Greinasafn fyrir merki: Vinsemd

VINSEMD Á HEIMSPEKIKAFFI Í GERÐUBERGI

12_vef_feb_heimspeki_visitÍmyndum okkur heiminn án vinsemdar. Öllum væri sama um alla aðra. Enginn leitaði eftir samveru eða nánum tengslum. Mannlífið yrði án hlýju.

Heimur án vinsemdar yrði kaldur og vélrænn. Ljósið í augunum myndi fjara út og við myndum ekki lengur finna til samkenndar. Ekki rétta hjálparhönd eða hlaupa undir bagga hvert með öðru.

Enginn myndi koma í heimsókn til að njóta samvista, enginn sæktist eftir vinarþeli. Sennilega myndi fólk missa heilsuna og lífið styttast.

Heimur án vinsemdar yrði skeytingarlaus um mannleg verðmæti. Greinarmunur á réttu og röngu, góðu og illu myndi þurrkast út og vélræn afstaða til hlutanna yrði ríkjandi.

Heimur án vinsemdar yrði sviptur kærleika, væntumþykju og ástarsambanda því enginn myndi sækjast eftir alúð og innileika annarra.

Einhver gæti hugsað sér að heimur án vinsemdar yrði grimmur, fullur óvildar og þjáningar. En svo yrði ekki, því andstæðan yrði heldur ekki til.

Heimur án vinsemdar yrði einnig án einsemdar, því þetta tvennt er bundið órofa böndum. Tómið yrði allsráðandi.

Enginn hefur áhuga á heimi án vinsemdar en til að bæta heiminn er ráðið að læra og rækta vinsemd, temja sér vinsamlega hegðun og hugsun. Vinsemd er dyggð, tilfinning og viðhorf.

VINÁTTA

Vinsemd er góð byrjun en vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum. Góðir vinir bæta hver annan.

Enginn getur þekkt sjálfan sig nema í gegnum náin kynni við aðra manneskju. Við deilum tilfinningum okkar og hugsunum með vinum og treystum þeim fyrir innstu hugðarefnum okkar. Vinur er ekki aðeins félagi heldur kær félagi.

HEIMSPEKIKAFFI

Styrkleiki vinsemdar hefur víðtækari áhrif en margur hyggur, m.a. á farsæld, heilsufar og samfélag. Vinsemd verður í brennidepli á heimspekikaffinu heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20.00. Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um einsemd og vinsemd og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi mun fjalla um sterkt samband milli vinsemdar og heilsufars.

Tengill

Gerðuberg – 19. nóvember 2014

 

 

Deila