Greinasafn fyrir merki: Náttúra

VÆNTUMÞYKJA GAGNVART NÁTTÚRUNNI

12_vef_feb_heimspeki_visitGildin í lífinu eru dyggðir, tilfinningar og viðhorf sem við lærum og æfum til að verða betra fólk. Gildin í samfélaginu eflum við og styrkjum til að gera samfélagið betra. Við reynum á sama tíma að kveða niður brestina, heimskuna, grimmdina og eyðileggingarmáttinn sem knýr á.

Gildin í náttúrunni felast í því að bæta samband mannverunnar við náttúruna, efla með okkur virðingu og ábyrgðarkennd gagnvart henni.

Segja má að samband mannveru við náttúruna sé í uppnámi um þessar mundir og verkefnið framundan felist í því að finna jafnvægi og farsæla braut. En hvernig má vinna að því?

Siðfræði náttúrunnar fjallar ekki aðeins skilgreinda mælikvarða um rétt og rangt, góða og ranga hegðun gagnvart náttúrunni heldur einnig um að rækta væntumþykju, virðingu og vinsemd: að finna gleði þegar sambandið styrkist, að bera virðingu fyrir heilbrigðri náttúru og að verða dapur sambandinu er raskað.

Mannveran er hluti af náttúrunni og ætti því að geta ræktað væntumþykju gagnvart henni, og ef það tekst, vex virðingin gagnvart auðlindum hennar og viljinn til að öðlast þekkingu á henni og umgangast af varkárni. En ef hlýjan hverfur, þá hverfur blíðan líka.

Það gæti verið ósnert víðerni, það gætu verið heimkynni dýra, það gæti verið heilt vistkerfi, það gæti verið gróðurlendi, fossaröð, fornt stöðuvatn, tiltekið landslag og það gæti verið háhitasvæði í hættu gagnvart mannlegu kuldakasti.

Mannskepnan gortar oft af því að vera eina siðræna veran á jörðinni, en það er ofsögum sagt , því hjá ýmsum dýrahópum má greina siðrænt atferli eins og umhyggju, samkennd, virðingu, ábyrgð, sorg, hópkennd, hjálpsemi og einnig fórnfýsi. Íslendingar ráðstafa ekki landsvæðum undir orkunýtingu einungis af siðrænum ástæðum eða vegna ábyrgðarkenndar, heldur af hagrænum ástæðum og vegna búsetuskilyrða.

Voðinn er vís ef strengurinn milli manns og náttúru slitnar og sambandið verður firringu að bráð, ef mannveran setur sig á háan hest og geymir sér yfir náttúru á korti á teikniborði.

 

NÁTTÚRAN Á TEIKNIBORÐINU

Áhuginn og krafturinn fer oft allur í það að bæta efnahaginn líkt og ekkert annað vegi þyngra í þessum heimi. Okkur hættir stórlega til að ofmeta hagkerfið og vanmeta vistkerfið. Við gerum ráð fyrir hagvexti án endimarka og sköpum okkur líferni án samhengis við náttúruna, líkt og hún sé til ekki hluti af okkur. Við fórnum vistkerfi fyrir hagkerfi víða um Jörð, vegna þess að það virðist henta okkur um hríð.

Náttúrusvæði á fullnýttu Íslandi flakka nú á milli orkunýtingarflokks, biðflokks og verndarflokks. Við flokkum, leikum okkur og náðum svæði eða nýtum, án virðingar og vinsemdar. Við segjum:
„Við náðum þig Neðri-Þjórsá!“ „Við náðum þig Dettifoss – í bili! Þú átt það ekki skilið en það hentar okkur núna, þú varst á dauðalistanum en við náðuðum þig “ „Við ónáðum þig Urriðafoss og við tökum þig af lífslistanum Dynkur – þú verður ekki lengur til – nema undir okkar stjórn.“

Þessar setningar hljóma undarlega en staðan er jafnvel verri. Tæplega níutíu svæði á Íslandi eru kölluð virkjanakostir sem mögulega verður þá raskað og nýttir til orkuframleiðslu. Náttúran liggur berskjölduð á teikniborðinu og henni á að raska til og frá – eða ekki, svæði sem voru í verndunarflokki flytjast óvænt í nýtingarflokk og jafnvel svæði í þjóðgörðum – allt eftir duttlungum og hagsmunasamningum.

Nýlega dró Orkustofnun til baka þrjá virkjanakosti af 50 sem búið var að senda til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar. Ástæðan var sú að stofnunin notaði ekki nýjustu kort af Vatnajökulsþjóðgarði við vinnslu á virkjunarkostunum. Þessi vandræðalegi gjörningur vakti grun um sambandsrof mannsskepnunnar við náttúrusvæðin.

 

SKEYTINGARLEYSIÐ ER ÓVINURINN

Skeytingarleysi mannsins er versti óvinur náttúrunnar, umhyggjuleysi, andvaraleysi og kæruleysi. Að vera sama um víðernin, að vera sama um miðhálendi Íslands og að líta aðeins á það með virkjun í huga er landinu okkar stórhættulegt. Að láta land sem er mótað af eldvirkni og jöklum, samspili elds og íss í árþúsundir, vera háð tímabundnum hagsmunum virkjanasinna, er ekki vitnisburður um virðingu. Það er vítavert ástleysi.

„Hálendi Íslands, hjarta landsins, er eitt stærsta landsvæði í Evrópu, sunnan heimskautsbaugs, sem hefur aldrei verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“ (Landvernd).

Ákvörðun um að hrinda virkjanakosti í framkvæmd styðst ekki einungis við rök um aukin atvinnutækifæri, tekjur, búsetuskilyrði og viðskipti. Ákvörðun um virkjanakost þarf fyrst og fremst að setja í samhengi við náttúruna, landslagsheildir, lífríki og vistkerfi sem varasamt er að raska. Hvað merkir þessi „kostur“ í stóra samhenginu?

Enn eru sterkar líkur eru á því að alvarleg óafturkræf slys verði gerð í gegndarlausri ásókn í óviðjafnanleg verðmæti sem íslensk náttúru geymir. Af þeim sökum þarf nauðsynlega að efla og rækta gildin í náttúrunni með mannfólkinu. „Efla tengsl fólks við landið, þekkingu og samvinnu landsmanna með auknum almannarétti,“ eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðaði það, „að varðveita fegurð fjölbreytileikans í náttúru landsins og vatnafari Íslands.“ (Vatnið í náttúru Íslands).

Gerum ávallt ráð fyrir harðri baráttu gegn ásókn í náttúruauðlindir.

 

SAMBANDIÐ EKKI AÐEINS VITRÆNT

Og sambandið við náttúruna er dýpra. Við glímum við rök og sjónarhorn til að skilgreina mörk og til að kanna möguleika en væntumþykja gagnvart landinu felur einnig í sér víðtækara samband, til dæmis þegar taugakerfið og hugurinn nemur fegurðina, þegar einstaklingur stendur agndofa og orðlaus gagnvart óvæntri hrikafegurð. Sambandið við náttúruna er því ekki einungis vitrænt, hagrænt, siðrænt, það er einnig af öðrum toga.

Siðfræði náttúrunnar snýst ekki einungis um rannsókn á boðum og bönnum, dyggðum og löstum og verðmætum heldur einnig fegurð og væntumþykju. Sambandið við náttúruna er oftast smækkað niður í eitthvað skiljanlegt en sambandið er alls ekki alltaf hversdagslegt heldur byggist það einnig á upphafningu andans. Við hrífumst og andinn lyftist upp og dýpri merking tilverunnar opinberast. Þessar stundir veita fólki kraft til að lifa af meiri ákafa og fyllast þakklæti. En þetta undur gerist sennilega æ sjaldnar því maðurinn hefur aldrei fyrr verið svo fjarlægur heimkynnum sínum, náttúrunni.

Verkefnið framundan er margþætt en meðal annars er brýnt að rækta væntumþykju gagnvart náttúrunni. Frekari pælingar um þessa væntumþykju verða á næsta heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. febrúar en þá mun Gunnar Hersveinn rithöfundur tengja saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru og Ásta Arnardóttir leiðsögukona og yogakennari segja frá gönguferðum þar sem fléttað er saman yoga og göngu um hálendisvíðernin ásamt fræðslu um yogavísindin og hvernig þau endurspegla dýpri lögmál náttúrunnar.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Tenglar

Náttúrukortið – Framtíðarlandið

Landvernd – hjarta landsins

Orkustofnun – frétt

Heimspekikaffi – gildin í lífinu og yoga í fjallasal

Meira um siðfræði náttúrunnar

Deila

Náttúrugildi, tækni og hraði

islandGildin í náttúrunni voru í brennidepli í sólstöðugöngu í Viðey 21. Júní 2014. Gunnar Hersveinn hélt tölu undir berum himni og tengdi saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru sem ef til vill er gott að hafa í huga í sumar.

1. NÁTTÚRUVERNDARI

Það er skylda náttúruverndara að veita aðhald, upplýsa og skapa umræðu gagnvart verkefnum sem skaða meira en þau bæta. Það er ekki aðeins lofsverð hegðun að gera það heldur skylda sem krefst oft hugrekkis og hugkvæmni. Verkefnið er það viðamikið um þessar mundir að það krefst verkaskiptingar, sumir upplýsa, aðrir skapa umræðu og þriðji hópurinn stundar aðhald með mótmælum.

Náttúruverndarar myndu ekki áorka miklu án mótmæla. Hlutverk þeirra er m.a. að standa vörð um villta náttúru. Maðurinn hefur raskað svo yfirþyrmandi mörgu í náttúrunni að það sætir furðu að hann skuli enn sífellt finna nýja staði til að manngera. Jafnvel ósnortin strandlengja, fjörður án þverunar, eyja og vegalaust hraun er á teikniborðinu líkt og hið náttúrugerða sé ekki nógu mikils virði.

Hlutverk náttúruverndara er einnig að kenna og efla virðingu gagnvart landslagi, stöðum, heimkynnum annarra og gagnvart náttúrunni allri, jafnt smáu sem stóru og út frá mörgum sjónarhornum. En dyggð er siðferðilegur eiginleiki sem hægt er að æfa með bóklegum og verklegum lærdómi.

2. FRIÐSEMD

Starf friðsemdar í náttúru Íslands snýst oft um að bjarga verðmætum undan eyðileggingarmætti græðgi og heimsku. Hún þarf sífellt að forða gersemum undan, hindra, stöðva, afla fylgis, afhjúpa og opna augu annarra. Tími og orka friðsemdar fer í björgunarstarf en miklu meira býr í henni – aðeins ef fólk gæfi henni tækifæri til að blómstra.

Friðsemdin beitir ekki aðferðum ofbeldis og eyðileggingar. Hún græðir og byggir upp. Hún getur verið kröftug sem dínamít en hún kúgar aldrei. Hún getur verið beittur penni og orðhvöss tunga en þrátt fyrir það eru sérkenni hennar vinsemd og sátt. Hún nemur ekki staðar, hún heldur áfram og einkenni hennar eru víðsýni og innsýn í betri framtíð.

Hún getur staðið fyrir kröftugum mótmælum og einnig byltingum. Hún getur bundið sig með keðjum á stórvaxnar vinnuvélar eyðileggingarinnar. Hún er fangelsuð víða um heim af hræddum kúgurum í nafni lyginnar. Hún hrópar og hún skammar – en hún er ekki flagð undir fölsku skinni eins og mótherji hennar.

Friðsemd er höfuðdyggð náttúruverndara. Framtíðarvelferð lands og þjóðar, vitundin um velferð næstu kynslóðar, vistkerfis og lífríkis knýr hana áfram. Þaðan fær hún orkuna. Hún skapar ekki óvild og vekur ekki upp hatur heldur hvetur til umræðu á jafnræðisgrunni.

Friðsemdin er engin lydda, hún er óstýrilát gagnvart kúgandi valdi. Hún er sjaldan í fréttum því aðferð hennar felur ekki í sér ógn eða sigur, ekki kænsku eða dauða. Samt er hún bylting.

Við erum ekki aðeins, íbúar í borg, bæjum og sveitarfélögum. Við erum einnig staðurinn, landslagið, umhverfið og náttúran öll.

3. BIÐLUND

Við stöndum í biðröð eftir einhverju eða bíðum í röð á símalínu. Við bíðum eftir tíma, bíðum eftir að fá aðgang eða inngöngu eða að sleppa aftur út. Við röðum okkur upp – eða ekki. Hvern einasta dag bíðum við eftir einhverju og sennilega bíða einhverjir eftir okkur.

Bið getur falið í sér eftirvæntingu, kvíða, streitu, gleði eða ugg. Hún er alls ekki tóm eða tilgangslaus, hún er full af lífi. Bið þarfnast þolinmæði og þrautsegju. Hún kallar á þolgæði gagnvart hindrunum, áskorunum, töfum og framvindu. Biðlund þarf til að meta aðstæður, tíma og viðbrögð. Bið er rúm til að íhuga og endurmeta – áður en það verður of seint.

Við bíðum oft eftir að eitthvað renni upp eða líði hjá í náttúrunni. Við bíðum eftir sólarupprás eða sólarlagi, eitthvað byrji, endi eða fari í hring. Vind lægi eða að það gefi byr í seglin. Það rigni eða stytti upp. Bið er lífsháttur en sá sem þurrkar út biðina í lífinu sínu er sagður lifa í núinu.

Náttúran bíður ekki, það er flóð eða fjara, hún líður, rís og hnígur, ólgar og róast. Hún býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir mannfólk og aðrar lífverur – eða ekki, jörðin er frjósöm eða hrjóstug.

Mannstæknin snýst oft um að stytta eða þurrka út bið og að fullnægja óskum fólks umsvifalaust: núna! Bið virðist óbærileg á Vesturlöndum þar sem flestallt snýst um hraða samhliða hinni gegndarlausu framþróun.

Það er hlutverk þeirra sem fylgja sjálfbærni og vinna gegn skammsýni: að verja náttúruna. Þeirri vörn lýkur aldrei. Biðlund er vissulega dyggð en bíðum ekki boðanna. Bið er betri en bráðræði.

4. TÆKNI

Tækniborgarsamfélag gaf borgarbúum tækifæri til að að yfirgefa náttúruna og stíga endanlega inn í heim tækninnar. Börn náttúrunnar urðu jafnskjótt jaðarhópur og homo technologicus varð nýtt viðmið á rétt og rangt, gott og vont. Farsældin varð tæknivædd og hið tignarlega varð manngerð náttúra líkt og fossinn Hverfandi í Kárahnjúkastíflu.

Tækniborgarbúinn glataði fljótlega sambandinu við náttúruna. Raflýsing þurrkaði út greinarmun dags og nætur. Störfin urðu óháð árstíðunum. Athafnir, viðburðir og verkefni urðu óháð árstíðum og manninum í sjálfsvald sett hvernig þeim er raðað niður á dagatalið. Veðrið hefur heldur ekki mikil áhrif því ferðir milli húsa eru í raun óþarfar.

Tæknimaðurinn sigraði náttúruna og á tæknilausnir við flestöllum hennar lögmálum. Hún getur ekki komið manninum lengur á óvart og því virðast flestallar aðstæður viðráðanlegar og leita má tæknilegra lausna á hverju því sem truflar eða vekur ugg þótt eina ráðið gegn gróðurhúsaáhrifum sé að temja sér nægjusemi.

Dyggðir sem glatast í vestrænum tæknisamfélagum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og virðing fyrir náttúrunni. Markaðurinn í tæknisamfélaginu býður upp á skeytingarlausa sölumennsku sem snýst um að fá allt strax og selja það síðan.

Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. En hvað með náttúruvernd í ljósi hraða- og tæknisamfélagsins? Svara þyrfti nánast öllum sviðum mannlífsins og borgarlífsins með hæglæti

Náttúruvernd snýst ekki aðeins og einungis um að bjarga óviðjafnanlegum svæðum frá eilífri glötun í gin tækninnar heldur einnig um að varðveita nauðsynlegt samband mannsins við náttúruna sjálfa.

Tæknin og hraðinn hafa fært okkur margt en því miður færa þau okkur jafnframt fjær náttúrunni. Það sem okkur skortir er hæglæti.

5. KÆRLEIKUR

Kærleikur er meira en dyggð, meira en tilfinning og meira en viðhorf. Hann birtist þegar væntumþykjan breiðist út fyrir innsta hring, líkt og vinarhönd sem teygir sig til ókunnugra. Kærleikurinn hefur biðlund, hann hugsar sig lengi um en raskar ekki jafnvæginu í náttúrunni.

Tákn hans er fugl sem veitir ungum skjól undir vængjum sínum. Kærleikurinn verpir ekki öllum (fjör)eggjum sínum í stakt hreiður og teflir hvorki auði sínum né annarra í tvísýnu vegna þrjósku eða augnabliksþarfar. Andstæða kærleikans er tómleiki, tómt hreiður.

Viskan er lík kærleikanum, hún er strengur á milli kynslóða og ráðlegging um umgengni við náttúruna. Hún mælir með varkárni og virðingu mannsins gagnvart náttúruöflunum. Tákn viskunnar er vatnið, það er safn upplýsinga um lífið. Andstæða viskunnar er tómið, uppþornað stöðuvatn.

Íslensk náttúra þarf líkt og öll náttúra á hnettinum á kærleika og visku að halda því þetta par er ekki múrað innan landamæra og girðinga stað- og tímabundinna hagsmuna. Þau eru lík fiskum sem þrífast best í heilbrigðu hafi og vatni og fuglum sem þurfa á heilnæmu lofti að halda, hvort sem það er í vestri, suðri, austri eða norðri.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi. Stund tómlætis er liðin, tími væntumþykju og þolgæði hafinn.

6. VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Skynja fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

 

Náttúrugildin virðing, biðlund, kærleikur, náttúruvernd og friðsemd þurfa að vera kröftug í tækni- og hraðasamfélaginu, þau þarf að læra og æfa.

Sólstöðugangan er meðmælaganga með lífinu og er m.a. skipulögð af Þór Jakobssyni og Viðey – Reykjavíkurborg.

Gunnar Hersveinn