Greinasafn fyrir merki: viska fjöldans

KÆRLEIKUR OG VISKA

Kærleikur er meira en dyggð, meira en tilfinning og meira en viðhorf. Hann birtist þegar væntumþykjan breiðist út fyrir innsta hring, líkt og vinarhönd sem teygir sig til ókunnugra.

Kærleikur er ekki sjálfgefinn heldur sprettur fram í samfélagi fólks sem hugsar ekki aðeins um eigin hag heldur annarra og ekki eingöngu samtíðarfólks heldur næstu kynslóðar. Augu kærleikans horfa úr höfði tímans en ekki stundarinnar. Þau sjá í gegnum holt og hæðir.

Ástarþrá hrífst af einstakri fegurð og vill girða svæðið sitt af. Kærleikurinn er víðsýnn, hann svífur yfir vötnum, dölum og fjöllum líkt og fugl. Hagsmunir hans eru ekki bundnir við einstaka bletti heldur vistkerfið allt, haf- og loftslagsstrauma.

Kærleikurinn hefur biðlund, hann hugsar sig lengi um en raskar ekki jafnvæginu í náttúrunni.

Tákn hans er fugl sem veitir ungum skjól undir vængjum sínum. Hann verpir ekki öllum (fjör)eggjum sínum í stakt hreiður og teflir hvorki auði sínum né annarra í tvísýnu vegna þrjósku eða augnabliksþarfar.

Andstæða kærleikans er tómleiki, tómt hreiður.

Viskan er það sem skynsemin leitar að, hún er ekki tímabundin tilgáta sem fellur úr gildi heldur má nema hana úr náttúrunni og samfélaginu. Hún blasir oft við þótt fáir taki eftir henni. Mælskulist hefur ekki áhrif á hana, ekki peningar eða tilboð.

Viskan safnast einfaldlega upp með tímanum og þótt hún geti glatast á milli kynslóða má grafa hana upp aftur. Hún er ekki tískusveifla.

Viskan er lík kærleikanum, hún er strengur á milli kynslóða og ráðlegging um umgengni við náttúruna. Hún mælir með varkárni og virðingu mannsins gagnvart náttúruöflunum.

Mannleg skynsemi er stundum sögð snauð og lík reiknivél en markmið hennar er þó ekki merkingarlaust: lífveran vill lifa en ekki deyja eða tortíma umhverfi sínu. Viskan mælir ekki með taumlausri velferð á kostnað annarra heldur jafnvægi allra hluta. Heimskan útrýmir á hinn bóginn og grefur undan framtíðinni með markalausri athafnasemi sinni.

Skynsemin og forvitnin þurfa því á öllum rannsóknum sínum og gagnasöfnun að halda og efla þarf hvers konar fræðslu og menntun um móður jörð. Viskan opinberast þó ekki fyrr en með tímanum, eftir yfirvegun og mat á reynslu kynslóðanna, því allt þarf að tengja saman til að heildarmyndin verði sýnileg.

Tákn viskunnar er vatnið, það er safn upplýsinga um lífið.

Andstæða viskunnar er tómið, uppþornað stöðuvatn.

Kærleikur og viska eiga samleið en andheiti þeirra beggja er tóm, tómleiki, eyðimörk og kuldi, það sem slitið er úr samhengi og einangrað.

Íslensk náttúra þarf líkt og öll náttúra á hnettinum á kærleika og visku að halda því þetta par er ekki múrað innan landamæra og girðinga stað- og tímabundinna hagsmuna. Þau eru lík fiskum sem þrífast best í heilbrigðu hafi og vatni og fuglum sem þurfa á heilnæmu lofti að halda, hvort sem það er í vestri, suðri, austri eða norðri.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi.

Stund tómlætis er liðin, tími væntumþykju og þolgæði hafinn.

Deila