Greinasafn fyrir merki: Stjórnlagaþing

TIL HVERS AÐ SKIPTA UM STJÓRNARSKRÁ?

islandNý stjórnarskrá Íslands sem stjórnlagaráð lagði fram til stjórnskipunarlaga er magnað mál sem næstum hver einn og einasti borgari hefur tjáð sig um. Gunnar Hersveinn hélt ræðu á Ingólfstorgi á fundi RADDA FÓLKSINS vegna stjórnarskrámálsins þar sem hann hugleiddi hvers vegna það mætti skipta um stjórnarskrá og hvaða áhrif það gæti haft.*

I. STJÓRNARSKRÁ

Stjórnarskrá er auga samfélagsins. Hún hefur áhrif á allt – jafnvel þótt við tökum ekki eftir neinu, jafnvel þótt við séum sjálf blind á áhrif og völd. Hún hefur áhrif á skoðanir, hugarfar og framkvæmdir.

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekki sér.

Gamla stjórnarskráin er mótuð og túlkuð af gamla rótgróna valdinu sem vill af skiljanlegum ástæðum ekki afnema hana. Ný stjórnarskrá yrði ný byrjun, ný von, nýtt andlit eða að minnsta kosti ný gleraugu.

II. TÍÐARANDI

Gamli tíðarandinn flaug fram af hengifluginu, gráðugur og fífldjarfur, aga- og taumlaus með óbilandi bjartsýni í augum án marka, án gildi gagnvart öðrum, landi og þjóð. Hann hrærðist í spilltu, skeytingarlausu hagkerfi.

Nýi tíðarandinn bjó með þjóðinni og spratt fram eins og fugl af hreiðri þegar sá gamli strikaði fótur og flaug fram af. Hann er gagnsær og sjálfbær og vísar á fjölræði í stað fáræðis. Hann stjórnast af visku þjóðarinnar um grunngildin: jöfnuð, réttlæti og virðingu, samábyrgð og lýðræði.

Ný von mótaði nýju stjórnarskrána sem enn hefur ekki tekið gildi.

III. KERFIÐ

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekkert sér nema eigin spegilmynd.

Sú gamla mótast af sjónarmiðum til þjóðar og náttúru sem nú eru úrelt. Hún er túlkuð af mannhverfu sjónarhorni  sem ofmetur hagkerfið og vanmetur vistkerfið. Vöxtur hvílir ekki á sérhag mannsins heldur umhverfi hans og náttúru.

Hagkerfið hleypur í loftköstum en vistkerfið er hringrás. Hagkerfið hvílir á samkeppni og gróða en vistkerfið á sjálfbærni og samvinnu. Mannkerfið, hagkerfið og gamla stjórnarskráin þarfnast endurnýjunar við.

Hið gamla byggir á sundrung, vægðarlausri græðgi og einhæfni sem hafa gefið heiminum stríð, kreppur, átök, fátækt og misrétti.

Næsta meginregla snýst um að deilda gæðum, vinna saman, fjölbreytni og jafnvægi, heild og skilningi á sameiginlegum hagsmunum og að vistkerfið verði viðmiðið en ekki tímabundin skekkja í hagkerfinu sem sífellt þarf að leiðrétta.

IV. NÁTTÚRAN

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekki veit.

Ný stjórnarskrá mun breyta þjóðarsálinni og hafa djúp áhrif á viðhorf hennar til náttúrunnar. Hún kveður á um réttindi náttúrunnar. Náttúrusvæði öðlast eigið virði og geta vegið þyngra en hagsmunir tiltekinna hópa manna.

Náttúrsvæði, náttúruundur, -perlur og heimkynni annarra lífvera mun ekki ávallt og ævinlega vera léttvæg fundin út frá mannhverfum viðhorfum gamla tíðarandans. Þeirra virðing er komin!

Mannveran er út frá visthverfu sjónarhorni meðlimur í lífrænu samfélagi jarðar. Maður og náttúra eru eitt – og gildin sem þarf að rækta eru nærgætni, hófsemd og virðing til að ná jafnvægi.

V. FRAMTÍÐIN

Til hvers? spyr sá sem sér ekki breytinguna í vændum.

Ný stjórnarskrá er lykill að framtíðinni. Gamla valdið er feigt og farið á taugum – og enginn vill lifa innan um afturgöngur.

Ný stjórnarskrá yrði róttæk breyting á viðhorfum til sambands manns og náttúru, samband sem byggist á sjálfbærni. Hún yrði ekki aðeins fyrir þjóðina heldur einnig fyrir vistkerfið.

VI. UPPHAFSORÐ

Lýðræði var óljós hugsun þegar gamla stjórnarskráin var sett. Árið 2013 er lýðræði hátt skrifað þjóðgildi sem þarf að læra og rækta.

Ný stjórnarskrá er nauðsynleg fyrir nýjan tíðaranda, fyrir þjóð og náttúru, fyrir næstu kynslóð. Hún er bylting í þágu náttúrunnar.

Til hvers að skipta um stjórnarskrá?

Til að styðja siðvæðingu Íslands og til að nea lýðræðislega ábyrgð og til að uppfylla skylduna gagnvart næstu kynslóð.

Gefumst ekki upp, höldum áfram, vinnum verkið vel. Búast má við margskonar hindrunum og mikilsháttar tálmum á leiðinni en jafnvel þegar öll sund virðast lokuð: eygir bjartsýnnt augað von.

GUNNAR HERSVEINN

www.lifsgildin.is

*Ræðan var flutt 16. mars 2013 út frá stykkorðum á blaði en ofangreint er textinn sem punktarnir byggðu á.

Deila

Tíðarandar takast á

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október var meiriháttar áfangi. Gamli tíðarandinn situr eftir í skotgröfunum, „feigur og farinn á taugum“ og ný tíð svífur yfir vötnum.

Íslensk þjóð gat tjáð sig eftir hrunið um hvað hún vildi og hvert hún ætlaði að fara og sú viska birtist í þjóðfundunum 2009 og 2010. Hún kom sér saman um nokkur þjóðgildi: ábyrgð, heiðarleika, frelsi, virðingu, réttlæti, lýðræði, jöfnuð, jafnrétti, sjálfbærni, mannréttindi, fjölskyldugildi, kærleika og traust.

Verkefnið var að sameinast um þjóðgildi, ekki að velja lið, hægri eða vinstri, heldur rækta og efla grunngildi sem voru vanrækt.

Gamli tíðarandinn varð firringunni að bráð. Hann glataði samábyrgð sinni, missti tök á sjálfsaganum og geystist hátt í loft upp og féll til jarðar. Núna er hann „knýttur og kalinn“.*

Hann er þó ekki alveg „brotinn og búinn“ og mun enn gera tilraunir til reisa tálma og torvelda för með úrtölum og bölmóði. Næsta verkefni hjá öðrum er því bæði að greiða leið og verjast fúkyrðunum.

Ósk og þrá þjóðarinnar býr í gildunum sem valin voru á þjóðfundunum og sem unnið hefur verið úr síðan: að móta samfélag sem byggir á jöfnuði, réttlæti og virðingu, frelsi og samábyrgð.

Verkefninu er ekki lokið, sennilega mun lokaáfanginn taka mest á. Ef til vill var þetta aðeins ágætis æfing.

Gunnar Hersveinn

*tilvitun í Megas: Gamli sorrí gráni.

Ný tíð – hvernig er hún?

Magnþrungið – það er magnþrungið að gamla tíðarandanum hefur ekki enn tekist að stöðva viðleitni almennings til að fá að taka þátt í því að semja nýja stjórnarskrá! Tálmar hafa verið reistir, gryfjur grafnar, hindranir strengdar, fótakefli og fyrirstöður, torfæri og torveldi …20. október 2012: kosningar.

Endrum og eins er líkt og íslensk þjóð ætli sér að gera eitthvað nýtt og óvænt: velja 37 ára gamla konu sem forseta eða taka sjálf að sér að semja nýja stjórnarskrá með þjóðfundi og stjórnlagaráði. Erlendir fréttamenn fylgjast spenntir með …

… síðan verður úrtölufólkið hrætt og telur kjarkinn úr þjóðinni.

Framtíðarsýnin verður þessi: stytta reist af gamla forsetanum með gömlu stjórnarskrána við hjartastað!

Nýi tíðarandinn getur þó enn orðið ríkjandi!

Ný tíð – hvernig er hún? Hún kýs rökræður og gagnrýna hugsun fremur er karp og þrjóskuhausa. Hún velur gildi fremur en stjórnmálastefnur og hvetur fólk til að sameinist um valin þjóðgildi og setja sér markmið út frá þeim í stað þess að karpa til vinstri og hægri út frá misgóðum hagfræði-, og stjórnmálakenningum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi.

Gamla valdið stendur taugaveiklað á tánum, gagnslaust og gisið.

Í dag, 20. október, stígum við fram eða aftur. Það er magnþrungið hvað gamla tíðarandanum gengur illa að kveðja niður hinn nýja. Það er einnig magnþrungið hvað sá gamli tórir lengi og hvað hinum nýja gengur seint að verða ríkjandi.

Gunnar Hersveinn

Ný stjórnarskrá

Við Íslendingar fáum nú einstakt tækifæri til að eignast nýja íslenska stjórnarskrá. Til þess þurfum við að segja já við fyrstu spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október. Og segja um leið já við mannréttindum og frelsi núlifandi Íslendinga og komandi kynslóða, náttúruvernd, jafnrétti, bættu stjórnarfari og meira lýðræði.

Tillögur stjórnlagaráðs eru byggðar á þjóðarvilja sem kom fram á þjóðfundunum 2009 og 2010 og vandaðri vinnu stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs, sem náði einhuga samstöðu um frumvarp sitt að nýrri stjórnarskrá. Hún ilmar af hugsjónum Framtíðarlandsins sem berst fyrir verndun mestu verðmæta Íslands og samfélagslegri nýsköpun og hvetur félaga sína til þess að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október og leggja sitt lóð á vogarskálarnar.

Tengill:

 

Leiðarljós þjóðarinnar!

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskránni núna og ekki seinna en það. Ástæðan er sú að í undanfarin áratug hefur landinu verið stjórnað af örfáum körlum og þjóðin hefur glatað sambandi sínu við stjórnarskrána.
Foringja(r)æði hefur ríkt, oddvitaræði eða með öðrum orðum: örfáir valdamenn hafa ráðið næstum öllu þinginu og stjórnmálaflokkunum. Hvað lög eru sett og hvernig þau eru framkvæmd. Þetta er ekki bara fullyrðing heldur er nú staðfest í rannsóknarskýrslum Alþingis og skýrslu alþingismanna sjálfra.

Einhver gæti sagt að vel sé hægt að búa áfram við þessa stjórnarskrá og hægt sé að lagafæra hana í rólegheitunum eftir því sem þarf. Það skipti engu máli þótt fyrstu tvær síðurnar séu lagðar undir forsetann, mannréttindakaflinn sé aftarlega og ekki sé þess getið að valdið komi frá fólkinu. En svo er ekki.

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskránni til að þjóðin eignist á ný lifandi samband við grundvallarlögin. Þetta er ekki breyting breytinganna vegna heldur viðleitni til að byrja upp á nýtt með betri huga.

Sá sem hefur lent í því að vera fluttur í sjúkrabíl með blikkandi sírenur og endurlífgaður á síðustu sekúndunni, heitir sér því að breyta líferni sínu. Hann endurskoðar venjur sínar og lífsreglur. Hann setur væntanlega heilsuna fremst og kærleikann til annarra.

Hið sama gerir þjóð sem féll fram af hengifluginu. Hún endurskoðar stjórnarskrána sína, bætir í, þéttir og endurraðar til að draga úr líkum á að fáræði ráði aftur för. Hún heitir sér því að efla vald almennings og skapa skilyrði til að hægt sé að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hlustum ekki á úrtöluraddir eða þá sem tala gegn breytingum. Hlustum ekki á þá sem engu vilja breyta, þeir styðja gamla valdið og kerfið og vilja ekki breyta líferni sínu.

Breyta þarf andanum í stjórnarskránni, þannig að hann verði aftur andi þjóðarinnar en ekki valdsins. Styrkja þarf hlut almennings, bæta virðingu hans og auka ábyrgð þeirra sem fara tímabundið með valdið fyrir þjóðina.

Styrkja þarf hlut náttúru og auðlinda landsins í stjórnarskránni, svo tryggt sé að sölumenn eyðileggingarinnar geti ekki öðlast vald yfir gersemum landsins og svipt næstu kynslóðir fegurðinni.

Enginn þarf að óttast það að fulltrúar þjóðarinnar í stað fulltrúa stjórnmálaflokka fái tækifæri til að leggja til breytingar á stjórnarskrá Íslands. Enginn þarf að óttast þótt valdmörk Alþingis verði skýrari og sterkari gagnvart framkvæmdavaldinu. Traust á Alþingi getur aðeins vaxið.

Margt mjög frambærilegt fólk býður sig fram í það starf að eiga samtal um drög að nýrri stjórnarskrá, leggja fram drög að frumvarpi. Það mun vinna að þessu verkefni af alúð. Ég gef kost á mér í þetta starf, ég er ekki nauðsynlegur í starfið fremur en neinn annar. Ég hef þekkingu á grunngildum Íslendinga og hef skrifað bækur um þau og tel af þeim sökum að sú þekking geti nýst.

Niðurstaðan er að tækifærið er núna. Nýr tíðarandi lýðræðis, jafnaðar, sjálfbærni, jafnréttis, samvinnu, fjölskyldu, réttlætis og virðingar knýr á og sú viðleitni að vilja endurskoða stjórnarskrá Íslendinga er mikilvægur þáttur í því að varanleg breyting eigi sér stað.

Spurningin er: Hvernig samfélag viljum við vera? Tvisvar voru þjóðfundir haldnir til að laða fram visku þjóðarinnar og tvisvar voru sömu gildin valin. Þjóðin vill sporna gegn spillingu og græðgi gamla tíðarandans og móta heiðarlegt samfélag. Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að festa þjóðgildin í sessi? Meðal annars með því að þjóðin öll taki þátt í ferlinu og geri stjórnarskrána að leiðarljósi sínu.

Gunnar Hersveinn 6527
www.thjodgildin.is

Gamla og nýja valdið

Nýr tíðarandi er á næsta leiti. Hann verður ekki líkur þeim sem var og ekki heldur þeim sem ríkti þar á undan. Það er vandasamt að vinna að þessari heimsmynd því hún er viðkvæm, auðvelt er að sniðganga hana og margir eru á móti henni. Gamla valdið berst gegn þessum nýja anda og fær ýmsa í lið með sér.

Nýr tíðarandi krefst gagnrýnnar hugsunar í stað karps. Í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur: „Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð.“ (13, 2010). Skýrslan var samþykkt á Alþingi. Nú þarf að vinna þessu brautargengi og finna leiðir framhjá margskonar hindrunum.

Vissulega er holóttur vegur framundan í þeirri viðleitni að skapa nýtt og öflugt lýðræði. Gamla valdið fellir tré yfir vegi, kemur upp tálmunum, lokar vegum … Frambjóðendur til stjórnlagaþings finna það til að mynda á eigin skinni. Þeir hljóta að teljast einhvers konar grasrót, eða mögulegt nýtt vald, andspænis gamla valdinu: yfir fimmhundruð karlar og konur eru reiðubúin til að taka þátt í endurskoðun stjórnarskrár, leggja sitt af mörkum og móta sýn fyrir framtíðina. Áhrif hefðbundinna valdastofnana á væntanlega þingmenn er þverrandi og því er gamla valdið óttaslegið.

Verkefnið á stjórnlagaþingi felst í samræðu og rökræðu, þar sem skipts er á skoðunum og tilraun gerð til að taka heillvænlegar ákvarðanir fyrir almenning. Þingið hefur niðurstöður þjóðfundar til hliðsjónar og upplag stjórnlagaþingsnefndar en ekki fyrirskipanir frá foringjum stjórnmálaflokka. Þingið á að vera opin lýðræðisleg samræða í samræmi við nýjan tíðaranda. Þarna má greina vísi að nýju valdi og það vekur mörgum valdamönnum ugg í brjósti.

Stjórnlagaþing er nýjung á Íslandi. Hefðbundin, vanabundin hugsun bregst illa við. Um þessar mundir fá frambjóðendur sendar fyrirspurnir frá fjölmiðlum og öðrum sem eiga það sammerkt að vera tilraun til að flokka þá í kvíar. Ert þú með eða á móti? Já eða nei? Ekki er gert ráð fyrir samtali eða samráði eða visku, aðeins einlínu afstöðu.

Eftir stjórnlagaþing verða vonandi gerðar rannsóknir á umfjöllun hefðbundinna fjölmiðla í aðdraganda þingsins. Þar mun líklega koma fram að fjölmiðlar ræddu aðeins við sérfræðinga um þingið og höfðu sérlega gaman af því að flokka frambjóðendur í kvíar. Fáskrúðug lýðræðisleg umræða, engin gagnrýnin hugsun, aðeins flokkunarárátta hugans sem styður hið gamla og „æskilega“ vald.

Frambjóðendur birtast núna í helstu fjölmiðlum landsins sem ein hjörð sem var svo „djörf“ að bjóða sig fram til að byggja upp annað Ísland en það sem nú hopar á hæli. Frambjóðendum er hvarvetna stillt upp eins og einsleitum vefhópi og gefst ekki tækifæri til að skiptast á skoðunum sín á milli eða ræða við almenning.

Ég býst við því að fram að kosningum 27. nóvember muni fátt koma fram í fjölmiðlum, um þetta mál, sem hefur það markmið að skapa upplýst almenningsálit, þótt það sé meginhlutverk fjölmiðla. Við munum sjá enn fleiri aðferðir til að raða frambjóðendum á bása í stað gefandi umræðu um mikilvæg málefni. Fleiri já eða nei, með eða á móti. Meira af fávisku, minna af visku.

Umræðuhefðin á Íslandi er eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast um leið og skipt er um tíðaranda. Markmiðið með umræðu er að finna líklegan veg til farsældar en ekki að sigra í kappræðu eða gæta sérhagsmuna. Núna hlaupa menn næstum undantekningarlaust í vörn og sókn þegar mikilvæg mál bera á góma. Það er úrelt aðferð, tökum ekki þátt í henni.

Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi. Hlustum!

Næsti tíðarandi verður, ef við viljum, fjöllyndur, hann gefur ekki eyðileggingunni undir fótinn. Hann lyftir því sem hefur gildi. Hann teflir ekki fram einni lausn, heldur mörgum. Hann verður mildur. Hann er ekki draumur, heldur raunhæfur möguleiki sem nú þegar breiðist út …

Þegar úrelt hugsun á fjölmiðlum líður undir lok mun ný aðferð felast í því að beita uppbyggilegri gagnrýni, greina, skýra og miðla á faglegan hátt. Aðferðin er í raun ekki ný heldur felst nýjungin í því að leyfa henni að lifa.

Lýðræðið hefur spillst og engir geta hreinsað út nema borgararnir sjálfir. Sjálfboðaliðar úr hópi borgaranna verða að fá áheyrn fjöldans og leyfi til að breyta kerfinu. Verkefnið felst í því að endurskapa samfélagið, ekki að smiða hindranir með úrtölum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Viska þjóðarinnar býr innra með henni. Hún verður ekki þvinguð fram heldur stígur hún fram sjálf við kjöraðstæður. Sköpum þær!

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is