Greinasafn fyrir merki: karpsemi

Karpsemi Íslendinga

Hefur þjóðaratkvæðagreiðslan um ICESAVE samninginn reynst góð æfing fyrir Íslendinga í gagnrýnni hugsun – eða ekki?

I. Skoðanir
Umræðan um já eða nei við ICESAVE samningnum er öll í flækju vegna þess að það er búið að blanda saman mörgum tegundum raka: lögfræðirökum, hagfræðirökum, nytjarökum, siðfræðirökum og tilfinningarökum. Rökræða þyrfti málin út frá öllum þessum flokkum og meta svo heildarniðurstöðuna.

Niðurstaðan úr lögfræðirökræðu getur verið að segja beri nei við samningnum en niðurstaðan úr siðfræðirökræðu getur verið sú að segja beri já. Nytjarökræðan getur orðið já og tilfinningarökræðan nei. Verst er þegar tveir tala saman (deila) en beita ólíkum tegundum raka. Þeir eru alls ekki að tala saman.

Gagnrýnin hugsun hlustar, hún greinir, hún vegur og metur, hún efast, hún rífur niður en hún byggir upp aftur. Hún hugsar málið og skapar sér heimavöll. Andstæða gagnrýnnar hugsunar er þrjóska, fordómar, trúgirni, hleypidómar. Umræðan um samninginn einkennist fremur af öðru en leitandi gagnrýnni hugsun, hún er oftar merkt mælskulist, hræðsluáróðri og þrjósku.

Engar skoðanir eru heilagar og við þurfum að gera ráð fyrir því að hafa rangt fyrir okkur. Það er skylda manns að leggja sig í framkróka við að öðlast réttar skoðanir og leita að góðum og gildum rökum fyrir þeim. Það er ekki skylda að sannfæra aðra – en umræðan virðist fyrst og fremst snúast um það.

Hvernig myndar maður sér skoðun og hvaða rök eru færð fyrir henni? Hvers vegna ætti maður yfirleitt að taka þátt í umræðum? Fyrsta stigið er að leita að eigin skoðunum, finna þær og máta við aðrar skoðanir. Það hlýtur því að vera mikilvægt að vera með réttar skoðanir – þótt engin algild vissa sé til og aðeins túlkun á brotakenndum staðreyndum.

II. Karpsemi
Karp er að takast á um niðurstöðu óháð því hvort hún er rétt eða góð eða ekki. Karpsamur maður masar þangað til aðrir þagna. En ef hinn karpsami sér sitt óvænna, rýkur hann á dyr og skellir á eftir sér.

Hinn karpsami Íslendingur hefur enga trú á að rökræður veiti heillavænlega niðurstöðu. Hann treystir á síbylju fullyrðinga. Réttlæti er ekki áhyggjuefni þar sem karpyrðin fjúka. Allt karp er lagt á að sigra andstæðinginn. Hann segist vera að hugsa um komandi kynslóðir en er aðeins að hugsa um eigin hag.

Hinn röksami leitar að ástæðum og vill rekja málið í rólegheitunum til að skilja það. Hinn karpsami gerir á hinn bóginn engan greinarmun á efni og ástæðum eða tegundum raka. Hann stefnir aðeins að því gefast ekki upp og hann lítur á það sem dugnað að halda það út. Hann hefur þá grillu í höfðinu að það sé veikleikamerki að skipta um skoðun.

Karp nýtur virðingar í samfélaginu, því er ekki úthýst í fjölmiðlum né á Alþingi. Hinir karpsömu eru oftar en aðrir boðaðir í viðtalsþætti. Dag eftir dag, ár eftir ár í tíma og ótíma mætast menn í sjónvarpi og útvarpi og karpa sín á milli, þræta og þrefa. Of margir Íslendingar hlusta á sömu setningarnar aftur og aftur með þóknun og vanþóknun í stað þess hvíla eyrun og nota hugann. Hús þar sem menn safnast saman til að leita sátta í vinnudeilum er nefnt Karphúsið.

Hinn karpsami Íslendingur segir skoðun sína með nokkru gorti. Honum er svarað en hann hlustar ekki og segir skoðun sína enn á ný. Við hittum hann ári síðar og enn ítrekar hann sömu skoðun, enginn hefur megnað að hafa áhrif á hann. Þessi skoðun er annars vegar upprunnin í leti og hins vegar í ótta. Letinni að nenna ekki að brjóta heilann um orð annarra. Óttanum um að vera berstrípaður: að hljóma eins og tóm tunna.

Hinn karpsami kveikir villiljós svo að menn vita ekki hvort það er nótt eða dagur, fagurt eða ljótt, hættulegt eða farsælt. En sá sem leitar raka og tekur þátt í rökræðum þarf ekki að kvíða niðurstöðunni því hann sjálfur er ekki aðalatriðið. Þráttarinn berst hins vegar eins og ljón því hann telur að málið snúist um sig sjálfan.

Sá sem rexar og pexar óttast að verða undir. Hann leggur ekki líf sitt í hættu til að verja málfrelsi annarra. Markmið hans er ekki að skilja til að breyta, heldur að ráða eða komast undan.

III. Sjálfstæð hugsun
Það er puð og púl að hafa gildar skoðanir. Við þurfum að afla okkur vitneskju um það sem við ætlum að hafa skoðun á og fylgjast vel með. Kynna okkur málin, afla gagna sem byggja má á og reyna að draga réttar ályktanir. Þekking er ævinlega sönn en skoðanir okkar eru túlkun sem stjórnar því hvort við notum þekkinguna til góðs eða ills og líka hvernig við öflum hennar.

Allar skoðanir þarfnast rökræðu og aðferðin til að öðlast bærilega réttar skoðanir er að beita gagnrýninni hugsun. Efast og rýna í hlutina sjálf en hlusta þó vel á mótrökin. Það er óendanlega miklu flóknara að hafa rétta skoðun en þekkingu. Því þekking skipast á bás vissunnar en skoðun á bás óvissunnar.

Of margir spana áfram af þrjósku og fordómum. Of margir treysta á kenningar annarra en í raun eru þær aðeins molar til að vega og meta, hafna eða nota til bráðabirgða. Ekkert er sjálfgefið, allt þarf að brjóta til mergjar. Sjálfstæð hugsun leitar að almennum mælikvarða á mannlega breytni, en ekki valdi til að hygla – eða slá einstaka menn vandarhöggi.
Sjálfstæð hugsun felst í að taka upplýsingum með varúð. Hún hefur efann að vopni. Maður með sjálfstæða hugsun hlustar á kenningar og svör en trú hans er ekki gefin. Hann veit að hann getur engum treyst nema sjálfum sér og hann leggur mál sín undir dóm gagnrýninnar hugsunar. Hann skilur að þrjóska og fordómar lenda í öngstræti heimskunnar.

IV. Þjóðaratkvæðigreiðslan
Þjóðaratkvæðigreiðslan um ICESAVE samninginn árið 2011 hefur ekki reynst góð æfing í rökræðu og gagnrýnni hugsun. Hún hefur gert gallana í íslenskri umræðuhefð óvenju skýra og nánast klofið þjóðina í herðar niður. Of margir hafa beitt hræðsluáróðri í málflutningi sínum og kjarni málsins virðist týndur og tröllum gefinn.

ICESAVE samningurinn reyndist of djúp laug. Við stukkum af rökbrettinu og stungum okkur til sunds en komum ekki upp aftur – ekki enn.

www.lifsgildin.is
*birt á www.smugan.is 8. apríl 2011