Greinasafn fyrir merki: Kærleikur

Kærleikurinn og hrunið

Copy of kaerleikurKærleikurinn verður í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20.. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Guðríðarkirkju og doktor í heimspekilegri guðfræði efna til lifandi umræðu um kærleika fyrir og eftir hrun og velta upp fjölmörgum hliðum hans með hjálp gesta sem einnig láta ljós sitt skína.

Þjóðgildin 5 árum eftir hrun

Heimspekikaffi í Gerðubergi

 

 

 

 

 

Deila

ÞJÓÐGILDIN 5 ÁRUM EFTIR HRUN

islandHvernig líður þjóðgildunum fimm árum eftir hrun? Hrunið opinberaði ekki aðeins spillingu, ofdramb og skeytingarleysi heldur einnig ófullnægða ósk og þrá sem bjó með þjóðinni. Áfallið sem fylgdi efnhagslegu hruni, falli bankanna og ríkisstjórnarinnar veitti innri rödd þjóðarinnar vægi. Þjóðfundirnir 2009 og 2010 löðuðu fram visku þjóðarinnar.

Tíðarandi græðgi, taumleysi, óbilandi bjartsýni og gildislausar hegðunar hafði ríkt um skeið. Skefjalaus heimskan fékk verðlaun, viðurkenningar og himinhá bankalán. Græðgin, agaleysið, framsæknin og hrokinn áttu greiðan aðgang að völdum, þjóðareignum og bankalánum en forsjálni, heiðarleiki, jöfnuður, umhyggja, ábyrgð og nægjusemi komu að luktum dyrum.

Þetta er ein af meginástæðunum fyrir hruninu og þarna liggur ábyrgð sem of fáir hafa gengist við. Viðhorfið, hegðunin og hugsunin sem fylgja óskum um ríkidæmi og draumsýn um að vera fremst þjóða er einfaldlega ávísun á hrun. Það er óneitanlega fífldirfska að beisla ekki kraftinn, reikna ekki út afleiðingar hegðunar og stemma ekki stigu við hömlulausri bjartsýni. Það er því engin ástæða til að draga úr ábyrgð þeirra sem réðu hvert hin svokallað þjóðarskúta sigldi.

ÁFÖLL SKÝRA MYNDIR

Við áföll kemur í ljós hvað hefur gildi í lífinu og samfélaginu. Sá sem lendir í lífsháska, uppgötvar oftast hvað hefur gildi og hvað ekki. Það sama átti sér stað með þjóðinni og hún sá skýrt hvernig samfélag hún óskaði sér og hrópaði á að gildin gagnsæi, ábyrgð, heiðarleiki, réttlæti, sjálfbærni og lýðræði yrðu efld og ræktuð.

Þjóðfundirnir voru framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf þjóðar til sjálfs sín og ný stjórnarskrá átti að vera veganesti fyrir nýja ráðamenn og þjóð með framtíðarsýn. Flest atkvæði á þjóðfundinum 2009 fengu gildin heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldan, jöfnuður og traust. Einnig voru menntun, bjartsýni, öryggi og mannréttindi ofarlega á baugi. Ástæðan var að sum þeirra höfðu verið alvarlega vanrækt meðal annars heiðarleikinn.

Þjóðgildin voru efld á marga lund á næstu árum, það kostaði baráttu, óhlýðni, byltingar og breytingar auk þess að takast á við andspyrnu græðginnar. Embætti sérstakts saksóknara er til dæmis tilraun til að leita réttlætis og ný náttúruverndarlög og rammaáætlun tilraun til að auka virðingu og efla sjálfbærni svo dæmi séu nefnd.

Samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika, réttlæti og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt lendir ekki í hruni, það tekur ekki áhættu sem er út fyrir öll endimörk alheimsins. Það hefur taumhald á græðginni, hrokanum og setur bjartsýninni mörk. Þjóð sem leggur sig ekki fram um að bæta hag annarra og heldur aðeins eigin hag fyllist hroka sem hrynur yfir hana að lokum.

KÆRLEIKURINN OG HRUNIÐ

thjodgildin_bokskuggiKærleikur var eitt þeirra gilda sem innri rödd þjóðarinnar nefndi eftir hrun en segja má að skeytingarleysi hafi verið ríkjandi í tíðarandanum fyrir hrun og sú færni að hremma bráðina á undan öðrum hafi oftast verið lofuð: að grípa tækifærin á undan varfærnum þjóðum og að kaupa á meðan önnur fyrirtæki eru að kanna hvort það sé góður kostur.

Kærleikurinn til annarra verður að teljast æðsta stig mannlegrar viðleitni: að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljug til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju af eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur. Gildið merkir elsku milli ólíkra hópa, ekki að taka heldur að gefa.

Sjálfselsk þjóð er á byrjunarreit. Engin þjóð er fullgild fyrr en hún finnur sér vettvang til að bæta heiminn. Hún þarf aðeins að velja hann og sinna honum af alúð í áratugi. Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (2010) til að skilja innri rödd þjóðarinnar og greindi þá dulda óbeit hennar á því að hrifsa og hremma og vera fremst þjóða – og kom auga á löngun hennar til að vera bara þjóð meðal þjóða og að geta gefið öðrum eitthvað: „ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin bls. 164). Getur það verið leiðarljós?

Þetta er sá kærleikur sem þjóðin vildi stefna að eftir hrun, hún nefndi hann skýrt og ritaði. En hvernig gengur? Kærleikurinn og hrunið verða í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20 þar sem Gunnar Hersveinn og Sigríður Guðmarsdóttir rýna í hugtakið og tengja það við samtímann. Næsta grein fjallar um það.

Tenglar:

Heimspekikaffi um kærleikann og hrunið

Bókin Þjóðgildin

 

Ekki – er allt sem þarf

Allt sem þarf til að bæta samfélagið er að fylgja örfáum reglum – og hver þeirra segir aðeins til um mörkin. Hvað við ættum ekki að gera: ekki beita ofbeldi, ekki gera öðrum það sem veldur manni sjálfum óþægindum og ógleði.

Reglurnar eru sammannlegar, þær eru óháðar öllum stefnum og kennisetningum, öllum trúarbrögðum og siðakerfum. Við getum prófað og gert ýmsar tilraunir en að lokum lærum við (vonandi) að gera ekki öðrum það sem við sjálf höfum ímugust á.

Reglurnar skapa friðsemd. Ofbeldið, illskan, hatrið, hefndin og heimskan tapa orkunni og lyppast ámátlega niður. Ein af þessum reglum heitir friðarreglan og hún er svo einföld að furðu sætir: „særið engan“. Hún hefur þó fylgt mannkyninu í gegnum aldirnar og birtst í stefnum og ýmsum trúarbrögðum þótt hún sé í eðli sínu fráls og óháð.

Reglan snýst um að hætta einhverju og að framkvæma ekki það sem veldur misklíð, usla, hatri, sársauka og dauða. Einnig mætti orða hana svona í stíl við víðkunna fullyrðingu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður EKKI, það skuluð þér og þeim EKKI gjöra.“ Ekki – er allt sem þarf!

Verkefnið snýst aðeins um aga og taumhald á sjálfum sér. Það er að minnsta kosti fyrra verkefnið. Síðari hlutinn er önnur einföld regla sem felst í því að gera eitthvað. Hún opinberar eitthvað sem gæti verið það fegursta í dýraríkinu: samlíðan, hjálpsemi, umhyggja, vinarþel.

Að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljugur til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju að eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur.

Meira um kærleika á kyrrðarstund Náttúrulækningafélags Íslands á mánudagskvöld kl 20.00

Kyrrðarkvöld NLFI

KÆRLEIKUR OG VISKA

Kærleikur er meira en dyggð, meira en tilfinning og meira en viðhorf. Hann birtist þegar væntumþykjan breiðist út fyrir innsta hring, líkt og vinarhönd sem teygir sig til ókunnugra.

Kærleikur er ekki sjálfgefinn heldur sprettur fram í samfélagi fólks sem hugsar ekki aðeins um eigin hag heldur annarra og ekki eingöngu samtíðarfólks heldur næstu kynslóðar. Augu kærleikans horfa úr höfði tímans en ekki stundarinnar. Þau sjá í gegnum holt og hæðir.

Ástarþrá hrífst af einstakri fegurð og vill girða svæðið sitt af. Kærleikurinn er víðsýnn, hann svífur yfir vötnum, dölum og fjöllum líkt og fugl. Hagsmunir hans eru ekki bundnir við einstaka bletti heldur vistkerfið allt, haf- og loftslagsstrauma.

Kærleikurinn hefur biðlund, hann hugsar sig lengi um en raskar ekki jafnvæginu í náttúrunni.

Tákn hans er fugl sem veitir ungum skjól undir vængjum sínum. Hann verpir ekki öllum (fjör)eggjum sínum í stakt hreiður og teflir hvorki auði sínum né annarra í tvísýnu vegna þrjósku eða augnabliksþarfar.

Andstæða kærleikans er tómleiki, tómt hreiður.

Viskan er það sem skynsemin leitar að, hún er ekki tímabundin tilgáta sem fellur úr gildi heldur má nema hana úr náttúrunni og samfélaginu. Hún blasir oft við þótt fáir taki eftir henni. Mælskulist hefur ekki áhrif á hana, ekki peningar eða tilboð.

Viskan safnast einfaldlega upp með tímanum og þótt hún geti glatast á milli kynslóða má grafa hana upp aftur. Hún er ekki tískusveifla.

Viskan er lík kærleikanum, hún er strengur á milli kynslóða og ráðlegging um umgengni við náttúruna. Hún mælir með varkárni og virðingu mannsins gagnvart náttúruöflunum.

Mannleg skynsemi er stundum sögð snauð og lík reiknivél en markmið hennar er þó ekki merkingarlaust: lífveran vill lifa en ekki deyja eða tortíma umhverfi sínu. Viskan mælir ekki með taumlausri velferð á kostnað annarra heldur jafnvægi allra hluta. Heimskan útrýmir á hinn bóginn og grefur undan framtíðinni með markalausri athafnasemi sinni.

Skynsemin og forvitnin þurfa því á öllum rannsóknum sínum og gagnasöfnun að halda og efla þarf hvers konar fræðslu og menntun um móður jörð. Viskan opinberast þó ekki fyrr en með tímanum, eftir yfirvegun og mat á reynslu kynslóðanna, því allt þarf að tengja saman til að heildarmyndin verði sýnileg.

Tákn viskunnar er vatnið, það er safn upplýsinga um lífið.

Andstæða viskunnar er tómið, uppþornað stöðuvatn.

Kærleikur og viska eiga samleið en andheiti þeirra beggja er tóm, tómleiki, eyðimörk og kuldi, það sem slitið er úr samhengi og einangrað.

Íslensk náttúra þarf líkt og öll náttúra á hnettinum á kærleika og visku að halda því þetta par er ekki múrað innan landamæra og girðinga stað- og tímabundinna hagsmuna. Þau eru lík fiskum sem þrífast best í heilbrigðu hafi og vatni og fuglum sem þurfa á heilnæmu lofti að halda, hvort sem það er í vestri, suðri, austri eða norðri.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi.

Stund tómlætis er liðin, tími væntumþykju og þolgæði hafinn.

Siðfræði jólanna í hnotskurn

Siðfræði jólanna er kærleikur, gleði, von, gjöf og friður.

Kærleikurinn merkir að líta náunga sinn geðmjúkum augum. Andstæða hans er öfund og að leggja fæð á aðra. Boð hans er að gera náunga sínum gott en ekki illt. Og hann gengur lengra því hann bræðir óvildarmenn með hlýhug sínum.

Gleðin klingir í eyrum þegar klukkurnar slá sex en þá gengur nýr dagur í garð. Við segjum gleðileg jól. Tákn hennar er klukkuspilið sem hringir inn jólin svo jafnvel verður glatt í döprum hjörtum.

Gjöfin er mikilsverður þáttur jólanna. Jólapakkinn er kraftbirting gjafarinnar, en sjálf er hún hugarfarið sem liggur að baki og hugurinn sem þiggur hana. En hvernig sem gjöfin er gefin þá er hún góð í eðli sínu. Hugtakið gjöf rúmar ekki illkvittni, því gjöf gefin af góðsemi hefur gæfu að geyma.

Friðurinn sprettur upp þegar ábyrgðarkenndin vaknar í hugum og hjörtum – og slekkur hefndarþorstann. Tákn hans er blóm eða hvít dúfa. Það eru ekki uggvænleg fyrirbæri.

Vonin er ósk og þrá og bæn, hún er grunur. Von er bjartsýni og hughreysti, en sá sem missir vonina kemst á vonarvöl. Von er bæn hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans sem getur ræst. Litur vonarinnar grænn og tákn hennar er fugl sem syngur í dimmunni fyrir dögun.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is