Greinasafn fyrir merki: Nóbelsverðlaunin

Ábyrgð fjölmiðla á stríði og friði

Val norsku Nóbelsnefndarinnar á framúrskarandi friðarsinnum varpar skýru ljósi á fréttamat íslenskra fjölmiðla. Verðlaunahafnir og afrekskonurnar Karman, Gbowee og Sirleaf voru nánast ónefndar í helstu fjölmiðlum landsins á sama tíma og klikkaðir karlar eru iðulega fyrsta frétt svo mánuðum skiptir.

I. FRIÐUR OG FJÖLMIÐLAR
Um leið og við fögnum friðarverðlaunahöfum árið 2011 er nauðsynlegt að gera þá smásmugulegu athugasemd: að Tawakkul Karman, Leymah Gbowee og Ellen-Johnson-Sirleaf hafa á þessu ári varla verið nefndar oftar en einu sinni á nafn í „helstu“ fjölmiðlum Íslendinga.

Fylgst er, aftur á móti, með klikkuðum einræðisherrum af sjúklegum áhuga. Eltingarleikur við áttræðan karl í Lýbíu er fyrsta frétt svo mánuðum skiptir. Karlinn er búinn að vera í sviðsljósi fjölmiðla í áratugi. Hann er hættulegur glæpamaður og baðar sig í kastljósi fjölmiðla og var ef til vill öðrum einræðisherrum fyrirmynd?

Tawakkul Karman sem nefnd hefur verið móðir byltingarinnar í Jemen komst næstum aldrei í gegnum glerþak íslenskra fjölmiðla. Ekki fyrr en hún fékk friðarverðlaun Nóbels. Ef til vill verður hún aldrei nefnd aftur, því viðleitni hennar fellur víst utan fréttviðmiða á Íslandi. Við munum hins vegar fá framhaldsfréttir af einræðisherra sem til dæmis fer í lest frá Norður-Kóreu til Japans án þess að segja neitt.

„Við náum ekki markmiðum um lýðræði og varanlegan frið í heiminum, njóti konur ekki sams konar réttinda og tækifæra og karlar til að hafa áhrif á þjóðfélagsþróun á öllum stigum,“ tilkynnti norska Nóbelsnefndin. Í Jemen eru konur lítt  sýnilegar né oft  hlustað á rödd þeirra og af þeirri hefð draga íslenskir fjölmiðlar dám. Afrek og hugrekki Karman er þó þúsund sinnum merkilegra en tilraunir hugleysingja til að vekja á sér athygli með ofbeldi.

Eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast er áhugasvið karllægra fréttastjóra. Einsýnt fréttamat þeirra snýst um stríð, stjórnmál, glæpi, viðskipti, valdabaráttu, gjaldþrot, hryðjuverk, réttarkerfi, stórslys, samgöngur, orkumál, eignarrétt, skattkerfi, ársreikninga, persónulega harmleiki og náttúruhamfarir … en Tawakkul Karman sem beitir gandhiískum aðferðum til að bylta samfélaginu er hvergi nefnd á nafn jafnvel þótt hún sé um það bil að breyta samfélagi sínu varanlega.

Ég hef fulla trú á að breytt fréttamat sé liður í því að breyta heiminum til betri vegar. Áhuginn á stríði, hamförum og dauða hvetur hins vegar aðgerðarsinna til að grípa til vopna til að ná athygli heimsbyggðarinnar. Norska Nóbelsnefndin hefur nú sett ný viðmið fyrir fjölmiðla. Hæglát friðaraðferð á að vera fréttnæmari en enn ein sprengja heimskunnar!

Nóbelsverðlaunahafarnir að þessu sinni eru allar þekktar af því að beita öðrum aðferðum en hin karllæga valdahefð mælir með. Tvær þeirra í Líberíu: Ellen Johnson Sirleaf sem er fyrsta afríska konan sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum og Leymah Gbowee sem hefur skipulagt hreyfingu kvenna, þvert á uppruna þeirra og  trúarbrögð.

Tawakkul Karman fékk verðlaunin fyrir forystu sína í baráttu fyrir réttindum kvenna, lýðræði og friði í Jemen, bæði fyrir og eftir „Norður-Afríska vorið“ segir Nóbelsnefndin og að friðarverðlaunin eigi að verða til þess að leggja lóð á vogarskálar baráttunnar gegn kúgun kvenna, sem enn sé við lýði í mörgum löndum, og til að sýna getu og möguleika kvenna í baráttu fyrir lýðræði og friði. Karman býr í landi þar sem einræðisherra hefur ríkt í 33 ár.

Ég tel að friðarverðlaun Nóbels að þessu sinni ættu að vera íslenskum fjölmiðlum hvatning til að endurmeta fréttamat og -viðmið. Fjölmiðlar eru ekki eyland heldur samábyrgir. Innan þeirra er vald, þar er menning og þar eru úrelt viðmið sem þarf að endurskoða. Eða hvers vegna ættu ungir fréttakonur á Íslandi að lúta viðmiðum sem sett voru af hræddum körlum í kalda stríðinu? Viðmið sem hleypa friðarsinnum eins og Tawakkul Karman ekki að, viðmið sem halda henni úti og utandyra, eru fúin, fúl og fölsk.

II. FRIÐARMENNING KVENNA
Skrifaðar hafa verið lærðar greinar, rannsóknir gerðar, skólar verið starfræktir og aðferðir þróaðar til að skapa friðarmenningu – en þrátt fyrir það er athygli fjölmiðla enn bundin við heimskuna og það sem virkaði fljótlega eftir síðari heimsstyrjöld. Hlustum á aðrar raddir.

Ellen-Johnson-Sirleaf hefur tekið þátt í að safna vitnisburðum af átakasvæðum. Ég skrifaði um það í bókinni Gæfuspor – gildin í lífinu (JPV.2005) og er ástæða til að rifja það upp, þökk sé norsku Nóbelsnefndinni. Neðangreind viðleitni ætti að vera daglega í fréttum ein svo er ekki:

[…] Í skýrslunni er ekki aðeins sagt frá stríðshrjáðum konum – heldur einnig konum sem sjaldnast er getið: Þeim sem vinna að friði og ættu að hafa völd til jafns við karla til að endurreisa samfélög. Körlum farnast ekki nógu vel við að byggja einir upp samfélögin.  Konur vilja taka áhættuna og fara óhefðbundnar leiðir til uppbyggingar – ekki með ofríki og ofstæki – heldur miskunnsemi. Þær vilja vinna gegn fátækt, misrétti og ofbeldi.

[…] Ráð þeirra [Rehn og Sirleaf] er að brjóta konum leið að upplýsingum, stefnumótun og ákvörðunum, ekki síst þar sem stríð eða friður kemur við sögu … Allir þurfa að taka þátt í friðarferlinu, fjölskyldan, samfélagið og stjórnvöld, en ekki aðeins utanaðkomandi karlar sem semja um vopnahlé.

[…] Heimildir sýna að flestar konur … vilja mennta heimamenn og skapa þeim tækifæri til að hjálpa landsmönnum til að sigrast á fátækt, misrétti og ofbeldi.“

III. FRÉTTAMAT
Hvað segja synir Gaddafis í dag? Svarið er hvarvetna. Hvað segir Karman í dag? Svarið þyrfti að vera hvarvetna. Áhrif fjölmiðla eru mikil og ábyrgðin í samræmi við það. Kynslóðir sem alast upp við alvarlega áhersluskekkjur, eins og hér hefur verið lýst, geta að mínu mati skaðast. Nóbelsnefndin á lof skilið fyrir góða ábendingu sem læra má af!

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Deila