10_des_GH_mbl

Viðtal í Morgunblaðinu 4. des

Morgunblaðið 4. desember 2010
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Að bæta samfélagið
Bókin Þjóðgildin eftir Gunnar Hersveinn er veganesti inn í umræðu um það í hvernig samfélagi Íslendingar vilja búa. Verkefnið framundan er að eiga samræðu um það mál.
Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, hefur sent frá sér bókina Þjóðgildin. Hann leggur áherslu á að ritið sé handa almenningi og öllum fræðihugtökum því sleppt. Frumhugmyndin að bókinni eru gildin 12 sem valin voru á Þjóðfundinum 2009; heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikar, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskylda, jöfnuður og traust.
“Ég bætti svo við einu, hófsemd, einu af höfuðgildum Forn-Grikkja sem felst í sjálfsaga og nægjusemi. Því að hver maður þurfti að fækka löngunum sínum til að geta unnið betur með tiltekna hæfileika – þetta er akkúrat andstæðan við græðgi, sem felst í því að uppfylla sem flestar hvatir og langanir. Mikið var talað um að græðgin væri meginlöstur Íslendinga og því vildi ég hafa hófsemdina með, því hún er sjaldan valin sem vinsælt gildi en allir þurfa samt á henni að halda.”
Gunnar setur síðan fram eftirfarandi tilgátu: “Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugmyndum, með það að markmiði að bæta heiminn, batnar það sjálft. Gjöf gefin af góðsemi hefur gæfu að geyma.”
Hann segir meginspurninga í þessum vangaveltum vera í hvernig samfélagi Íslendingar vilja búa. „Þegar svona margir koma saman, eins og á Þjóðfundinum, og nota samræðuaðferðina til að laða fram visku þá segir innri rödd þjóðarinnar að efla þurfi þessi gildi. Það er byrjunin, síðan verðum við að finna leiðir til þess. Hvað þurfum við þá að gera? Við getum ekki bara hengt þau upp á vegg heldur þurfa menn að leggja eitthvað á sig, til dæmis að líta í eigin barm og temja sér heiðarleika, að gæta þess að traðka ekki á öðrum eða hlunnfara aðra; leggi maður áherslu á það í uppeldi barnanna smitar það út í nærumhverfið. Lykilatriðið er að eiga samtal um málið. Íslendingar gleyma því oft og ákveða í staðinn að setja sér fallegar siðareglur, einhverjir semja þær og skrifa niður, þær eru stimplaðar og samþykktar en þar sem enginn tók þátt í umræðunni fer enginn eftir reglunum og enginn skánar.”
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *