Greinasafn fyrir merki: virðing

Náttúrugildi, tækni og hraði

islandGildin í náttúrunni voru í brennidepli í sólstöðugöngu í Viðey 21. Júní 2014. Gunnar Hersveinn hélt tölu undir berum himni og tengdi saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru sem ef til vill er gott að hafa í huga í sumar.

1. NÁTTÚRUVERNDARI

Það er skylda náttúruverndara að veita aðhald, upplýsa og skapa umræðu gagnvart verkefnum sem skaða meira en þau bæta. Það er ekki aðeins lofsverð hegðun að gera það heldur skylda sem krefst oft hugrekkis og hugkvæmni. Verkefnið er það viðamikið um þessar mundir að það krefst verkaskiptingar, sumir upplýsa, aðrir skapa umræðu og þriðji hópurinn stundar aðhald með mótmælum.

Náttúruverndarar myndu ekki áorka miklu án mótmæla. Hlutverk þeirra er m.a. að standa vörð um villta náttúru. Maðurinn hefur raskað svo yfirþyrmandi mörgu í náttúrunni að það sætir furðu að hann skuli enn sífellt finna nýja staði til að manngera. Jafnvel ósnortin strandlengja, fjörður án þverunar, eyja og vegalaust hraun er á teikniborðinu líkt og hið náttúrugerða sé ekki nógu mikils virði.

Hlutverk náttúruverndara er einnig að kenna og efla virðingu gagnvart landslagi, stöðum, heimkynnum annarra og gagnvart náttúrunni allri, jafnt smáu sem stóru og út frá mörgum sjónarhornum. En dyggð er siðferðilegur eiginleiki sem hægt er að æfa með bóklegum og verklegum lærdómi.

2. FRIÐSEMD

Starf friðsemdar í náttúru Íslands snýst oft um að bjarga verðmætum undan eyðileggingarmætti græðgi og heimsku. Hún þarf sífellt að forða gersemum undan, hindra, stöðva, afla fylgis, afhjúpa og opna augu annarra. Tími og orka friðsemdar fer í björgunarstarf en miklu meira býr í henni – aðeins ef fólk gæfi henni tækifæri til að blómstra.

Friðsemdin beitir ekki aðferðum ofbeldis og eyðileggingar. Hún græðir og byggir upp. Hún getur verið kröftug sem dínamít en hún kúgar aldrei. Hún getur verið beittur penni og orðhvöss tunga en þrátt fyrir það eru sérkenni hennar vinsemd og sátt. Hún nemur ekki staðar, hún heldur áfram og einkenni hennar eru víðsýni og innsýn í betri framtíð.

Hún getur staðið fyrir kröftugum mótmælum og einnig byltingum. Hún getur bundið sig með keðjum á stórvaxnar vinnuvélar eyðileggingarinnar. Hún er fangelsuð víða um heim af hræddum kúgurum í nafni lyginnar. Hún hrópar og hún skammar – en hún er ekki flagð undir fölsku skinni eins og mótherji hennar.

Friðsemd er höfuðdyggð náttúruverndara. Framtíðarvelferð lands og þjóðar, vitundin um velferð næstu kynslóðar, vistkerfis og lífríkis knýr hana áfram. Þaðan fær hún orkuna. Hún skapar ekki óvild og vekur ekki upp hatur heldur hvetur til umræðu á jafnræðisgrunni.

Friðsemdin er engin lydda, hún er óstýrilát gagnvart kúgandi valdi. Hún er sjaldan í fréttum því aðferð hennar felur ekki í sér ógn eða sigur, ekki kænsku eða dauða. Samt er hún bylting.

Við erum ekki aðeins, íbúar í borg, bæjum og sveitarfélögum. Við erum einnig staðurinn, landslagið, umhverfið og náttúran öll.

3. BIÐLUND

Við stöndum í biðröð eftir einhverju eða bíðum í röð á símalínu. Við bíðum eftir tíma, bíðum eftir að fá aðgang eða inngöngu eða að sleppa aftur út. Við röðum okkur upp – eða ekki. Hvern einasta dag bíðum við eftir einhverju og sennilega bíða einhverjir eftir okkur.

Bið getur falið í sér eftirvæntingu, kvíða, streitu, gleði eða ugg. Hún er alls ekki tóm eða tilgangslaus, hún er full af lífi. Bið þarfnast þolinmæði og þrautsegju. Hún kallar á þolgæði gagnvart hindrunum, áskorunum, töfum og framvindu. Biðlund þarf til að meta aðstæður, tíma og viðbrögð. Bið er rúm til að íhuga og endurmeta – áður en það verður of seint.

Við bíðum oft eftir að eitthvað renni upp eða líði hjá í náttúrunni. Við bíðum eftir sólarupprás eða sólarlagi, eitthvað byrji, endi eða fari í hring. Vind lægi eða að það gefi byr í seglin. Það rigni eða stytti upp. Bið er lífsháttur en sá sem þurrkar út biðina í lífinu sínu er sagður lifa í núinu.

Náttúran bíður ekki, það er flóð eða fjara, hún líður, rís og hnígur, ólgar og róast. Hún býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir mannfólk og aðrar lífverur – eða ekki, jörðin er frjósöm eða hrjóstug.

Mannstæknin snýst oft um að stytta eða þurrka út bið og að fullnægja óskum fólks umsvifalaust: núna! Bið virðist óbærileg á Vesturlöndum þar sem flestallt snýst um hraða samhliða hinni gegndarlausu framþróun.

Það er hlutverk þeirra sem fylgja sjálfbærni og vinna gegn skammsýni: að verja náttúruna. Þeirri vörn lýkur aldrei. Biðlund er vissulega dyggð en bíðum ekki boðanna. Bið er betri en bráðræði.

4. TÆKNI

Tækniborgarsamfélag gaf borgarbúum tækifæri til að að yfirgefa náttúruna og stíga endanlega inn í heim tækninnar. Börn náttúrunnar urðu jafnskjótt jaðarhópur og homo technologicus varð nýtt viðmið á rétt og rangt, gott og vont. Farsældin varð tæknivædd og hið tignarlega varð manngerð náttúra líkt og fossinn Hverfandi í Kárahnjúkastíflu.

Tækniborgarbúinn glataði fljótlega sambandinu við náttúruna. Raflýsing þurrkaði út greinarmun dags og nætur. Störfin urðu óháð árstíðunum. Athafnir, viðburðir og verkefni urðu óháð árstíðum og manninum í sjálfsvald sett hvernig þeim er raðað niður á dagatalið. Veðrið hefur heldur ekki mikil áhrif því ferðir milli húsa eru í raun óþarfar.

Tæknimaðurinn sigraði náttúruna og á tæknilausnir við flestöllum hennar lögmálum. Hún getur ekki komið manninum lengur á óvart og því virðast flestallar aðstæður viðráðanlegar og leita má tæknilegra lausna á hverju því sem truflar eða vekur ugg þótt eina ráðið gegn gróðurhúsaáhrifum sé að temja sér nægjusemi.

Dyggðir sem glatast í vestrænum tæknisamfélagum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og virðing fyrir náttúrunni. Markaðurinn í tæknisamfélaginu býður upp á skeytingarlausa sölumennsku sem snýst um að fá allt strax og selja það síðan.

Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. En hvað með náttúruvernd í ljósi hraða- og tæknisamfélagsins? Svara þyrfti nánast öllum sviðum mannlífsins og borgarlífsins með hæglæti

Náttúruvernd snýst ekki aðeins og einungis um að bjarga óviðjafnanlegum svæðum frá eilífri glötun í gin tækninnar heldur einnig um að varðveita nauðsynlegt samband mannsins við náttúruna sjálfa.

Tæknin og hraðinn hafa fært okkur margt en því miður færa þau okkur jafnframt fjær náttúrunni. Það sem okkur skortir er hæglæti.

5. KÆRLEIKUR

Kærleikur er meira en dyggð, meira en tilfinning og meira en viðhorf. Hann birtist þegar væntumþykjan breiðist út fyrir innsta hring, líkt og vinarhönd sem teygir sig til ókunnugra. Kærleikurinn hefur biðlund, hann hugsar sig lengi um en raskar ekki jafnvæginu í náttúrunni.

Tákn hans er fugl sem veitir ungum skjól undir vængjum sínum. Kærleikurinn verpir ekki öllum (fjör)eggjum sínum í stakt hreiður og teflir hvorki auði sínum né annarra í tvísýnu vegna þrjósku eða augnabliksþarfar. Andstæða kærleikans er tómleiki, tómt hreiður.

Viskan er lík kærleikanum, hún er strengur á milli kynslóða og ráðlegging um umgengni við náttúruna. Hún mælir með varkárni og virðingu mannsins gagnvart náttúruöflunum. Tákn viskunnar er vatnið, það er safn upplýsinga um lífið. Andstæða viskunnar er tómið, uppþornað stöðuvatn.

Íslensk náttúra þarf líkt og öll náttúra á hnettinum á kærleika og visku að halda því þetta par er ekki múrað innan landamæra og girðinga stað- og tímabundinna hagsmuna. Þau eru lík fiskum sem þrífast best í heilbrigðu hafi og vatni og fuglum sem þurfa á heilnæmu lofti að halda, hvort sem það er í vestri, suðri, austri eða norðri.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi. Stund tómlætis er liðin, tími væntumþykju og þolgæði hafinn.

6. VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Skynja fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

 

Náttúrugildin virðing, biðlund, kærleikur, náttúruvernd og friðsemd þurfa að vera kröftug í tækni- og hraðasamfélaginu, þau þarf að læra og æfa.

Sólstöðugangan er meðmælaganga með lífinu og er m.a. skipulögð af Þór Jakobssyni og Viðey – Reykjavíkurborg.

Gunnar Hersveinn

 

 

Deila

EKKI GLATT Í DÖPRUM HJÖRTUM

barnOrkan brennur upp í taumlausri löngun til að vera fremst þjóða. Enginn vill rifja upp mislukkaðar tilraunir til að þjóna þessari þrá, aðeins er horft fram á veginn í leit að nýjum tækifærum til að öðlast virðingu fyrir að vera best í heimi.

Aðeins ef metnaðurinn stæði til þess að vera þjóð meðal þjóða, stolt þjóð sem tekur þátt í því með öðrum að bæta lífskjör annarra jarðarbúa. Þessi metnaður væri nóg fyrir vestræna velmegunarþjóð í gjöfulu landi.

Ísland hafði sett sér metnaðarfulla áætlun um að komast yfir 0,3% til þróunarsamvinnu en viðmiðunarlöndin Danmörk, Svíðþjóð og Noregur veita yfir 0,7% af þjóðarframleiðslu til þessa málaflokks.

Nú berast þær fréttir að Ísland stefni fremur undir 0,2% en í þá átt sem önnur Norðurlönd ganga. Það er sorglegt, það er ekki vilji þjóðarinnar. Ákvörðun um niðurskurð í þróunarsamvinnu vinnur gegn þrá þjóðarinnar um virðingu.

Þjóð sem verður fremst þjóða í skjótfengnum gróða öðlast ekki virðingu, þjóð sem gortar af snilld sinni og þráir aðdáun valdaþjóðanna, verður annað hvort aðhlátursefni eða vekur öfund, ótta og óvild.

Til er lögmál sem ætti að höfða til stjórnmálafólks. Það hljómar svona: „Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin, 2010).

Mælikvarðar í vestrænni siðfræði, kennisetningar í trúarbrögðum, fjölmargar niðurstöður skáldsagna og hug- og félagsvísindarannsókna vitna um að meiri líkur eru á gæfu þeirra sem gefa en þeirra sem taka.

Þetta er lögmál í mannheimum sem á ekki aðeins við um einstaklinga heldur einnig þjóðir. Allir alast upp við þessa vitneskju og flestir heyra nefnt að allra best sé að gefa/hjálpa öðrum án þess að búast við endurgjöf – en trúir því einhver?

Það er ekki góð jólagjöf að draga úr þróunarsamvinnu í stað þess að efla hana. Í dag er ekki glatt í döprum hjörtum.

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Við getum breytt lífi annarra

Þróunarsamvinnustofnun

 

 

VIRÐING OG VANTRAUST

Vantraust er ekki aðeins hugtak sem lýsir efasemdum milli manna eða þjóða, efasemdum um heilindi eða áreiðanleika. Vantraust er að vera í lausu lofti, ganga þar sem jörðin er ekki lengur undir fótum, svífa líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Vantraust hefur engan áfangastað, veruleikinn hverfur, gufar upp jafnóðum og hann birtist. Haldreipin renna úr höndum, síðasta hálmstráið slitnar og fallið finnur engan botn.

Ef samband manns og umhverfis er tómlegt ríkir eyðileggingin ein, engin uppbygging, aðeins sóun. Vantraust yrði andrúmsloftið.

Andheiti vantrausts er ekki aðeins traust heldur einnig virðing og kærleikur. Vantraust er snautt af langlundargeði, fullt efa þar sem fortíðin er óvissan ein og ekki er hægt að reiða sig á neina framtíð.

Vantraust felur í sér skeytingaleysi gagnvart vistkerfinu, rétti og réttindum annarra lífvera og náttúrufyrirbæra.

Þetta marklausa vantraust gagnvart framtíðinni og komandi kynslóðum er uppspretta sóunar og ástleysis gagnvart auðlindum og gjöfum lífsins. Vantraust er sjálfseyðing.

Maðurinn tók sér vald og stjórn á umhverfinu, hann setti sig skör hærra en allt annað á landi og sjó. Hann tók sér vald sem hvílir ekki á gagnkvæmu sambandi.

VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Nema fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Virðing lífgar samband manns og náttúru, vantraust deyðir það. Firring er fylgifiskur vantrausts: sambandið dofnar og maðurinn verður einráður og hrokafullur og væntumþykjan hverfur.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Gunnar Hersveinn
lifsgildin.is

Virðing og vinsemd

Skortur á virðingu gagnvart öðrum lífverum, skortur á virðingu gagnvart landslagi, gagnvart stöðum, heimkynnum annarra og gagnvart náttúrunni allri er sennilega það sem veldur mestum skaða á jörðinni um þessar mundir.

Skortur á kærleika, skortur á vinsemd, skortur á hófsemi, hugrekki, framtíðarsýn og skortur á auðmýkt gagnvart lífinu á jörðinni – gefur heimskunni og græðginni tækifæri til að láta greipar sópa um ómetanlegar auðlindir sem næstu kynslóðir fá ekki að njóta.

Heimskan hrópar: tíminn rennur út, hugsaðu um sjálfan þig, seldu núna! Græðgin segir: ekki hika, taktu þetta, þú færð svo meira á morgun, annars færðu ekkert. Hjá þeim er engin framtíð og það er ekki tilviljun að við gefum þeim nöfn eins og lestir, gallar, brestir, ókostir.

Heimska og græðgi búa ekki yfir virðingu eða framtíðarsýn aðeins tálsýn. Jafnvel þótt næg þekking standi til boða getur heimskan auðveldlega ráðið för – aðeins ef hún býr yfir drifkrafti græðginnar.

Skeytingarleysi er skelfilegur mannlegur galli sem vex með þeim sem læra ekki að bera virðingu fyrir öðrum og öðru. Þar er svo tómlegt um að litast að aðrir mannlegir lestir búa um sig í gímöldum skeytingarleysisins. Sá sem leyfir þessum galla að vaxa tapar sambandi sínu við mannúðina.

Hvert augnablik getur framtíðin brugðist til beggja vona. Framtíðin veltur ekki aðeins á ytri öflum, hún veltur ekki á örlögum, ekki aðeins á öðrum, heldur einnig á okkur, hverju og einu. Sá og sú sem vill skipta máli, getur skipti máli – aðeins ef hún vill.

Enginn kemst undan mannlegum göllum en hver og einn getur valið sér mannlega kosti til að efla. Hugsjónin um jafngóða og betri veröld fyrir næstu kynslóðir ber vitni um virðingu og vinsemd. Hún er ekki sjálfselsk og skeytingarlaus heldur hefur lyft sér yfir tíðarandann.

Virkur borgari er ekki aðeins að störfum hjá fyrirtæki eða hagsmunahóp, heldur jafnframt ábyrgur gagnvart næstu kynslóð. Ef honum og henni er sama um lífverur og lífsskilyrði framtíðarinnar – hefur hún orðið firringunni að bráð og þarf á endurhæfingu að halda.

Drögum lærdóma af fortíðinni og veitum náttúrunni stöðu í hjarta okkar með komandi kynslóðir i huga. Eflum kjarkinn til að skapa samfélag þar sem viska fjöldans sprettur fram. Ræktum jarðveginn fyrir margskonar atvinnugreinar fyrir alla, jafnt konur sem karla.

Höldum áfram að vinna verkin sem þarf að vinna, tökum mið af góðum fyrirmyndum genginna kynslóða og afhendum vongóð nútíðina til næstu kynslóðar.

Gunnar Hersveinn 4. des. 2011
www.lifsgildin.is

Innri varnir með börnum


Ég tók þátt í hlustunarfundi í dag, 2. nóvember, um trú og skóla. Sjá nánar hér. Fundurinn var vel sóttur og góð erindi flutt. Ég fjallaði um hugtökin sem komu fram á fundinum og sagði eftirfarandi:

UM SIÐFRÆÐI
Siðfræði er vísindaleg hugsun og aðferð, markmið hennar er að finna almennar reglur sem verja það sem mönnum er mikilvægast: réttinn til að lifa mannsæmandi lífi. Hún mælir iðulega með lífinu og virðingu fyrir öllu sem lifir. Siðfræðingar þurfa ekki fremur en aðrir vísindamenn að taka afstöðu til guðs eða trúarinnar í starfi sínu, því guð er ekki fyrirfram gefin forsenda í þeirra fræðum. Markmið þeirra er fremur öðru að skilgreina hvaða líferni leiðir til hamingju og hvað til óhamingju. Heimspeki og siðfræði er leitin að sannleikanum, guðfræði er rannsókn á sannleikanum. Sannleikurinn sjálfur er hulin ráðgáta.

UM TRÚ
Íslendingar eru sprottnir upp úr ýmiskonar menningararfleifð, aðallega kristni, norrænni goðafræði, gyðingdómi og grískri heimspeki, auk áhrifa frá Asíu. Trú verður ekki opinberuð með aðferð skynseminnar. Trú hvílir ekki á sannreynanlegum staðreyndum heldur sterkum grun eða jafnvel ímyndun. Trúmaðurinn gerir ekki útreikninga áður en lagt er af stað – heldur lætur hjartað ráða för. Hann trúir á það sem ekki sést en efast um það sem virðist vera. Trú felst í því að stökkva af rökbrettinu, svífa í loftinu og vona að það sé vatn í guðslauginni.

UM LÍFSSKOÐUN
Lífsskoðun þarf ekki að vera trúarskoðun. Hún getur verið reist á viðhorfum til lífsins og tilgátum eða kenningum um líf og dauða. Manneskja getur boðað lífsskoðanir með markvissum hætti til dæmis með því að stofna félag um það eða hóp. Félagið getur síðan haft það á stefnuskrá sinni að útbreiða boðskapinn vegna þess að það telur að því fleiri sem aðhyllist þessa lífsskoðun, því betra verði samfélagið. Lífsskoðanir geta verið veraldlegar ólíkt trúarskoðunum.

UM BARNIÐ
Barnið er frumskjólstæðingur okkar. Námið felst í því að leiðbeina því í að temja hugann. Kenna því að þekkja skemmd epli frá óskemmdum og efla með því gagnrýna hugsun. Mennt er máttur! Verkefnið er að efla innri varnir með börnum svo þau geti sjálf tekist á við öllu þau áreiti sem þjóta um í samtímanum. Markmiðið í skólastarfi er meðal annars: að kenna heillavænleg gildi og viðhorf, mannkosti, svo börnin öðlist sjálf innri varnir til að takast á við veruleikann og þær ólíku skepnur sem búa í tíðarandanum.
UM VIRÐINGU
Virðing er grundvallargildi í öllum mannlegum samskiptum og umgengni gagnvart jarðlífinu öllu. Að rækta virðinguna er forsenda góðs samfélags. Lögmál virðingarinnar er að sá sem ber virðingu fyrir öðrum öðlast virðingu annarra. Virðing er dyggð helsta mannréttinda, hún er burðarvirki menningar þar sem lögð er áhersla á frið og stöðugleika. Að heiðra og virða aðra er forsenda velgengni í sátt og samlyndi. Ástæðan fyrir því að börnum var í öndverðu kennt að bera virðingu fyrir öðrum var sú að reynslan sýndi að þá urðu þau farsæl. Virðing er að umgangast aðra með tillitssemi, þekkja rétt annarra og kunna að meta hann.

SAMLÍÐUN
Samlíðun er fallegt orð, í því felst að geta sett sig í spor annarra, skynja samhljóminn milli einstaklinga, finna til með öðrum, gleðjast með öðrum, syrgja með öðrum, vera ekki sama og vilja gefa öðrum eitthvað af sér. Samlíðun er aflið en hún er ekki eingöngu kennd með orðum eða texta, heldur er hún ræktuð með börnum. Máttur hennar er mikill, hún er til að mynda árangursrík gegn einelti.

UM UMBURÐARLYNDI
Umburðarlyndi er að þola öðrum mönnum að hafa skoðanir, halda í heiðri hefðir, vera af ólíkum litarhætti og iðka trú af ólíkum toga. Umburðarlyndi er  lykill að bættum samskiptum. Umburðarlyndi kemur í veg fyrir að menn verði of fljótir til að dæma en það er ein meginástæða mistaka í samskiptum milli manna, hópa og þjóða. Þolinmæði í þrautum vex og verður langlundargeð gagnvart brestum, göllum, veikleikum og eigin gæfuleysi sem annarra.

UM FORDÓMA
Við eigum öll við einhverja fordóma að stríða og til að sigrast á þeim verðum við að skoða hug okkar. Náin persónuleg kynni á jafnréttisgrunni eru besta leiðin til að eyða fordómum okkar.

UM SAMRÁÐ
Tengsl milli skóla, trúar og lífsskoðunarhópa eru greinilega viðkvæm. Af þeim sökum er samráð milli aðila lykilatriði. Hverjir eru í hópnum? Börn, foreldrar, skólafólk, yfirvöld og fulltrúar trúar og lífsskoðunarhópa. Hlustum saman, tölum saman. Frumskjólstæðingur okkar í þessu máli eru börnin. Verkefni okkar er að finna farsæla og uppbyggilega lausn þar sem gagnrýnin hugsun og innri varnir barna eru efldar.