israel-palestine

TVEGGJA KARLA TAL

israel-palestineVestur eða austur? Já eða nei? Gott eða illt? Hægri eða vinstri? Sigur eða tap? Stríð eða friður? Svona er meginstraumurinn í Vestrænum fréttamiðlum.

Fréttamiðlar búa við rótgróna aðferð við að segja fréttir, aðferð sem byggir á átökum. Heimavöllur fréttanna er skákborðið. Persónum, hópum, flokkum, þjóðum, heimsálfum og hugmyndakerfum er vísað til sætis við skákborð fréttamiðlanna. Skerpt er á því sem skilur að og þeim boðið að tefla í fjölmiðlum þar til annar er skák og mát, fellur á tíma, gefst upp eða sigrar.

Venjan í fréttamiðlum hvílir á því að etja saman andstæðingum, segja frá grimmdarverkum og ofbeldisfullum svörum við þeim. Þetta er kölluð hlutlaus fréttamennska en hún er í raun þáttur í átakamenningu. Hlutlaus fréttamennska er sögð byggð á staðreyndum. En í raun eru staðreyndirnar svo margar að einungis er hægt að velja úr tilteknar staðreyndir og það er gert út frá viðmiðum átakanna.

Í stríði er lygi leyfileg, blekkingar og allt það sem borgarar heimsins forðast og kenna ekki börnum sínum. Fyrir nokkrum árum mátti sjá á forsíðum vestrænna fréttamiðla andlitsmynd tveggja karla sem áttu á túlka Íraksstríðið: Saddams og Bush með fyrirsögninni: Hvor vinnur? (Who will vin?). Allir töpuðu – ekki síst heimafólk. Verður næsta stríð við Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu? Hvaða karl ætlar í hann? Ástandið í Kóreu er afkvæmi átakamenningar á 20. öldinni.

Stríðsfréttir snúast um núning, um gap, um hvað ber á milli, um tækni, um magn, stærð og ógn. Ekki um margbreytileika, réttlæti, félagslega stöðu eða líf barna og framtíð, ekki um konur sem standa fyrir byltingum án ofbeldis (Líbería).

Fréttafólk flytur skakkar fréttir og nefnir nöfn kennd við hið illa og hið góða. Engin skýring er gefin því þetta er flokkað sem staðreynd. Á milli línanna berast þau skilaboð að ofbeldi þeirra sem standa réttu megin við ímyndaða línu sé réttlætanlegt. Fréttin sem „hlutlausu“ stríðsfréttaritarnir flytja er vatn á myllu vopnaframleiðenda en vinnur gegn mannréttindabaráttu.

Stríð er ofbeldi, ofbeldi er aldrei réttlætanlegt, samt er það látið viðgangast og sagðar eru fréttir af því á sama hátt og hverju öðru. Það er alröng nálgun, byggð á heimsku og leti. Málið er þó ekki að hætta að segja fréttir af ofbeldi heldur að spyrja um áhrif ofbeldis á daglegt líf fólks. Spyrjum fréttafólk: Hvers vegna hlustið þið á tveggja karla tal og heyrið ekki allar þær margbreytilegu raddir sem hljóma og hrópa á friðsemd?

Miðvikudaginn 20. febrúar kl. 20 munu Gunnar Hersveinn og Helga Þórólfsdóttir friðarfræðingur fjalla um stríð og frið á heimspekikaffihúsinu í Gerðubergi. Gunnar mun m.a. segja frá muninum á stríðsfréttaritara og friðarfréttaritara. Helga lýsir því hvernig hugmyndir hennar um stríð og frið breyttust við störf hennar á átakasvæðum.

Heimspekikaffi í Gerðubergi

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Ljósmynd/ úr UNHATE herferð Benettons http://unhate.benetton.com/gallery/china_usa/

 

 

 

Deila