Greinasafn fyrir merki: Umhverfi

KRÝSUVÍK Í SÓUNARFLOKKI

ReykjaNVið stöndum í biðröð eftir einhverju eða bíðum í röð á símalínu: þú ert fjórtandi í röðinni! Við bíðum eftir tíma, bíðum eftir að fá aðgang eða inngöngu eða að sleppa aftur út. Við röðum okkur upp – eða ekki. Hvern einasta dag bíðum við eftir einhverju og sennilega bíða einhverjir eftir okkur.

Bið getur falið í sér eftirvæntingu, kvíða, streitu, gleði eða ugg. Hún er alls ekki tóm eða tilgangslaus, hún er full af lífi. Bið þarfnast þolinmæði og þrautsegju.  Hún kallar á þolgæði gagnvart hindrunum, áskorunum, töfum og framvindu. Biðlund þarf til að meta aðstæður, tíma og viðbrögð. Bið er rúm til að íhuga og endurmeta – áður en það verður of seint.

Við bíðum oft eftir að eitthvað renni upp eða líði hjá í náttúrunni. Við bíðum eftir sólarupprás eða sólarlagi, eitthvað byrji, endi eða snúist í eilífðri hringrás tímans. Vind lægi eða að það gefi byr í seglin. Það rigni eða stytti upp. Bið er lífsháttur en sá sem þurrkar út biðina í lífinu er sagður lifa í núinu.

Náttúran bíður ekki, það er flóð eða fjara, hún líður, rís og hnígur, ólgar og róast. Hún býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir mannfólk og aðrar lífverur – eða ekki, jörðin er frjósöm eð hrjóstug. Við fáum hugmynd um virkjun, nýtum náttúrusvæði og verndum eða setjum þau í biðflokk:

 „Í biðflokk falla virkjunarhugmyndir sem talið væri að þurfi frekari skoðunar með betri upplýsingum svo meta megi hvort þær ættu að raðast í nýtingarflokk eða verndarflokk.“ (Rammaáætlun, 2. áfangi).

Mannstæknin snýst oft um að stytta eða þurrka út bið og að fullnægja óskum fólks umsvifalaust: núna! Bið virðist óbærileg á Vesturlöndum þar sem flestallt snýst um hraða samhliða hinni gegndarlausu framþróun. Virkjunarhugmyndum er raðað í flokka nýtingar og verndar. Nýting er sögð framþróun. Biðflokkur er á milli … tannanna á fólki, milli ríkisstjórna, milli okkar.

KRÝSUVÍK BÍÐUR EKKI

Krýsuvík* er náttúrusvæði á milli vonar og ótta, náttúra á fjármálamarkaði, náttúra milli nýtingar og verndar. Svæðið stendur eða fellur, eyðist eða dafnar – ekki aðeins af eigin mætti heldur duttlungum íbúanna sem láta sér ekki nægja að þiggja húshita. Náttúruperla á biðlista er ekki góð staða – en staða Krýsuvíkursvæðisins er enn verri því það er bæði í bið- og nýtingarflokki.

Háhitasvæðin á Reykjanesskaganum eru ekki aðeins náttúruundur heldur veigamikil forsenda lífsgæða komandi kynslóða frá Hengli til Reykjanestáar. Hvernig má vera að forsendan, jarðvegurinn, jarðhitinn sé settur á bið- og nýtingarlista stóriðju? Hvernig geta örfáir af einni kynslóð dirfst að eyða auðlind, tekið feikilega áhættu og skapað með því hundrað ára einsemd fyrir aðra? Virkjunarhugmyndirnar í Krýsuvík eru alls ekki sjálfbærar og útlit er fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum. Það er sóun á auðlind – ekki nýting.

Bíðum ekki eftir röngum ákvörðunum. Austurengjar og Trölladyngja – það er ekki eftir neinu að bíða: föllum frá öllum áformum um virkjun. Sveifluhás og Sandfell – biðin ætti að vera á enda. Þessar virkjunarhugmyndir ættu að falla í flokk sem ekki er nefndur: Sóunarflokkur.

Það er hlutverk þeirra sem fylgja sjálfbærni og vinna gegn skammsýni: að verja Krýsuvík. Sú vörn er hafin. Við höfum íhugað  virkjanahugmyndirnógu lengi á Krýsuvíkursvæðinu. Biðlund er vissulega dyggð en biðin er á enda.

Bíðum ekki boðanna, álver geta beðið! Slík bið er betri en bráðræði.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is 

*„Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur minni jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Meginsvæðin eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell. Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.“

Suðurneshttp://www.framtidarlandid.is/natturukortid/#filter=.sn

Krýsuvíkursvæðiðhttp://www.framtidarlandid.is/natturukortid/austurengjar/

Heimildamyndhttp://blogg.smugan.is/elgurinn/2013/04/01/heimildamynd-um-krysuvik/

Deila

FJÖLBREYTNI OG FRELSI

Frjáls þjóð á að reiða sig á marga kosti, til að geta valið, hafnað og orðið hún sjálf. Frjáls þjóð þarf að rækta með sér biðlund og hún þarf að geta geymt ósnerta fjársjóði til framtíðar. Frelsi þrífst aftur á móti illa á stað þar sem einlyndi ríkir, fáræði eða einn tónn. Frelsið er sinfónían og þjóðin hljómsveitin.
Margbreytileiki, fjölhæfni, fjölmenning,  fjölhyggja, fjölbreytni og marglyndi er auðlind mannlífsins. Fjölhæf lífvera leitar margra kosta í umhverfi sínu og er líkleg til að verða farsæl.  Jafnvel þótt henni bjóðist (glópa)gull fyrir land sitt og náttúruauðlindir velur hún fremur bundið valfrelsi á eigin forsendum en ánauð í boði annarra.
Jörðin, náttúran, umhverfið, landið, hvert svæði sem valið er til búsetu hefur oftast upp á marga kosti að bjóða, farsælast er að nýta þá með virðingu að leiðarljósi. Ef svæðið er lagt undir einn kost með víðtækri umbreytingu verða heimamenn of háðir og næsta kynslóð hefur ekki val eða tækifæri til að breyta á annan hátt en sú fyrri. Valfrelsið tapast.
Frelsi er grunngildi sem allir þrá. Of fáir búa við það og þeir sem njóta þess virðast ekki kunna að meta það til fulls og selja það frá sér. Sá sem glatar frelsinu af eigin mætti gerir það oftast með glýju í augum og gylliboð í eyrum um eitthvað annað og betra. Hann sér ekki lengur eigin auðlegð og tækifæri fyrir markaðssettum glansmyndum annarra.
Allir boða frelsi, jafnt stríðsherrar sem friðarsinnar, en eitt er víst að einhæfni, einlyndi, einn vegur, einn kostur og einn risi merkir ekki frelsi fyrir hinn almenna borgara heldur aðeins fyrir þá sem stjórna risanum. Iðulega þarf því að spyrja: frelsi – handa hverjum?
Fjölbreytni, marglyndi, fjölhyggja og fjölhæfni eru aftur á móti farvegir frelsis, þau skapa frjóan jarðveg og menningu á árbakkanum.
NÝ OG BETRI VERÖLD
Manneskjan er frjáls vera á jörðinni. Hún er ekki undirokuð af annarri lífveru líkt og húsdýr. Hún er háð aðstæðum hverju sinni en hefur tilhneigingu til að skapa sér veröld þar sem óvissuþættir er útilokaðir. En það er aldrei hyggilegt fyrir mannfélag að verða of háð einum kosti – geti það komist hjá því.
Frelsið er ekki kapphlaup um verðmæti. Sá sem hleypur með aðeins eitt í huga kemst ef til vill fyrstur í mark, en það er ekki heillavænlegt lífsmarkmið að sigra aðra í samkeppni – jafnvel þótt slíkt sé fullyrt án afláts.
Borgarar í hægfara samfélagi óttast ekki að allt hverfi eða tapist á einu augabragði – því biðlundin er sterkari en eirðarleysið. Borgarar í hraðasamfélaginu kvíða því á hinn bóginn daglega að tímaglasið tæmist og fórna því endrum og eins öllu fyrir ekkert.
Endalok frjálsrar þjóðar eru falin í freistingunni til að selja sig öðrum.
Frelsi og fjölbreytni fylgjast að. Þjóð sem vill rækta og efla frelsið skapar fjölbreytt atvinnulíf og frjóan jarðveg sem hún plægir sjálf í sátt við umhverfið. Hún nemur öll hljóðin í náttúrunni og heyrir ekki aðeins einn tón heldur heila sinfóníu.

Gunnar Hersveinn/ www.lifsgildin.is

Jarðarstundin rennur upp

Einstaklingurinn virðist oft vera sem örsmár maur í mauraþúfu eða sandkorn á endalausri strönd og engu máli skipta. En svo er ekki. Án hvers og eins væri engin strönd heldur aðeins auðn. Til eru verkefni sem sanna mátt einstaklinga – og sýna að það er borgarinn en ekki firrtur einræðisherra sem breytir heiminum til betri vegar.

Jarðarstundin er eitt af þessum verkefnum eða Earth hour þar sem einstaklingar, fyrirtæki, borgir og sveitarfélög vinna saman að orkusparnaði í eina klukkustund laugardaginn 31. mars milli klukkan 20.30 til 21.30.

Reykjavíkurborg tekur þátt í þessum viðburði í fyrsta sinn ásamt tæplega 140 öðrum borgum og borgarbúum um víða veröld. Viðburðurinn er skipulagður af sjálfboðaliðum og er markmiðið að hvetja hvern og einn til að spá í hvað hann geti lagt af mörkum í þágu umhverfisins.

Dimman sem borgarbúar skapa þessa klukkustund er tákn yfir samtakamátt og vald fjöldans. Hún er einnig tákn yfir sparnað andspænis orkusóun. Markmiðið með þessum alþjóðaviðburði er að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismáli í víðu samhengi.

Reykjavíkurborg slekkur götuljósin í miðborginni og hvetur heimili, fyrirtæki og stofnanir til að slökkva einnig svo hægt verði að njóta þessa viðburðar betur. Einnig eru allir borgarbúar hvattir til að njóta stundarinnar með því að draga úr rafljósum. Milli klukkan 20:30 og 21:00 dregur hratt úr birtu og eftir 21:00 er myrkur í borginni og þá gefst vonandi tækifæri til að njóta stjarnanna.

Allt sem til þarf er að taka þátt, hún getur að lokum breytt heiminum til betri vegar.

Tengill:

http://www.youtube.com/watch?v=FovYv8vf5_E

http://www.earthhour.org/

https://www.facebook.com/EarthHourIceland

http://graennapril.is/