GH_virdingogvantraust

VIRÐING OG VANTRAUST

Vantraust er ekki aðeins hugtak sem lýsir efasemdum milli manna eða þjóða, efasemdum um heilindi eða áreiðanleika. Vantraust er að vera í lausu lofti, ganga þar sem jörðin er ekki lengur undir fótum, svífa líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Vantraust hefur engan áfangastað, veruleikinn hverfur, gufar upp jafnóðum og hann birtist. Haldreipin renna úr höndum, síðasta hálmstráið slitnar og fallið finnur engan botn.

Ef samband manns og umhverfis er tómlegt ríkir eyðileggingin ein, engin uppbygging, aðeins sóun. Vantraust yrði andrúmsloftið.

Andheiti vantrausts er ekki aðeins traust heldur einnig virðing og kærleikur. Vantraust er snautt af langlundargeði, fullt efa þar sem fortíðin er óvissan ein og ekki er hægt að reiða sig á neina framtíð.

Vantraust felur í sér skeytingaleysi gagnvart vistkerfinu, rétti og réttindum annarra lífvera og náttúrufyrirbæra.

Þetta marklausa vantraust gagnvart framtíðinni og komandi kynslóðum er uppspretta sóunar og ástleysis gagnvart auðlindum og gjöfum lífsins. Vantraust er sjálfseyðing.

Maðurinn tók sér vald og stjórn á umhverfinu, hann setti sig skör hærra en allt annað á landi og sjó. Hann tók sér vald sem hvílir ekki á gagnkvæmu sambandi.

VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Nema fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Virðing lífgar samband manns og náttúru, vantraust deyðir það. Firring er fylgifiskur vantrausts: sambandið dofnar og maðurinn verður einráður og hrokafullur og væntumþykjan hverfur.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Gunnar Hersveinn
lifsgildin.is

Deila