Greinasafn fyrir merki: k

Ekki – er allt sem þarf

Allt sem þarf til að bæta samfélagið er að fylgja örfáum reglum – og hver þeirra segir aðeins til um mörkin. Hvað við ættum ekki að gera: ekki beita ofbeldi, ekki gera öðrum það sem veldur manni sjálfum óþægindum og ógleði.

Reglurnar eru sammannlegar, þær eru óháðar öllum stefnum og kennisetningum, öllum trúarbrögðum og siðakerfum. Við getum prófað og gert ýmsar tilraunir en að lokum lærum við (vonandi) að gera ekki öðrum það sem við sjálf höfum ímugust á.

Reglurnar skapa friðsemd. Ofbeldið, illskan, hatrið, hefndin og heimskan tapa orkunni og lyppast ámátlega niður. Ein af þessum reglum heitir friðarreglan og hún er svo einföld að furðu sætir: „særið engan“. Hún hefur þó fylgt mannkyninu í gegnum aldirnar og birtst í stefnum og ýmsum trúarbrögðum þótt hún sé í eðli sínu fráls og óháð.

Reglan snýst um að hætta einhverju og að framkvæma ekki það sem veldur misklíð, usla, hatri, sársauka og dauða. Einnig mætti orða hana svona í stíl við víðkunna fullyrðingu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður EKKI, það skuluð þér og þeim EKKI gjöra.“ Ekki – er allt sem þarf!

Verkefnið snýst aðeins um aga og taumhald á sjálfum sér. Það er að minnsta kosti fyrra verkefnið. Síðari hlutinn er önnur einföld regla sem felst í því að gera eitthvað. Hún opinberar eitthvað sem gæti verið það fegursta í dýraríkinu: samlíðan, hjálpsemi, umhyggja, vinarþel.

Að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljugur til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju að eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur.

Meira um kærleika á kyrrðarstund Náttúrulækningafélags Íslands á mánudagskvöld kl 20.00

Kyrrðarkvöld NLFI

Deila