnar getur einnig verið regnbogi, dúfa, blóm, hringur eða silfur því hún er stundum kölluð silfurreglan í mannlegum samskiptum. Gyllta reglan kveður á um frumkvæði til að gera öðrum gott en silfurreglan er um mörk friðsemdar og ofbeldis: ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Friðarreglan er jafnframt kjarni frelsisreglunnar víðkunnu um að setja einstaklingum einungis þau mörk: að valda ekki öðrum tjóni.

Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan er friðarsúlan, ekki aðeins í Viðey heldur á öllum eyjum, heimsálfum og landamærum. Hún sendir hljóðlát skilaboð út um allan heim, hvar sem ógnarhönd ætlar að reiða til höggs, hvar sem kúgun á sér stað. Hún er skilyrðislaus beiðni um líf án ofbeldis. Hljóðlaust ljós sem flæðir um loftin.

Þær dyggðir sem þarf að efla til að friðarreglan verði okkur töm eru virðing, hófsemi og kærleikur.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is