Greinasafn fyrir merki: traust

TRAUST SEM ÞJÓÐGILDI

islandMælikvarði á traust er meðal annars gagnsæi upplýsinga. Óbreyttur borgari hefur hvorki þrek, kunnáttu né tíma til að rannsaka alla hluti til hítar. Hann kýs sér sér fulltrúa sem hann treystir til að fara með valdið. Hann þarf að geta valið úr góðu og fjölbreyttu úrvali fulltrúa úr ýmsum stéttum, af báðum kynjum og af ólíkum uppruna.

Borgari í samfélagi gagnsærra upplýsinga þarf á fjölbreyttum fjölmiðlum að halda sem eru óháðir sterkum hagsmunahópum og fjármagnseigendum. Meginhlutverk fjölmiðla er að veita yfirvöldum og viðskiptalífinu aðhald. Lög og reglugerðir þurfa því að tryggja fjölmiðlum greiðan aðgang að gagnagrunnum og upplýsingum í hverjum málaflokki.

Verkefnið er í raun ósköp einfalt: almannaheill, það þjónar almenningi. Hvert stjórnvald, hver stofnun, hvert fyrirtæki þarfnast trausts og þess að njóta stuðnings almennings. Sá sem engum treystir nema sjálfum sér einangrast. Sá sem öllum treystir verður leiksoppur annarra. Verkefnið er að læra að treysta öðrum en búast þó ávallt við að einhver bregðist. Traust er göfugt og gott en það er jafnframt áhætta. Enginn ætti að treysta öðrum manni fyrir öllum fjöreggjum sínum.

Sama gildir um að treysta stofnunum, fyrirtækjum, tækni og öðrum þjóðum. Þjóð sem annaðhvort vanmetur sig eða ofmetur gefur ákveðnum öflum lausan tauminn. Þjóðir sem fyllast ofmetnaði eru sígilt efni í sögur um fall og þá bila undirstöðurnar. Hversu oft þurfum við að lesa ævintýrið Nýju fötin keisarans til að skilja það og fylgja fordæmi drengsins sem kallaði: Hann er nakinn.

Þá hefst tími vantrausts þar sem efast er um heilindi eða áreiðanleika. Vantraust er að vera í lausu lofti, ganga þar sem jörðin er ekki lengur undir fótum, svifa líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins. Vantraust hefur engan áfangastað, veruleikinn hverfur, gufar upp jafnóðum og hann birtist. Haldreipin renna úr höndum og síðasta hálmstráið slitnar, fallið hefur engan botn.

Það er því ómaksins vert að leggja mikið á sig til að rækta og efla traust með þjóðinni.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Einnig birt í vikublaðinu Reykjavík 23. nóvember 2013

 

 

Deila