lydraediMynd

Tíðarandar takast á

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október var meiriháttar áfangi. Gamli tíðarandinn situr eftir í skotgröfunum, „feigur og farinn á taugum“ og ný tíð svífur yfir vötnum.

Íslensk þjóð gat tjáð sig eftir hrunið um hvað hún vildi og hvert hún ætlaði að fara og sú viska birtist í þjóðfundunum 2009 og 2010. Hún kom sér saman um nokkur þjóðgildi: ábyrgð, heiðarleika, frelsi, virðingu, réttlæti, lýðræði, jöfnuð, jafnrétti, sjálfbærni, mannréttindi, fjölskyldugildi, kærleika og traust.

Verkefnið var að sameinast um þjóðgildi, ekki að velja lið, hægri eða vinstri, heldur rækta og efla grunngildi sem voru vanrækt.

Gamli tíðarandinn varð firringunni að bráð. Hann glataði samábyrgð sinni, missti tök á sjálfsaganum og geystist hátt í loft upp og féll til jarðar. Núna er hann „knýttur og kalinn“.*

Hann er þó ekki alveg „brotinn og búinn“ og mun enn gera tilraunir til reisa tálma og torvelda för með úrtölum og bölmóði. Næsta verkefni hjá öðrum er því bæði að greiða leið og verjast fúkyrðunum.

Ósk og þrá þjóðarinnar býr í gildunum sem valin voru á þjóðfundunum og sem unnið hefur verið úr síðan: að móta samfélag sem byggir á jöfnuði, réttlæti og virðingu, frelsi og samábyrgð.

Verkefninu er ekki lokið, sennilega mun lokaáfanginn taka mest á. Ef til vill var þetta aðeins ágætis æfing.

Gunnar Hersveinn

*tilvitun í Megas: Gamli sorrí gráni.

Deila