island

TIL HVERS AÐ SKIPTA UM STJÓRNARSKRÁ?

islandNý stjórnarskrá Íslands sem stjórnlagaráð lagði fram til stjórnskipunarlaga er magnað mál sem næstum hver einn og einasti borgari hefur tjáð sig um. Gunnar Hersveinn hélt ræðu á Ingólfstorgi á fundi RADDA FÓLKSINS vegna stjórnarskrámálsins þar sem hann hugleiddi hvers vegna það mætti skipta um stjórnarskrá og hvaða áhrif það gæti haft.*

I. STJÓRNARSKRÁ

Stjórnarskrá er auga samfélagsins. Hún hefur áhrif á allt – jafnvel þótt við tökum ekki eftir neinu, jafnvel þótt við séum sjálf blind á áhrif og völd. Hún hefur áhrif á skoðanir, hugarfar og framkvæmdir.

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekki sér.

Gamla stjórnarskráin er mótuð og túlkuð af gamla rótgróna valdinu sem vill af skiljanlegum ástæðum ekki afnema hana. Ný stjórnarskrá yrði ný byrjun, ný von, nýtt andlit eða að minnsta kosti ný gleraugu.

II. TÍÐARANDI

Gamli tíðarandinn flaug fram af hengifluginu, gráðugur og fífldjarfur, aga- og taumlaus með óbilandi bjartsýni í augum án marka, án gildi gagnvart öðrum, landi og þjóð. Hann hrærðist í spilltu, skeytingarlausu hagkerfi.

Nýi tíðarandinn bjó með þjóðinni og spratt fram eins og fugl af hreiðri þegar sá gamli strikaði fótur og flaug fram af. Hann er gagnsær og sjálfbær og vísar á fjölræði í stað fáræðis. Hann stjórnast af visku þjóðarinnar um grunngildin: jöfnuð, réttlæti og virðingu, samábyrgð og lýðræði.

Ný von mótaði nýju stjórnarskrána sem enn hefur ekki tekið gildi.

III. KERFIÐ

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekkert sér nema eigin spegilmynd.

Sú gamla mótast af sjónarmiðum til þjóðar og náttúru sem nú eru úrelt. Hún er túlkuð af mannhverfu sjónarhorni  sem ofmetur hagkerfið og vanmetur vistkerfið. Vöxtur hvílir ekki á sérhag mannsins heldur umhverfi hans og náttúru.

Hagkerfið hleypur í loftköstum en vistkerfið er hringrás. Hagkerfið hvílir á samkeppni og gróða en vistkerfið á sjálfbærni og samvinnu. Mannkerfið, hagkerfið og gamla stjórnarskráin þarfnast endurnýjunar við.

Hið gamla byggir á sundrung, vægðarlausri græðgi og einhæfni sem hafa gefið heiminum stríð, kreppur, átök, fátækt og misrétti.

Næsta meginregla snýst um að deilda gæðum, vinna saman, fjölbreytni og jafnvægi, heild og skilningi á sameiginlegum hagsmunum og að vistkerfið verði viðmiðið en ekki tímabundin skekkja í hagkerfinu sem sífellt þarf að leiðrétta.

IV. NÁTTÚRAN

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekki veit.

Ný stjórnarskrá mun breyta þjóðarsálinni og hafa djúp áhrif á viðhorf hennar til náttúrunnar. Hún kveður á um réttindi náttúrunnar. Náttúrusvæði öðlast eigið virði og geta vegið þyngra en hagsmunir tiltekinna hópa manna.

Náttúrsvæði, náttúruundur, -perlur og heimkynni annarra lífvera mun ekki ávallt og ævinlega vera léttvæg fundin út frá mannhverfum viðhorfum gamla tíðarandans. Þeirra virðing er komin!

Mannveran er út frá visthverfu sjónarhorni meðlimur í lífrænu samfélagi jarðar. Maður og náttúra eru eitt – og gildin sem þarf að rækta eru nærgætni, hófsemd og virðing til að ná jafnvægi.

V. FRAMTÍÐIN

Til hvers? spyr sá sem sér ekki breytinguna í vændum.

Ný stjórnarskrá er lykill að framtíðinni. Gamla valdið er feigt og farið á taugum – og enginn vill lifa innan um afturgöngur.

Ný stjórnarskrá yrði róttæk breyting á viðhorfum til sambands manns og náttúru, samband sem byggist á sjálfbærni. Hún yrði ekki aðeins fyrir þjóðina heldur einnig fyrir vistkerfið.

VI. UPPHAFSORÐ

Lýðræði var óljós hugsun þegar gamla stjórnarskráin var sett. Árið 2013 er lýðræði hátt skrifað þjóðgildi sem þarf að læra og rækta.

Ný stjórnarskrá er nauðsynleg fyrir nýjan tíðaranda, fyrir þjóð og náttúru, fyrir næstu kynslóð. Hún er bylting í þágu náttúrunnar.

Til hvers að skipta um stjórnarskrá?

Til að styðja siðvæðingu Íslands og til að nea lýðræðislega ábyrgð og til að uppfylla skylduna gagnvart næstu kynslóð.

Gefumst ekki upp, höldum áfram, vinnum verkið vel. Búast má við margskonar hindrunum og mikilsháttar tálmum á leiðinni en jafnvel þegar öll sund virðast lokuð: eygir bjartsýnnt augað von.

GUNNAR HERSVEINN

www.lifsgildin.is

*Ræðan var flutt 16. mars 2013 út frá stykkorðum á blaði en ofangreint er textinn sem punktarnir byggðu á.

Deila