Greinasafn fyrir merki: Sköpunargáfa

Hamingja og sköpun á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visitGunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur fjalla um sköpunargáfuna og hamingjuna á heimspekikaffi í Gerðubergi 21. janúar. Það hefst með þessum orðum:

Forvitni hugans er áberandi einkenni mannverunnar. Hún er námsfús, forvitin um hvaðeina. Barnið grípur allt sem auga og hönd á festir, stingur upp í sig, smakkar, sýgur og svalar óseðjandi forvitni sinni um stund.

Forvitnin vex með árunum en stundum dofnar hún. Hlutir, hugtök, tilgátur og kenningar eru teknar í sundur, skoðaðar í smáatriðum og kannað hvort undrið stenst eða ekki. Hvað, hvernig, hver, hvar, hvenær og loks hvers vegna? Forvitinn hættir aldrei að spyrja, næsta spurning vaknar alltaf.

Forvitni þarfnast áræðni til að spyrja enn frekar, rannsaka, leggja í leiðangra, yfir höf og inn í ókönnuð lönd.

Líf án forvitni er dauflegt og endar í stöðnun. Það er án viðleitni til að gera eitthvað nýtt og óvænt. Sá sem glatar forvitni sinni algjörlega hættir að nenna út úr húsi. „Sá sem leitar aldrei frétta verður aldrei margs vitandi,“ segir málshátturinn.

Forvitni er eiginleiki sem hægt er að rækta og efla, forvitni er undanfari visku, óseðjandi þrá til að vita meira, sjá, heyra, finna, forvitnast um. Forvitinn leitar að svari þegar aðrir sætta sig við þau svör sem einhver annar hefur gefið þeim. Hann býst við meiru, öðru, dýpt, vídd.

Fordómar eru meðal óvina forvitninnar. Þeir bjóða upp á rangar ályktanir, þeir tefja för, villa um fyrir fólki og eyðileggja viskuleitina. Leiðangurinn verður hættuför, fyllt er upp í með tilgátum og fólk nemur staðar, hættir leitinni. Óttinn vill heldur ekki alltaf vita svarið.

Forvitni er forsenda gleði í lífinu. Forvitni er eins og fálmari þeirra sem vilja skilja eitthvað í tilverunni. Forvitni einkennir margar lífverur en sköpunargáfan er eitt af sérkennum mannverunnar. Forvitni er forsenda sköpunar, því hún dafnar og vex í huga hins forvitna. Sköpunin er leit að skilningi.

 

Sköpunargáfan

Sköpun er næsta lag á eftir forvitni, þrep, stig eða áfangi, þótt forvitnin sé ævinlega áfram með í för. Hún þarfnast einnig áræðni til að móta eitthvað annað en það sem blasir við og til að túlka á annan hátt en oftast er gert eða finna nýjar lausnir og opna dyr sem hafa verið lokaðar. Gildi sköpunar opinberast ef hún hefur haft áhrif á veruleikann.

Sköpunin er leit að skilningi.

Það er þráður á milli forvitni og sköpunargáfu og þeim fylgir gleði og þakklæti. Sá sem ræktar með sér forvitni barnsins og eflir með sér skapandi hugsun gleðst yfir verkum sínum. Verkin geta verið listaverk, nýjar lausnir, vísindaafrek, ný túlkun eða nýjar leiðir.

Sagt er að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju. Hún felst ekki aðeins í því að vera sátt og sáttur við lífið og aðra, heldur einnig að hætta aldrei að leita að svari við því sem ósvarað er. Dofin forvitni merkir minni sköpun og hamingja í lífinu.

Sköpunargáfan kemur við sögu í leitinni að hamingju, hún knýr fólk til að gera tilraunir, undrast, efast og endurraða í lífinu.

Gunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur ætla að rekja þráðinn, með hjálp gesta, milli sköpunar og hamingju á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 21. janúar kl. 20.00.  Gunnar mun einbeita sér að sköpunargáfunni og Hrefna að hamingjunni.

Allir velkomnir.

Tenglar

Viðburður á facebook

Kynning hjá Gerðubergi

 

 

 

 

 

 

 

Deila