Greinasafn fyrir merki: Nawal El Saadawi

Von er vald

Nawal el Saadawi er gestur Bókmenntahátíðar 2011 og RIKK*, fædd í Egyptalandi 1931, rithöfundur og baráttukona fyrir mannréttindum. Hún talaði í Norræna húsinu 8. september tæpitungulaust og knúði hlustendur til að endurskoða hug sinn og hugsa sjálfstætt..

Saadawai sagði ekki það sem hér fer á eftir og ég hef skrifað, heldur hugsaði ég það um leið og hún talaði og túlkaði um leið og ég skrifaði. Hún gæti ef til vill tekið undir það – en hún er kona sköpunarinnar og yrði ánægð með að sjá viðbætur fremur en að höfundinum hafi tekist að hafa allt rétt eftir henni.

Sá sem gagnrýnislaust lærir það sem læra skal og ekkert meir, verður aldrei ógnandi, heldur draumaborgari ríkjandi yfirvalda. Utanbókarlærdómur og endalausar tilvísanir í það sem áður hefur verið sagt, er vissulega vitnisburður um færni – en engum til gagns nema kerfinu sjálfu. Sá sem hins vegar getur skapað úr umhverfi sínu og heimildum umbyltandi hugmyndir er hættuleg manneskja í augum valdsins, þess vegna eru einræðisherrar iðulega hræddir við baráttukonur og -karla.

Við hlustum á það sem heyrist en ef við trúum að það sé allur heimurinn, en það er ekki rétt, heldur aðeins mannleg leti eða hræðsla. Skipting, flokkun og sundurgreining er oft gerð til að raða í valdapýramídann. Guð, karlinn í hans mynd og konan honum undirgefin. Móðir Forn-egypsku gyðjunnar Ísis réði yfir himninum og faðir hennar yfir jörðinni. Hið kvenlæga var því himinn og hið karllæga jörðin. Þessu var aftur á móti snúið við í þeim trúarbrögðum sem ríkja um þessar mundir: karlinn yfir og konan undir.

Verkefnið er þó ekki að snúa þessu aftur við heldur að skapa jafnvægi. Við viljum réttlæti, kærleika, frelsi og jafnvægi kynjanna en ekki áframhaldandi kúgun. Ekki verður þó litið fram hjá því að konunni var refsað. Evu var refsað harkalega í aldingarðinum fyrir að eta af tré þekkingarinnar og konunni sem hún táknar hefur ævinlega verið refsað síðan fyrir að ögra feðraveldinu með þekkingu sinni og sköpunarkrafti.

Sköpunargáfan sprettur af hinu kvenlæga, hún hvílir á löngun til þekkingar og ekki aðeins það, heldur hvöt til að bæta við, tengja og setja í samhengi. Hún ögrar valdinu og sameinar kúgaða. Sönn þekking og sköpunargáfa eiga samleið. Sköpunin afruglar kerfisbundna þekkingu sem hefur staðnað innra með okkur og við lærðum í skóla og hún býr til nýjar brýr á milli þess sem forðum var skilið að.

Ef við skiptum okkur og heiminum í efni, sál og anda þá missum við sjónar á einingunni á milli þeirra. Þau eru eitt þótt hægt sé að tala um þau til hagræðis í þrennu lagi. Sá sem tekur skiptinguna of bókstaflega villist af leið og skapar sundrungu vegna misskilning. Sköpunargáfan tengir á milli, hún flæðir á milli, hún er farvegur frelsis, kærleika og mannréttinda, þess vegna er einræðisherrum illa við hana. Í fangelsum einræðisherranna geta allir fengið blað og blýant nema rithöfundar sem geta skapað hugmyndir.

Ekkert er, allt er markmið. Lýðræði er ekki, það er markmið. Vonin drífur okkur áfram. Vonin er vald okkar. Vonin er orka sem knýr okkur umsvifalaust hálfa leið í mark. Saadwai gafst aldrei upp, þess vegna hefur hún skrifað 50 bækur, sætt ofsóknum og setið í fangelsi og þess vegna stóð hún á Tahir torgi fyrr á þessu ári þar til Mubarak hopaði á fæti. Höfuð valdsins er horfið en nú berjumst við við líkamann, sagði Saadawi.

Í bók minni Þjóðgildin (2010) vitnaði ég í Nawal el Saadawi, þar stendur: Skilgreiningum og flokkun er oft beitt til að öðlast völd en í raun eru þetta mannasetningar. „Góðan daginn, ég er rithöfundur frá Mið-Austurlöndum,“ sagði Nawal el Saadawi á málþingi [WALTIC 2008] og hélt svo áfram: „Hvað eru Mið-Austurlönd? Um hvaða miðju er að ræða og hvaða máli skiptir þessi flokkun? Réttlæti og jöfnuður fara ekki eftir mörkum landa. Við búum í einum heimi. Hvar er þessi þriðji heimur sem er skilgreindur handa svokölluðum (van)þróunarlöndum og hvernig eiga íbúarnir og komast út úr þessum flokki?“ Saadawai sagðist líka hafa verið flokkuð sem eftir-nýlendu-afrískur höfundur í stað þess að fá að vera rithöfundur. „Ég er fædd í Egyptalandi en hvar er mitt heimaland? Ég er heima og í essinu mínu þegar ég er með fólki sem trúir á jafnrétti og réttlæti,“ sagði hún og að án skapandi orða gætum við ekki breytt samfélaginu. Orðin voru hennar heimaland. (bls. 110).

Hér hafa aðeins brotabrot af visku Nawal el Saadawi verið túlkuð.

*Nawal El Saadawi hélt fyrirlestur í Norræna húsinu á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) og  Bókmenntahátíðar í Reykjavík um sköpunarmátt, andóf og konur.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum

Deila