Greinasafn fyrir merki: Lýðræði

Fjölhyggja – hvað er að frétta?

Við erum ein fjölskylda.
Við erum ein fjölskylda.

Hvernig samfélag viljum við vera? Hvað með fjölhyggjusamfélag? Einhyggja gerir ráð fyrir að allt sé af einu tagi og tvíhyggja að frumþættir tilverunnar séu af tvennum toga og óskyldir, til dæmis andi og efni. Fjölhyggja er aftur á móti afstaða sem gerir ráð fyrir að veruleikinn sé fjölþættur. Hver er hún?

Nafn hennar er fjölhyggja. Hugsjón hennar felst í því að fólk, sprottið úr margvíslegri menningu, búi og starfi saman á jafnréttisgrundvelli. Margbreytileiki, fjölhæfni, fjölmenning, fjölbreytni og marglyndi eru auðlindir mannlífsins. Múrar hrynja og landamæri þurrkast út þar sem tíðarandi fjölhyggju ríkir.

Sérkenni fjölhyggju felst í því, ólíkt trúarbrögðum og öðrum lífsskoðunum, að sá og sú sem aðhyllist hana er ekki bundin kennisetningu. Enginn páfi eða forstöðumaður,  engin skrifstofa eða söfnuður, siðir eða venjur geta lagt hana undir sig eða eignað sér hana.  Enginn ótti eða erfðasynd getur eyðilagt hana. Hún er óáþreifanleg og sá sem hyggst rannsaka hana finnur fátt eitt og sennilega ekki neitt, að minnsta kosti enga spámenn eða helgirit. Fjölhyggja er merkt efasemdinni sem brennir upp stöðluð svör.

Fjölhyggjupersóna trúir fáu og efast um flest en er þó hvorki eirðarlaus né sundurlynd eins og spá mætti um. Hún hafnar ekki lífsgildum eða ljósum. Hún hefur alls ekki orðið firringunni að bráð og það sem kemur flestum í opna skjöldu er að hún er ekki óhamingjusöm.

Laus undan ánauð

Vilji hennar er laus undan ánauð kennivaldsins. Hún nemur öll trúarbrögð og lífsskoðanir og gerir sér fyllilega grein fyrir því að ekkert getur verið alrétt eða allur sannleikurinn. Hið algilda, í hennar augum, er falið í fáum siðaboðum um að rækta líf, særa engan, gefa öðrum og verja gæði. Hún stígur inn í hringinn og horfist í augu við alla sem sitja við hringborðið.

Fjölhyggjan felur í sér allt það sem reynist vel og er farsælt hjá öðrum. Hún er hluti af öllu en er ekkert sjálf nema vítt sjónarhornið. En hún birtist alls ekki þar sem aðskilnaður og kúgun eiga sér stað. Hún rúmar miskunn og kærleika, umhyggju og virðingu, skynsemi og visku, vísindi og sköpun en ekki ofbeldi.  Fjölhyggjumanneskja hefur ímugust á ofríki, yfirgangi og hroka.

Fjölhyggja á heima þar sem enginn ætlar sér að drottna yfir öðrum, hún er samkomulag sem skapar ramma þeirra sem koma víða að og vilja búa við mannúð. Enginn þarf að skipta um nafn eða klæði, trú eða skoðun. Fjölhyggjufólk skrifar fúslega undir fullyrðinguna:

„Allir eru jafnbornir til virðingar og óafsalanlegra réttinda sem eru undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“

Fjölhyggjumanneskjan vill alls ekki leggja heimsmyndir undir sig heldur býst hún við að lifa í fjölskrúðugri menningu ólíkra trúarbragða og annarra lífsskoðana. Hún þrífst ekki án annarra. Fjölhyggjan á sér enga sérstaka fylgismenn, leiðtoga eða guði sem brenna í skinninu og enginn myndi halda í stríð í hennar nafni.

Fjölhyggjan þrífst best í samfélagi mannréttinda og virðingar þar sem allir búa saman án aðskilnaðar. Það er enginn áberandi kraftur í fjölhyggju enda er mælikvarði hennar friðsemd. Ef til vill er hún aðeins hugarástand, að minnsta kosti verður hún ekki handsömuð og hún er ekki yfirlýsingaglöð. Enginn ofríkismaður gæti beitt henni fyrir sig, því hún þarf á öllum að halda.

Andhverfa hennar er tvíhyggjan sem er hækja þeirra sem vilja flokka eftir eigin höfði í æskilegt og óæskilegt, gott og vont, rétt og rangt út frá eigin hagsmunum og viðmiðum. Átakamenningin er afurð tvíhyggjunnar; að skipa sér í flokk, að vera með eða á móti, fylgja hægri eða vinstri. Tvíhyggjuflokkun felur í sér mismunun, stéttarskiptingu og útilokun sjónarmiða. Veruleikinn er fáskrúðugur og skakkur í tvíhyggjukerfi.

Fjölhyggjumanneskja getur sprottið upp úr margskonar jarðvegi. Hún getur tilheyrt hópum en hún veit að lífsskoðanir þeirra eru ekki æðri eða betri en annarra. Fjölhyggja er ekki afstæðishyggja þar sem fólk býr saman í óvissu og myrkri heldur vísa leiðarljós samlyndis upp vegina á milli ólíkra hópa. Hún býður þó engin laun, engan sigur á dauðanum eða vafalaus svör við tilverunni. Það sem gerir hana eftirsóknarverða er sambandið og samkenndin sem getur myndast á milli hópa. „Hvernig heimur viljum við vera?“

Fjölhyggja er einkenni víðsýnnar þjóðar.

Hún hengir sig ekki í smáatriði og festir sig ekki í einni kenningu, því það er sama hvaðan gott kemur. Hún velur það sem nýtist flestum, jafnvel þótt það komi úr óvæntum áttum. Slík þjóð er frjálslynd í fasi – og virðing er dyggðin sem situr í öndvegi.

Lífið verður ævinlega ráðgáta og að til eru margar lausnir og lyklar sem ganga að mörgum sögum.

© Gunnar Hersveinn, 2017.

Deila

Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni

GHFI23

Ný bók eftir Gunnar Hersvein og Friðbjörgu Ingimarsdóttur um öfluga borgararvitund er komin út.

Bókin Hugskot er handbók fyrir alla sem vilja taka þátt í baráttunni fyrir betra samfélagi. Umfjöllunarefninu er best lýst með hugtakinu gagnrýninn borgari sem felst í því að kunna skil á mannréttindum, vera læs á samtímann og þora að mótmæla.

Markmiðið er að efla kunnáttu og færni lesenda í að skyggnast inn í eigið hugskot, beita gagnrýnni hugsun ásamt því að greina ímyndir, fordóma, texta og skilaboð í samfélaginu.

hugskot9

Höfundar Hugskots hafa áralanga reynslu af starfi sem tengist efni bókarinnar, meðal annars sem kennarar og ráðgjafar. Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra er með MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun og er sjálfstætt starfandi fræðikona í ReykjavíkurAkademíunni. Gunnar Hersveinn rithöfundur er menntaður í heimspeki og blaðamennsku og höfundur nokkurra bóka, þar á meðal metsölubókarinnar Gæfuspor – gildin í lífinu.

Hugskot er bók um gagnrýna hugsun, flokkanir, staðalímyndir, fordóma, jafnrétti, friðarmenningu og borgaravitund gefin út af IÐNÚ. Teikningar: Sirrý Margrét Lárusdóttir. Umbrot og hönnun: Bjarki Pétursson.

Tenglar

Facebooksíða

Iðnú – kaupa bók

Gagnrýnir borgarar mótmæla

Lýðræðið eftir kosningar

Lýðræði er eitt af þjóðgildunum. Gestir á þjóðfundunum 2009 og 2010 völdu lýðræði. Íslendingar eru óánægðir lýðræðissinnar vegna þess að þeim hefur ekki líkað fáræði formanna stjórnmálaflokkanna. En eina leiðin til að breyta ríkjandi fáræði er að taka þátt í lýðræðinu.

Kosið var til stjórnlagaþings laugardaginn 27. nóvember og svo virðist sem þátttaka í kosningunum hafi verið undir 40%. Skiptir það máli? Allir vissu af kosningunum, öllum gafst kostur til að kjósa, fólk var hvatt til að kjósa, enginn skortur var á frambjóðendum.

Hvert atkvæði í opinberum kosningum er brot af valdi almennings. Flestir er sammála því um þessar mundir að valdið sprettur úr grasrótinni. Valdið býr í þjóðinni og hún veitir fulltrúum sínum sem hún velur í kosningum tímabundið leyfi til að vara með valdið. Hlutverk fjölmiðla er síðan að fylgjast með því hvernig valdhafar hverju sinni fara með fé, eigir, land og önnur dýrmæti þjóðarinnar. Hlutverk fjölmiðla er að skapa aðstæður fyrir upplýst almenningsálit. (Það tókst ekki að þessu sinni.)

Þrátt fyrir það þarf hver og einni kjósandi að efast og beita gagnrýnni hugsun, því svo óendanlega margir vilja hafa áhrif á skoðanir hans og hegðun. Hvað hann kaupir, hvert hann fer og hvað hann velur í kosningum.

Kosningarnar til stjórnlagaþings voru nýjung á Íslandi. Valmöguleikarnir voru fleiri. Það voru persónukosningar en samt voru frambjóðendur meðhöndlaðir sem hjörð í fjölmiðlum. Kosningarnar voru talaðar upp og þær voru talaðar niður. Möguleikar kjósenda til að kynna sér það fólk sem þeim leist vel á voru þrátt fyrir fjöldann talsverðir. (Ekki þó í sjónvarpi).

Í bók minni Þjóðgildin er fjallað um lýðræði, þar segir meðal annars: „Lýðræði er aðferð til að laða fram visku fjöldans. Lýðræði er samræða þar sem leitað er heillavænlegra leiða til að halda áfram. Lýðræði krefst sterkrar vitundar borgaranna um gildin í samfélaginu. Lýðræði er aðferð sem krefst alls hins besta í samfélaginu. Það krefst umhugsunar, tíma og gaumgæfilegra athugana, gagnsæis, virðingar og umfram allt náungakærleika. “

OF MARGIR Í FRAMBOÐI?

Ég hef alls ekki tapað trú á lýðræðisást landsmanna þrátt fyrir að kosningaþátttakan núna hafi verið undir 40%. Aðrir þættir spila hér sterkt inn í. Hér tilgáta 1. Valkostirnir voru of margir, 552 í stað tveggja til átta eins og venjulega. 2. Persónukosningar þar sem hver og einn var aðeins hluti af hjörð. 3. Fjölmiðlar og almenningur hefði þurft meiri tíma og fleiri lausnir, jafnvel forkosningar (frambjóðendur í nútímasamfélagi verða nauðsynlega að fá tækifæri til að koma fram í sjónvarpi).

Lýðræðið þarf vettvang þar sem viska fjöldans getur brotist upp á yfirborðið. Almenningur er sterkasta aflið en hinn útvaldi er veikasti hlekkurinn. Það eru engin ofurmenni til, þau eru ekkert nema almenningur gefi þeim styrk. Sköpum fremur aðrar aðstæður og andrúmsloft. Fjölmiðill á aðeins og einungis að vera vinur borgarana, almennings og þjóna engum öðrum!

Lýðræði á sín mörk eins og allt annað.  Mannréttindi eru t.a.m. mörk lýðræðis. Of fáir valkostir eða of margir geta einnig varðað mörk lýðræðis. En hvað um það: Höldum áfram að vinna að lýðræði á Íslandi! Nemum ekki staðar! Fögnum góðum lýðræðistilraunum!

Eitt er alveg víst: þau sem taka þátt, þau velja, þau ráða framtíðinni.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Gamla og nýja valdið

Nýr tíðarandi er á næsta leiti. Hann verður ekki líkur þeim sem var og ekki heldur þeim sem ríkti þar á undan. Það er vandasamt að vinna að þessari heimsmynd því hún er viðkvæm, auðvelt er að sniðganga hana og margir eru á móti henni. Gamla valdið berst gegn þessum nýja anda og fær ýmsa í lið með sér.

Nýr tíðarandi krefst gagnrýnnar hugsunar í stað karps. Í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur: „Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð.“ (13, 2010). Skýrslan var samþykkt á Alþingi. Nú þarf að vinna þessu brautargengi og finna leiðir framhjá margskonar hindrunum.

Vissulega er holóttur vegur framundan í þeirri viðleitni að skapa nýtt og öflugt lýðræði. Gamla valdið fellir tré yfir vegi, kemur upp tálmunum, lokar vegum … Frambjóðendur til stjórnlagaþings finna það til að mynda á eigin skinni. Þeir hljóta að teljast einhvers konar grasrót, eða mögulegt nýtt vald, andspænis gamla valdinu: yfir fimmhundruð karlar og konur eru reiðubúin til að taka þátt í endurskoðun stjórnarskrár, leggja sitt af mörkum og móta sýn fyrir framtíðina. Áhrif hefðbundinna valdastofnana á væntanlega þingmenn er þverrandi og því er gamla valdið óttaslegið.

Verkefnið á stjórnlagaþingi felst í samræðu og rökræðu, þar sem skipts er á skoðunum og tilraun gerð til að taka heillvænlegar ákvarðanir fyrir almenning. Þingið hefur niðurstöður þjóðfundar til hliðsjónar og upplag stjórnlagaþingsnefndar en ekki fyrirskipanir frá foringjum stjórnmálaflokka. Þingið á að vera opin lýðræðisleg samræða í samræmi við nýjan tíðaranda. Þarna má greina vísi að nýju valdi og það vekur mörgum valdamönnum ugg í brjósti.

Stjórnlagaþing er nýjung á Íslandi. Hefðbundin, vanabundin hugsun bregst illa við. Um þessar mundir fá frambjóðendur sendar fyrirspurnir frá fjölmiðlum og öðrum sem eiga það sammerkt að vera tilraun til að flokka þá í kvíar. Ert þú með eða á móti? Já eða nei? Ekki er gert ráð fyrir samtali eða samráði eða visku, aðeins einlínu afstöðu.

Eftir stjórnlagaþing verða vonandi gerðar rannsóknir á umfjöllun hefðbundinna fjölmiðla í aðdraganda þingsins. Þar mun líklega koma fram að fjölmiðlar ræddu aðeins við sérfræðinga um þingið og höfðu sérlega gaman af því að flokka frambjóðendur í kvíar. Fáskrúðug lýðræðisleg umræða, engin gagnrýnin hugsun, aðeins flokkunarárátta hugans sem styður hið gamla og „æskilega“ vald.

Frambjóðendur birtast núna í helstu fjölmiðlum landsins sem ein hjörð sem var svo „djörf“ að bjóða sig fram til að byggja upp annað Ísland en það sem nú hopar á hæli. Frambjóðendum er hvarvetna stillt upp eins og einsleitum vefhópi og gefst ekki tækifæri til að skiptast á skoðunum sín á milli eða ræða við almenning.

Ég býst við því að fram að kosningum 27. nóvember muni fátt koma fram í fjölmiðlum, um þetta mál, sem hefur það markmið að skapa upplýst almenningsálit, þótt það sé meginhlutverk fjölmiðla. Við munum sjá enn fleiri aðferðir til að raða frambjóðendum á bása í stað gefandi umræðu um mikilvæg málefni. Fleiri já eða nei, með eða á móti. Meira af fávisku, minna af visku.

Umræðuhefðin á Íslandi er eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast um leið og skipt er um tíðaranda. Markmiðið með umræðu er að finna líklegan veg til farsældar en ekki að sigra í kappræðu eða gæta sérhagsmuna. Núna hlaupa menn næstum undantekningarlaust í vörn og sókn þegar mikilvæg mál bera á góma. Það er úrelt aðferð, tökum ekki þátt í henni.

Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi. Hlustum!

Næsti tíðarandi verður, ef við viljum, fjöllyndur, hann gefur ekki eyðileggingunni undir fótinn. Hann lyftir því sem hefur gildi. Hann teflir ekki fram einni lausn, heldur mörgum. Hann verður mildur. Hann er ekki draumur, heldur raunhæfur möguleiki sem nú þegar breiðist út …

Þegar úrelt hugsun á fjölmiðlum líður undir lok mun ný aðferð felast í því að beita uppbyggilegri gagnrýni, greina, skýra og miðla á faglegan hátt. Aðferðin er í raun ekki ný heldur felst nýjungin í því að leyfa henni að lifa.

Lýðræðið hefur spillst og engir geta hreinsað út nema borgararnir sjálfir. Sjálfboðaliðar úr hópi borgaranna verða að fá áheyrn fjöldans og leyfi til að breyta kerfinu. Verkefnið felst í því að endurskapa samfélagið, ekki að smiða hindranir með úrtölum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Viska þjóðarinnar býr innra með henni. Hún verður ekki þvinguð fram heldur stígur hún fram sjálf við kjöraðstæður. Sköpum þær!

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is